Bundinn við hjólastól og þráir að fljúga – Hjálpumst að!

Brandur Bjarnason Karlsson er fæddur í Reykjavík þann 2. janúar, 1982. Eftir stúdentspróf lagði hann stund á líffræði, mannfræði, félagsfræði og eðlisfræði við Háskóla Íslands. Á sumrin vann hann sem landvörður víða á hálendi Íslands. Hann var í eðlisfræðinni þegar hann veiktist fyrir átta árum og byrjaði smátt og smátt að lamast. Á fjórum árum fór hann frá því að æfa júdó í að lamast alveg. Í dag er hann mikið hreyfihamlaður fyrir neðan háls. Brandur málar myndir með munninum og stjórnar tölvu með augunum.

Hann á sér þann draum heitastan þessa dagana að komast í svifvængjaflug og segist hann hafa fengið hugmyndina að svifvængjafluginu úr frönsku myndinni Intouchable. „Fyrir fólk í minni stöðu er svo lítið hægt að gera,  en mig langaði að gera eitthvað spennandi,“ segir Brandur, sem hlakkar mikið til flugsins í sumar.

Brandur  hafði samband við svifvængjakennarann Gísla Steinar Jóhannesson og spurði hvort hann gæti flogið með sig. Gísli svaraði fyrst neitandi því vandamálið væri að lenda með hann, en Brandur er lamaður fyrir neðan háls. Brandur hafði þá fylgst með Gísla á Facebook og dreymdi um að svífa um loftin blá, frjáls sem fuglinn. Eftir að Gísli hitti Brand ákváðu þeir í sameiningu að komast yfir hindranir og láta draum Brands rætast. En til þess þarf að smíða sérstakan flugstól sem tekur fallið af Brandi við lendingu. Hanna þarf kerruna sérstaklega með þarfir lamaðra í huga, og er slík smíði kostnaðarsöm. Stefna þeir félagar á flug um miðjan júlí en til þess þarf fjármagn til stuðnings verkefninu. Gísli Steinar hyggst nýta flugstólinn áfram og bjóða fleirum lömuðum og fötluðum í flug, þeim að kostnaðarlausu, svo lengi sem til verða peningar í sjóðnum.

Félagarnir fóru af stað með verkefnið Bucket List en markmið verkefnisins eru nokkur: Fyrsta markmiðið er að láta draum Brands rætast, en aldrei áður hefur lamaður einstaklingur flogið í svifvæng hér á landi. Næsta markmið er að leyfa öðrum sem bundnir eru við hjólastól að upplifa það sama þeim að kostnaðarlausu. Til þess að ná þessum markmiðum hefur verið stofnaður sjóður sem stendur undir smíði á þeim útbúnaði sem til þarf auk annars kostnaðar.

Flestir eiga sér drauma sem þeir vilja uppfylla áður en jarðneski heimurinn er yfirgefinn. Bucket list er enska heitið yfir lista slíkra drauma, en nafnið er fengið úr samnefndri bíómynd þar sem tveir aldraðir vinir ákveða að strika út af sínum listum og uppfylla drauma sína. Að svífa um loftin blá laus við fjötra hjólastóls er efst á blaði hjá Brandi og kominn tími til að láta verkin tala.

Hér er svo heimasíða Bucket Listen þar er hægt að fá upplýsingar um hvar er hægt að leggja inn til að leggja þessu verðuga verkefni lið. Við hvetjum alla sem lagt geta sitt af mörkum og endilega líka við síðuna þeirra á Facebook.

[vimeo width=”600″ height=”400″ video_id=”96451198″]

Hér er myndband sem sýnir Brand mála sín gullfallegu listaverk með pensilinn í munninum

Föstudaginn 6. júní klukkan 17:30 verður svo haldin styrktarsýning á myndinni Intouchables í Háskólabíó til styrktar smíði á flugstól fyrir Brand.

Miðar fara í sölu föstudaginn 30. maí á midi.is. Verðið er 1500 kr.

 

SHARE