Detox bað sem róar og hreinsar

Bað sem hreinsar óæskileg efni úr líkamanum og húðinni, er það til? Ég var ekki svo viss en ákvað að láta reyna á það eftir allt saltið, sykurinn og gómsæta jólamatinn sem ég og landinn höfum legið í yfir hátíðirnar.
Með bjúgaða putta og sokkin augu leitaði ég í frumskóg pinterest að skyndilausn sem gæti losað mig undan kvölum þess ofalda. Loks kom ég auga á eitthvað nógu einfalt fyrir mig, bað sem á að losa okkur við bjúg, róa taugarnar og skola út óæskilegum efnum líkamans.
Ég rúllaði inn í eldhús, barðist við að koma fingrunum sem voru orðnir þrefaldir af stærð ofan í saltstaukinn og reyndi að finna olíur í lyfjaskápnum sem er hægara sagt en gert þegar augun eru sokkin inn í útblásnar sykraðar kinnarnar.

Loksins hafði ég fundið allt sem ég þurfti og nú var ekki seinna. Ég lét renna í bað, helti detoxblöndunni út í, náði mér í bók og kom mér vel fyrir í heitu baðvatninu. Og viti menn, baðið stóð sko ekki á sér og 30 mínútum seinna gat ég náð hringunum af fingrunum, ég sá út um glyrnurnar og ég var ekki lengur að drukkna í undirhöku og allt á meðan ég las Lygina hennar Yrsu minnar.

Ég var svo ánægð með útkomuna að ég varð að deila henni með ykkur og vona að þetta slakandi detox bað hjálpi ykkur eins mikið og það hjálpaði mér.

Detox bað

1/4 bolli sjávarsalt eða Himalayan salt
1/4 bolli epsom salt
1/4 bolli matarsódi
1/3 bolli Eplaedik 
10 dropar af uppáhalds ilmkjarnaolíunni (ég notaði Lavender olíu)

Blandið saltinu saman við matarsódan og hellið sjóðandi vatni saman við. Leyfið þurrefnunum að leysast upp í vatninu.
Látið renna í heitt bað og hellið eplaedikinu út í vatnið. Bætið saltmixtúrunni út í baðið og hellið að lokum olíunni út í. Það má líka gera þetta enn meira kosý og skella rósablöðum út í vatnið.

Njótið þess svo að liggja þarna í 30 mínútur eða lengur, kveikið þess vegna á kertum og gluggið í bók eða tímarit.
Þetta er sko sannarlega detox að mínu skapi 😉

 

SHARE