Hún Svala Björgvins er söngkona og hefur hún verið að syngja frá því hún var lítil en hún á til dæmis nokkur sívinsæl jólalög sem eru mikið spiluð um hver einustu jól. Hún vann fyrst fyrir sér sem barnapía en vinnur í dag fyrir sér sem söngkona og lagahöfundur.

Hér segir hún okkur frá sér í Yfirheyrslunni í dag.

Fullt nafn: Svala Karítas Björgvinsdóttir
Aldur: 36 ára
Hjúskaparstaða: Trúlofuð Einari Egilssyni
Atvinna: Söngkona og lagahöfundur

Hver var fyrsta atvinna þín?
Barnapía frá aldrinum 11 ára til 14 ára

Mannstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum?
Já þau voru mörg.  Ég til dæmis var oft í gulum útvíðum buxum og skærgrænni 70´s skyrtu með duplo kubba hálsmen sem ég bjó til og stórum LA Gear strigaskóm.  Þetta var á rave tímabilinu mínu.  Mér fannst þetta sjúklega smart, sem það þótti í þá tíð.

Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar?
Ég á nokkur leyndarmál sem ég mun pottþétt greina frá þegar ég verð gömul kona og segja barnabörnum frá.

Hefurðu farið hundóánægð/ur úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann?
Nei aldrei.  Ég er ekki hrædd að segja mína skoðun.  Svo hef ég alltaf farið í lit og klippingu hjá góðum vinum mínum þannig að það hefur ekkert verið neitt mál að segja þeim ef ég er ekki ánægð.

Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá?
Nei það geri ég ekki.  Mér finnst meira spennandi að kíkja í ísskápinn þeirra.

Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í?
Þau eru alveg mörg.  Ég var einu sinni að syngja í Bandaríkjunum, man ekki í hvaða borg ég var í.  Þetta var í kringum 2001 og ég var alltaf í svaka þröngum buxum á þeim tíma.  Þarna voru allavega 5000 manns að horfa, ég var að syngja á tónleikum hjá stórri útvarpsstöð og margir að spila og svona.  Og buxurnar rifnuðu að aftan og ég var ekki í neinum nærbuxum.  Það var mjög vandræðalegt og ég varð að klára showið mitt og bara passa að snúa ekki rass í áhorfendur.

Vefsíðan sem þú skoðar oftast?
Mbl.is og facebook.  Þar sem ég bý erlendis þá finnst mér alltaf mikilvægt að fylgjast með hvað er að gerast á Íslandi og líka hvað er að gerast hjá ættingjum mínum og vinum.

Seinasta sms sem þú fékkst?
Það stóð „ok“.

Hundur eða köttur?
Köttur.

Ertu ástfangin?
Já ég er mjög ástfangin og er að fara giftast ástinni minni í júlí á Íslandi

Hefurðu brotið lög?
Já en ég þori ekki að segja frá því.

Hefurðu grátið í brúðkaupi?
Já ég grenja alltaf í brúðkaupum.  Þau eru svo falleg.

Hefurðu stolið einhverju?
Já ég stal alltaf varalitum frá lang ömmu minni henni Ágústu á Staðarhóli eða amma á Hóli einsog hún var kölluð.  Mamma þurfti alltaf að skila fullt af varalitum til lang ömmu þegar ég var lítil.  Sem betur fer var ég bara þjófótt þegar ég var 5 ára.

Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það?
Ég hefði ekki hætt í ballett í Þjóðleikhúsinu þegar ég var 15 ára.  Hef alltaf séð soldið eftir því.  Var í ballet frá því ég var 9 ára og missti áhugann og var með hné meiðsli og hætti þegar ég var 15 ára.

Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun?
Ég verð með hvítt sítt hár niðrá mitti og alltaf í síðum kimono.  Ég mun búa í heitu landi og umkringd dýrum og náttúru og auðvitað með Einari manninum mínum.  Vonandi eigum við fullt af barnabörnum og barnabarnabörnum.  Ég mun ennþá syngja og ég mun vera skapandi á hverjum degi.

SHARE