Breytist hugsunin þegar við eldumst?

Það breytist margt þegar maður eldist, þú áttar þig á því að lífsklukkan gengur og tímaglasið er að renna út. Fólk lítur yfir æviferilinn og sér að ýmislegt í hugsun þess hefur breyst. Mig langaði að fá innsýn í huga eldri og reyndari manneskju, það voru ýmsar spurningar sem á mér brunnu, um hugsunina, langanir, missinn & lífið.

Amma, fer maður að hugsa öðruvísi þegar maður eldist en þegar maður var ungur?

 

Ég get auðvitað ekki svarað fyrir aðra en ég get svarað fyrir sjálfa mig . Ég gæti líka spurt þig sem ert um tvítugt núna hvort þú hugsar eins núna og þegar þú varst t.d. 10 ára. Auðvitað gerir þú það ekki.

Ert þú til í að segja mér aðeins frá því hvernig hugurinn sveigist og beygist með aldrinum – þú tekur eftir að ég nota ekki hugtakið um að þroskast því að ég er ekki sannfærð um að nýtt hugsunarferli sé endilega vísbending um aukinn þroska.

Um að langa í- langa til.

Þegar ég var ung var hugurinn fullur af löngunum. Mig langaði til að sjá lönd, mig langaði að læra ótal margt og mikið, mig langaði í ótal hluti, falleg föt og annað það sem mér fannst að væru lífsgæði. Svo tók við tímabil þegar ég vann að því að raungera þessar langanir, skólaseta, ferðalög og ýmis konar söfnun. Allt var þetta ágætt en nú er þessi löngun horfin. Þó er það ekki alveg rétt. Enn  langar mig til að læra og heyra hvað þið, unga fólkið eruð að læra og fást við. En hugsunin, þörfin fyrir allt þetta forgengilega hefur breyst.

 

Um að missa.

Þegar maður er ungur á maður allan tímann fyrir sér. Maður hittir vini og hugsar ekki einu sinni út í hvort maður sér þá aftur eða ekki. Það er alveg víst. Svo kemur ellin og ótal mál sem henni geta fylgt. Þú hefur átt vin alla fullorðinsævi þína og nú háir þessi vinur þinn sitt lokastríð. Þú heimsækir hann á sjúkrahúsið og spyrð sjálfa þig hvort þú munir sjá hann aftur lífs. Þetta er gjaldið sem maður greiðir fyrir að verða gamall.

 

„Ó, hversu skammvinn ævin er……………….“

Þegar ég var ung beið heil og spennandi ævi. Stundum var svo mikið um að vera að ég mátti eiginlega ekki vera að því að fara að sofa. Og enn fagna ég hverjum degi. Það hefur ekki breyst.  En á fögrum sumardögum eins og oft voru í sumar læddist stundum hugsunin að mér hvort ég fengi að eiga svona dýrðardaga eitt sumar enn eða jafnvel fleiri ! Svona hugsar maður ekki meðan maður er ungur. Þá er eins og öll lífsgæðin séu og þyki sjálfsögð.

Þakka fyrir lífið………..

Já, ég ÞAKKA FYRIR LÍFIÐ nú þegar ég er orðin gömul. Lífið var svo sjálfsagt þegar ég var ung, það var  sjálfsagt að það væri gott en nú hefur lífið kennt mér að fyrir fjölda fólks er ekki svo. Hugurinn er fullur þakklætis.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here