Dekur helgarinnar

Þeir sem vilja sneiða hjá því að nota kemísk efni á húðina sína ættu líka að huga að innihaldsefnum í þeim hárvörum sem þeir nota. Af hverju ekki að búa til sitt eigið sjampó eða hárnæringu? Þá veistu nákvæmlega innihaldið. Það getur líka verið skemmtilegt og fróðlegt að lesa sig til og gera tilraunir til að finna út hvað hentar þér og þinni hárgerð best.

Það sem gerist þegar skipt er yfir í „hreint” sjampó er að jafnvægi kemst á fitustarfsemi hársvarðarins sem hefur eðlilegt pH gildi á milli 4 og 7, pH, en gildið í flestum sjampóum er mun hærra. Sömuleiðis  minnkar fituframleiðsla hársvarðarins vegna þess að venjuleg sjampó leitast við að fjarlægja alla náttúrulega fitu úr hársverðinum, sem gerir það að verkum að líkaminn fær þau skilaboð að framleiða þurfi meiri fitu í hársvörðinn.

Góð vítamín eru líka nauðsynleg til að viðhalda heilbrigðu hári, má þar einna helst nefna: B6 og B12, Seleníum sem hjálpar þurum hársverði. E-vítamín eykur blóðrásina og A-vítamín kemur í veg fyrir þurrk.

Ilmkjarnaolíurnar hafa víðtæka verkun ef þær eru 100% hreinar, sömuleiðis virka þær vel sem náttúruleg rotvörn þannig að hægt er að útbúa dáldið magn í einu.

Jurtasápa er undirstaðan í sjampó uppskriftunum hér fyrir neðan. Ýmsar tegundir eru til, en best er að hafa sápuna “hreina” án allra aukaefna, t.d. frá Undur náttúrunnar eða Jurtaapótekinu.


Milt sjampó  fyrir allar hártegundir

120 ml jurtasápa
10 dropar salvíu-ilmkjarnaolía
10 dropar sítrónu-ilmkjarnaolía
15 dropar eucalyptus-ilmkjarnaolía
5 dropar piparmyntu-ilmkjarnaolía

Ilmkjarnaolíunum blandað saman  við jurtasápuna og hrist vel.

Sjampó fyrir þurrt hár

120 ml jurtasápa
1 tsk sæt möndluolía
2 dropar lavender-ilmkjarnaolía
5 dropar gulróta-ilmkjarnaolía
1 dropi steinseljuolía

Ilmkjarnaolíunum blandað saman  við jurtasápuna og hrist vel.

 

Hárskol fyrir venjulegt og feitt hár



1/4 bolli lífrænt edik
1/4 bolli vatn

Blandað saman á spreybrúsa og úðað í hárið, hársvörður nuddaður og handklæði vafið utan um höfuð. Látið virka í 15 mínútur áður en skolað er úr. Gott að gera 1-2 í viku.

 

Háráburður gegn flösu

8 msk hnetuolía
Safi úr einni sítrónu

Blandað saman og nuddað í hársvörðinn. Látið standa í 10 mín áður er skolað er úr.

 

Djúpnæring

300 g kókosolía
3 g svartur pipar

Hitað að suðumarki, síað og sett á flösku. Nuddið í hársvörðinn og gott að láta vera yfir nótt.

SHARE