„Borgarbúar vita best hvað vantar í hverfin“

Eins og við sögðum ykkur frá á dögunum er nú í fullum gangi verkefnið Betri hverfi í Reykjavíkurborg. Við spjölluðum við Bjarna Brynjólfsson sem hefur verið viðriðinn verkefnið frá byrjun.

Sem Reykvíkingi finnst mér frábært að íbúar geti komið með hugmyndir að verkefnum sem borgin skoðar í fullri alvöru og stillir síðan upp til kosninga.  Þetta er alvöru íbúalýðræðisverkefni sem hefur breytt miklu til hins betra í hverfunum,“ segir Bjarni og segir jafnframt: „Borgarbúar sem nota hverfin á hverjum degi vita manna best hvað vantar í þau og hvar þarf að taka til hendinni. Þessar kosningar snúast fyrst og fremst um það.“

Þessi tegund kosninga fór fyrst fram árið í 2009 en þá stillti borgin sjálf upp hugmyndum í hverfunum sem kosið var um og það eina sem þurfti til auðkenningar var kennitala. Frá 2012 hafa síðan verið haldnar árlegar íbúakosningar um hugmyndir sem íbúarnir sjálfir hafa skilað inn á vefinn Betri hverfi. Reykjavíkurborg hefur varið alls 900 milljónum til að framkvæma hugmyndir íbúa sem kosnar eru.

„Þetta er tvískiptur ferill,“ segir Bjarni „Fyrst leitar Reykjavíkurborg eftir hugmyndum frá íbúum í mánuð. Það var gert síðast í fyrrahaust. Borgin fer síðan yfir allar hugmyndirnar sem safnast ásamt hverfisráðunum og stillir upp allt að 20 hugmyndum í hverju hverfi sem kosið er um. Núna erum við að kjósa í fjórða sinn með alvöru auðkennum, rafrænum skilríkjum og íslykli sem tryggir öryggi atkvæðanna.“

Bjarni segir okkur að viðbrögð við verkefninu hafi verið almennt mjög góð og í samanburði við sambærileg verkefni erlendis hafi þátttakan verið afar góð, en hún hefur verið 5-8% í gegnum tíðina. „Íslenskt samfélag er  tölvuvætt og sjálfum finnst mér að þátttakan mætti því alveg vera meiri. Reykjavík er eina sveitarfélagið sem hefur haldið rafrænar kosningar ár eftir ár. Ég vona að Reykvíkingar séu að kveikja á þessu smám saman. Við höfum fengið nokkrar vísbendingar um að áhuginn sé að aukast,“ segir Bjarni en tjáir okkur líka að með hverju árinu sem líður koma fleiri góðar hugmyndir, íbúasamtök í hverfunum sýna kosningunum meiri áhuga núna því þau sjá að þetta virkar.

„Svo er fólk farið að sjá breytingar á hverfunum sínum. Þeir sjá að það er verið að vinna markvisst í hverfunum. Þeir fá meiri gróður, betri leikvelli, æfingatæki, hjóla- og göngustíga, bætta lýsingu, fleiri bekki á völdum stöðum, nýja vatnsbrunna við göngustíga, áningarstaði, frisbígolfvelli, hundagerði og margt fleira. Ég held að það hafi einfaldlega tekið dálítinn tíma fyrir fólk að sjá breytingarnar og þess vegna höldum við áfram ár eftir ár.“

Hægt er að kjósa eins oft og manni sýnist og það  er gert til að tryggja öryggið og er í raun lykillinn að rafrænum kosningum. Þá getur enginn þvingað þig til að kjósa eins og hann vill. Þú getur einfaldlega farið í aðra tölvu og breytt atkvæðinu þínu. Íbúar geta líka kosið í hvaða hverfi sem þeir vilja. Ef þér finnst hugmyndir í öðru hverfi eiga atkvæðið þitt skilið eða þú finnur ekkert í þínu hverfi til að kjósa um velurðu bara annað hverfi. Aðspurður um þetta segir Bjarni: „Við höfum heyrt fólk fetta fingur út í þetta en ég tel að þetta fyrirkomulag sé réttlátast.Ég get nefnt dæmi. Ef þú átt t.d. barn í öðru hverfi og vilt að umhverfi þess sé gott geturðu kosið hugmyndir í hverfinu sem það býr í. Eða hugmynd afa í Grafarvogi þótt þú búir í Vesturbæ.“

Kjósandinn þarf að eiga lögheimili í Reykjavík, vera orðinn 16 ára og hafa rétt auðkenni. Það er mikilvægt að fólk hafi auðkennin sín á hreinu, kunni að nota þau og hafi þau tiltæk þegar það ætlar að kjósa. Auðkennin eru eins og skilríki sem maður þarf alltaf að sýna í kosningum áður en gengið er inn í kjörklefann. Það sama gildir í þessum kosningum. Rafræn skilríki eða íslykill eru notuð í  kosningunum og fólk þarf að auðkenna sig áður en það fer inn í „rafræna“ kjörklefann og getur valið hverfi til að kjósa í. Þetta er mjög einfalt og skemmtilegt. Nú er hægt að nota rafræn skilríki í farsíma til að kjósa. Margir hafa fengið sér slík skilríki í tengslum við leiðréttinguna svokölluðu. Íslykillinn er líka auðkenni sem mjög margir eiga og nota reglulega.

„Ég vil gjarnan koma því á framfæri að ég hef heyrt fólk tala niðrandi um verkefnið, að því finnist þetta ekki vera alvöru kosningar vegna þess að hugmyndirnar séu ekki nógu stórar eða merkilegar. En það sem er merkilegast við kosningarnar er hins vegar að allar hugmyndirnar koma frá íbúunum sjálfum. Ef við tökum ekki þátt í kosningum sem snerta nánasta umhverfi okkar er okkur þá treystandi til að kjósa um stærri mál? Ef þátttaka eykst í rafrænum kosningum sem þessum tel ég að hægt væri að halda áfram og halda rafrænar íbúakosningar um nánast hvað sem er,“ segir Bjarni að lokum.

 

Tengdar greinar:

Alvöru íbúakosningar á vefnum í Reykjavík

 

SHARE