Bólguvaldandi mataræði og þunglyndi hjá konum

Við fengum þessa áhugaverðu grein lánaða hjá Hjartalíf.is. Mælum endregið með að kíkja þar inn.

Hér er tengingin á milli mataræðis, hjarta og æðasjúkdóma og þunglyndis hjá konum til umfjöllunar. Axel F. Sigurðsson hjartalæknir á Hjartamiðstöðinni skrifaði þennan ágæta pistil sem varpar ljósi á málið.   

Talið er að 12-15 þúsund Íslendingar þjáist af þunglyndi á hverjum tíma. Sjúkdómurinn er því býsna algengur hér á landi. Fleiri konur glíma við þunglyndi en karlar. Í Bandaríkjunum er talið að fimmta hver kona þjáist af þunglyndi einhvern tíman á lífsleiðinni. Sjúkdómnum fylgja skert lífsgæði, minnkaðar lífslíkur og aukin hætta á öðrum sjúkdómum, þar á meðal eru hjarta-og æðasjúkdómur, sykursýki og ýmis krabbamein.

Þunglyndi hefur margþætt einkenni. Þau eiga það sameiginlegt að draga úr lífsgleði og framtakssemi. Hæfni einstaklingsins til að takast á við daglegt líf skerðist og erfiðara verður að sinna daglegum athöfnum, rækta fjölskyldu og vini.

Truflanir í líkamsstarfsemi þunglyndra eiga margt sameiginlegt með þeim sem sjást hjá einstaklingum með hjarta-og æðasjúkdóma og efnaskiptavillu. Þunglyndir sýna oft merki um insúlínmótstöðu og truflanir í starfsemi æðaþels. Þá má oft finna merki um langvinna, hægfara bólguvirkni hjá einstaklingum með þunglyndi. Svipuð bólguvirkni finnst oft hjá sjúklingum með hjarta-og æðasjúkdóma, sykursýki og sum krabbamein. Því hafa sumir fræðimenn talið mögulegt að langvinnar bólgur séu mikilvæg orsök allra þessarra sjúkdóma og hugsanlega þráðurinn sem tengir þá saman.

Bólgustuðull

Fæða með jávæð tengsl við bólguvirkni er líkleg til að vera bólguvaldandi. Því hærri sem bólgustuðullinn er, því sterkari eru tengslin. Fæða með neikvæð tengsl er líkleg til að draga úr bólgum. Þessi verndandi áhirf eru meiri eftir því sem mínustalan er hærri.

Jákvæð tengslBólgustuðull
Sykraðir gosdrykkir0,39
Unnar kornvörur0,36
Rautt kjöt0,33
Smjörlíki0,26
Sykurlausir gosdrykkir0,23
Annað grænmeti0,1
Fiskur0,06
Neikvæð tengsl
Vín                               -0,48
Kaffi-0,45 
Ólífuolía-0,23
Grænt laufgrænmeti-0,21
Gult grænmeti-0,15

Margar rannsóknir benda til þess að mataræði geti bæði dregið úr og aukið bólguvirkni í líkamanum. Um þetta hef ég fjallað ítarlega í annarri grein. Því er hugsanlegt að mataræði okkar geti haft áhrif á hættuna á að fá þunglyndi. Bandarískir vísindamenn við Harvard háskólann í Boston leituðust nýlega við að svara þessarri spurningu í stórri faraldsfræðilegri rannsókn á konum. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu “Brain, Behaviour and Immunity”.

Hvað er bólguvaldandi mataræði?

Rannsókn bandarísku vísindamannanna náði til 43.865 kvenna sem tóku þátt í svokallaðri NHS rannsókn (Nurses´ Health Study) á tímabilinu 1996 – 2008. Konurnar svöruðu reglulega spurningum um mataræði sitt á tímabilinu.

Til að komast að því hvort bólguvaldandi mataræði tengdist hættu á þunglyndi þurftu vísindamennirnir að skilgreina hvað fæða veldur bólgum. Til þess notuðu þeir hóp kvenna sem rannsakaður var á árabilinu 1989-1990. Mæld var bólguvirkni í blóði kvennanna og hún borin saman við niðurstöður spurningalista um mataræði. Á þennan hátt var hægt að reikna fylgni á milli mismunandi mataræðis og bólguvirkni. Reiknaður var út bólgustuðull fyrir msimunandi fæutegundir (sjá töfluna hér að ofan).

Fæðumynstur sem hafði í för með sér aukna bólguvirkni einkenndist af hlutfallslega lítilli neyslu á víni, kaffi, ólífuolíu, gulu grænmeti og grænu laufgrænmeti, en hlutfallslega mikilli neyslu á sykruðum gosdrykkjum, unnum kornvörum, rauðu kjöti, sykurlausum gosdrykkjum og smjörlíki.

Ef þú vilt síður neyta fæðu sem eykur bólguvirkni skaltu forðast sykraða og sykurlausa gosdrykki, unnar kornvörur og rautt kjöt. Fiskur og grænmeti eru síður bólguvaldandi. Hófleg vínneysla, kaffi, ólífuolía, grænt laufgrænmeti og gult grænmeti getur dregið úr bólguvirkni.

Bólguvaldandi mataræði og þunglyndi

Rannsókn bandarísku vísindamannanna leiddi í ljós að konur sem neyttu fæðu sem hafði sterka tengingu við aukna bólguvirkni voru líklegri til að fá þunglyndi en konur sem neyttu fæðu sem hafði veika tengingu við aukna bólguvirkni. Töldu vísindamennirnir líklegt að tengsl mataræðis við þunglyndi skýrist að einhverju leyti af áhrifum mismunandi fæðutegunda á bólgusvörun.

Niðurstaðan er í samræmi við rannsóknir sem sýnt hafa að þeir sem halda sig við áherslur Miðjarðarhafsmataræðisins þegar kemur að fæðuvali hafa minni hættu á þunglyndi. Miðjarðarhafsmataræðið inniheldur mikið af fæðutegundum sem draga úr bólguvirkni.

Orsakir þunglyndis eru margþættar. Langvinn hægfara bólguvirkni kann að vera einn af þeim þáttum sem hefur áhrif á tilurð sjúkdómsins. Slík bólguvirkni getur jafnframt skýrt þá sterku fylgni sem er á milli þunglyndis, hjarta-og æðasjúkdóma, offitu, sykursýki og sumra krabbameina.

Rannsóknin sannar ekki að neysla á fæðu sem eykur bólguvirkni valdi þunglyndi. Faraldsfræðilegar rannsóknir af þessu tagi geta yfirleitt ekki sannað að um orsakasamhengi sé að ræða. Þrátt fyrir það hefur rannsóknin vakið talsverða athygli og er niðurstöðurnar enn ein vísbendingin um að mataræði okkar getur haft mikil áhrif á heilsu okkar og líðan.

Höfundur: Axel F. Sigurðsson

SHARE