Bréf Stephens Fry til forsætisráðherra Bretlands – Grátbiður um að Ólympíuleikarnir verði ekki haldnir í Rússlandi

Stephen Fry sem er þekktur sjónvarpsmaður og leikari birti nýlega opið bréf til  Davids Cameron, forsætiráðherra Bretlands, Alþjóða Ólympíunefndarinnar og Coe lávarðar sem var formaður undirbúnignefndar leikanna í London 2012 og grátbænir þá að færa fyrirhugaða vetrar Ólympíuleika 2014 frá Rússlandi. Rússland ofsækir samkynhneigt fólk, segir Stephen í bréfinu. Við þýddum hluta af bréfinu og birtum hér:

 

Það er alveg  nauðsynlegt að vetrar Ólympíuleikarnir verði ekki haldnir í Rússlandi 2014. Hinn siðmenntaði heimur má ekki samþykkja hegðun Putins.  Putin segir að gildismat Rússa sé annað en gildismat Vesturlandabúa. Við megum ekki láta eins og við trúum því að allir Rússar standi bak við þessi óhæfuverk. Þeir hafa verið sviknir um það frelsi og lýðræði sem þeim var lofað og þeir vonuðust til að fá.  

Ég er samkynhneigður, segir Fry og ég er Gyðingur.  Móðir mín missti fjölda skyldmenna í hreinsunum  Hitlers. Þegar ég heyri af samkynhneigðum unglingum sem hafa fyrirfarið sér, lesbíum sem hefur verið nauðgað  í „leiðréttingaskyni“, samkynhneigðu fólki sem ný- nasista hrottar berja til dauða  – og lögrelgan stendur og horfir á – setur mennskuna niður og ég græt, ég græt enn og aftur þegar ég sé að sagan er að endurtaka sig. 

Sumar  Ólympíu leikarnir  2012 voru dásamlegir, meðal dýrðlegustu augnablika ævi minnar og þjóðar minnar. Ef Olympíuleikarnir verða haldnir í Rússlandi kemur blettur á samtökin og hugsjónirnar og dásemd síðustu leika gufar upp.

Stephen minnir á að 1936 lét alþjóða Olympíunefndin eins og hún vissi ekki af ofsóknunum sem hafnar voru á hendur fólki sem hafði það eitt til saka unnið að vera ekki af „réttum“ kynþætti. Ólympíuhringirnir fimm fengu að blakta í Berlin og Hitler belgdist út af sjálfsánægju. Þessu líkt má ekki gerast aftur. En það gerist ef Putin fær leikana til Rússlands 2014. Færið þá, í guðs bænum.     

Loks höfðar Stephen Fry sérstaklega til forsætisráðherrans sem hefur barist ötullega og af drengskap fyrir réttindum samkynhneigðra  í Bretlandi – oft í mikilli andstöðu við eigin flokksmenn. Ég held að þú vitir muninn á réttu og röngu. Ég bið þig að láta þá vitneskju stjórna gerðum þínum núna.   

 

 

SHARE