Íslensk börn fá breiðvirkari bólusetningu gegn greiðslu

Stúlkum sem eru á 12. ári býðst að fá bólusetningu gegn HPV-veirunni. HPV-veiran (Human Papilloma Virus) er grunnorsök forstigsbreytinga- og krabbameins í leghálsi. Veiran er mjög algeng og er talið að um 80% kvenna smitist af henni einhvern tímann á ævinni. Veiran smitast við kynmök og er einkum algeng hjá ungu fólki sem lifir virku kynlífi.

Undir HPV-veirunni eru um 100 undirtegundir og geta um 40 þeirra valdið sýkingum í kynfærum bæði karla og kvenna. Þar af eru 15-17 stofnar sem tengjast krabbameini, ekki bara í leggöngum heldur einnig í endaþarmi og ytri kynfærum karla og kvenna, en einnig í munnholi, hálsi og berkjum og smitast þá við munnmök. Sumar af þessum veirum geta valdið kynfæravörtum.

Eins og fyrr segir, býðst stúlkum á 12. ári að fá bólusetningu við veirunni samkvæmt samþykki Alþingis, árið 2010. Bólusetningin hefur ekki verið í boði fyrir drengi hingað til, nema þeir biðji sérstaklega um hana og greiða fyrir hana. Við höfðum samband við Landlæknisembættið og spurðumst fyrir varðandi þetta og Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir á Sóttvarnasviði gaf okkur greinagóð svör: „Þegar bólusetning fékkst samþykkt af ráðuneyti 2010 vegna bólusetningar stúlkna var aðaláherslan á vörn gegn leghálskrabbameini og bólusetning drengja hafði þá lítið sem ekkert verið rannsökuð. Við höfum notað Cervarix og upplýsingar um gagnsemi þess fyrir drengi eru nú komnar fram, en vegna orðalags í reglugerð um bólusetningar hefur samt ekki verið hægt að víkka þær út til drengja. Núna er komin niðurstaða frá ráðuneyti um að drengir verða bólusettir frá árgangi 2011 og síðar, frá hausti 2023. Reglugerðabreyting er þó ekki komin og því hefur ekki verið fjallað um þetta sérstaklega á vef Landlæknis.

Cervarix® er bóluefnið sem stúlkurnar fá. Það veitir afar góða vörn gegn týpum 16 og 18 sem eru algengustu orsakir leghálskrabbameins auk þess sem það veitir vörn gegn nokkrum skyldum veirutýpum sem einnig tengjast krabbameinum vegna svokallaðs krossónæmis (31/33/45). Þetta bóluefni hefur aðallega verið rannsakað á stúlkum en í seinni tíð hefur komið í ljós að drengir svari bólusetningu jafn vel og stúlkur, og farið er að nota það fyrir bæði kynin í Noregi.

Hinsvegar er komið annað bóluefni á markað sem er breiðvirkara gegn krabbameinum, en það bóluefni heitir Gardasil 9®. Það veitir vörn gegn týpum 16 og 18. Gardasil 9® inniheldur vörn gegn 5 krabbameinstengdum HPV-týpum til viðbótar við týpur 16 og 18, auk vörtuveira 6 og 11. Gardasil 9® er nú t.d. notað í Danmörku, bæði fyrir stúlkur og pilta.

Auðvitað viljum við öll börnum okkar það allra besta og sjálf á ég 3 dætur sem ég hefði viljað að fengju Gardasil 9® en við, foreldrar, fáum engar upplýsingar um þetta. Maður þarf að spyrja og fara krókaleiðir til að fá betra bóluefnið, já og borga 60 þúsund krónur! Semsagt, 180 þúsund krónur fyrir þrjár dætur og ef maður vill sjálfur fá Gardasil 9®, sem er alveg hægt, þarf maður örugglega að borga annað eins fyrir það. Aðspurð um þetta sagði Kamilla: „Það er ekki boðið bóluefni sem þarf að greiða fyrir í stað bóluefnis sem ekki þarf að greiða fyrir, kerfisbundið. Ef Cervarix væri slakt bóluefni væri það ekki notað, það er gríðarlega gott og mikilvægt bóluefni.“

Auðvitað er það alveg ljóst að bæði þessi bóluefni eru góð en þegar annað þeirra er betra er það auðvitað bóluefnið sem maður vill fyrir barnið sitt. En eins og staðan er í dag, er það bara í boði fyrir þá sem vita af því og hafa efni á því og það er alls ekki á allra færi að borga 60 þúsund krónur fyrir bólusetningu.

Fyrir þær konur sem hafa áhuga á að fá bólusetning segir Kamilla að hægt sé að leita til heilsugæslunnar með það. Hún segir okkur jafnframt að „útboð vegna bóluefna í almennum bólusetningum eru gerð á 4-6 ára fresti. Gardasil 9 var ekki til þegar síðasti samningur fyrir Ísland var gerður, nú er að koma að nýju útboði og við munum vita eftir áramót hvaða bóluefni verður notað fyrir árgang 2011 og síðar.“

SHARE