Bollur með hindberjarjóma

Þessar dásamlegu bollur koma frá Matarbloggi Önnu Bjarkar. GEGGJAÐAR!

Fyrst þarf að baka bollurnar:

Vatnsdeigsbollur

25-30 stykki

100 gr. smjör
2 1/2 dl vatn
100 gr. hveiti
3 egg (ekki stór)
Salt

Þetta er gamalreynd uppskrift frá mömmu sem er snillingur að baka.  Ég hef hingað til komið mér undan því að baka bollur, en fannst tímabært að takast á við þær núna, ekkert múður meira.  Þær heppnuðust svona líka vel, þannig að ég kvíði ekki næsta bolludegi.

En svona gerir mamma:
Ofninn er hitaður í 200°C (180°C á blæstri).  Vatn og smjör er hitað að suðu.  Hveitinu er svo hrært útí með sleif þar til deigið er laust frá hliðunum á pottinum, þá er smá salti stráð yfir og degið látið kólna aðeins.  Síðan er eggjunum hrært útí með rafmagnsþeytara, einu í einu, þeytt vel á milli.  Deigið má ekki vera of lint, getur þurft að bæta smá hveiti í til að það standi þokkalega vel.
Bökunarpappír er settur á plötu og deigið sett með tveim teskeiðum á plötuna með góðu bili á milli.  Bollurnar eru bakaðar í miðjum ofninum í 25-30 mín.  Það er mikilvægt að OPNA EKKI OFNINN fyrstu 20 mín.Kældar og fylltar eftir þínum smekk. Ef þú vilt fá gljáa á bollurnar er gott að pensla þær með þeyttu eggi.

Bollur með hindberjarjóma

150 gr. hvítt súkkulaði
50 gr. pistasíuhnetur, saxaðarFylling:
200 gr. frosin eða fersk hindber
3 msk. flórsykur
2 msk. sítrónusafi

2 dl rjómi, þeyttur

Dásamleg fylling fyrir þá sem eru hrifnir af berjarjóma, hvítu súkkulaði og pistasíum 😉 Hér er mín uppáhalds uppskrift og bestu bollur ever. Gömul og þaulreynd uppskrift frá mömmu, sem meira að segja ég gat bakað þokkalega skammlaust 😉

Svona gerum við fyllinguna:
Súkkulaðið er brotið í skál og brætt yfir vatnsbaði.  Kælt í smástund áður en því er smurt ofaná bollurnar og söxuðum pistasíum er dreyft ofaná, kælt.  Ef berin eru frosin eru þau látin  skál í örbylgjuofn í 4-5 mín. á lágan hita þar til þau eru afþýdd, annars eru fersk ber, flórsykur og sítrónusafi sett í blandara og maukað.  Maukið er svo pressað í gegnum sigti svo kjarnarnir úr berjunum verði eftir.  Rjóminn er þeyttur og berjamaukinu er blandað samanvið.  Rjóminn er settur í sprautupoka, bollurnar eru klofnar með hníf og rjómanum er sprautað á neðri helminginn en hinn svo lagður ofaná.
Verði þér að góðu 🙂

SHARE