Dagur jarðar

Jörðin okkar er í brennidepli í dag því DAGUR JARÐAR er haldinn hátíðlegur um allan heim 22. apríl. Milljónir manna í 190 löndum taka þátt í honum. Jörðinni okkar var fyrst gefinn þessi dagur árið 1970 og er talið að það hafi markað upphaf umhverfishreyfingar samtímans.

Umræða um umhverfisvernd hefur líklega aldrei verið meiri en hún er í dag. Enda full ástæða til þar sem afleiðingar mannskepnunnar í garð jarðarinnar eru farnar að hafa alvarlegar afleiðingar. Í skýrslu frá loftlagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem birt var fyrir skemmstu kemur fram að með áframhaldandi hlýnun jarðar aukast líkurnar á harkalegum, útbreiddum og óafturkræfum áhrifum á samfélög og vistkerfi um allan heim. En hitastig hefur nú þegar hækkað í öllum heimsálfum.

Í ár er dagur jarðar tileinkaður borgum en Sameinuðu þjóðirnar komu af stað átaki fyrir nokkrum árum sem kallast GRÆNAR BORGIR. Markmiðið er að aðstoða borgaryfirvöld og borgarbúa í átt til meiri sjálfbærni. Reykjavíkurborg hefur ekki látið sitt eftir liggja þegar kemur að umhverfisvitund og hefur nú þegar stigið skref í átt að grænni borg eins og svo mörg önnur sveitarfélög landsins. Átak í úrbótum á hjólreiðar- og göngustígum hefur nú þegar hvatt fólk til að minnka notkun ökutækja. Hugað hefur verið að góðu aðengi að fjölbreyttum útivistar- og náttúrusvæðum. Íbúum hefur verið auðvelduð endurvinnsla með aukinni þjónustu hvað sorplosun varðar.  Meira að segja vistvænar byggingar hafa risið hér á landi. Sú nýjasta, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ, þar sem m.a. var tekið mið af vistvænum byggingarefnum, sparsamri orkunotkun og aðlögun byggingarinnar að landslagi svæðisins.

Takmarkið er svo væntanlega að Reykjavík verði valin ein af grænum borgum Evrópu. Það er nefninlega ekkert svo fráleit hugmynd að litla Ísland geti gengt forystuhlutverki í framtíðinni þegar kemur að umhverfisvernd og sjálfbærni með tilliti til staðsetningar landsins, auðlinda þess og smæðar þjóðarinnar.

Heimildir:
reykjavík.is
earthday.org
eyjan.pressan.is

 

 

 

SHARE