„Ég fæddist til að klúðra lífi mínu“

Þann 15. nóvember mun koma út bókin Hvernig á að rústa lífi sínu og vera alveg sama, en bókina skrifar Sævar Daní­el Kolanda­velu um æsku sína. Hann segir á Facebook síðu bókarinnar:

Vopnaður sígarettum og úreltri tölvu lagði höfundurinn af stað í leit að uppljómun í gegnum sjálfstortímingu. Og snefil af klámi.

Þetta er sagan.

Hér er brot úr bókinni og það er greinilegt að þessi bók mun verða áhugaverð og öðruvísi en allt sem við höfum áður lesið:

———————

Þegar ég var 10 ára gamall fékk ég mína fyrstu greiningu. Sálfræðingurinn sem kunni ekki að rökræða greindi mig með andstöðu-mótþróaröskun á háu stigi. Ég var mjög andsnúinn þeirri greiningu. Líka lyfjunum sem hann sendi mig heim með. Þau voru líklega hugsuð sem líknandi meðferð fyrir móðir mína frekar en að sálfræðingurinn hafi haft mikla batavon fyrir mína hönd. Mamma sagði samt hverjum sem vildi heyra hversu mikill léttir sjúkdómsgreiningin væri og var hæstánægð með gjörbreytt atferli mitt eftir að lyfjagjöf hófst. „Óbein lyfleysuáhrif eru helvíti magnað fyrirbæri“ hugsaði ég í hvert skipti sem ég skyrpti töflunum í klósettið. Ég skildi aldrei af hverju umhverfi mínu fannst svona mikið stórmál að ég vildi vera minn eigin herra og taka mínar eigin ákvarðanir.

„Óbein lyfleysuáhrif eru
helvíti magnað fyrirbæri“

Staðreyndin um að móðir mín væri ekkert spes í ákvörðunum hafði afhjúpað sig fyrst þegar ég var á leikskólaaldri og hún vandi sig á að koma inn í herbergi til okkar systkinanna að næturlagi til að tilkynna að hún væri að fara drepa sig áður en hún hljóp út í vetrarnóttina. Ég hljóp á eftir henni grenjandi, ekki endilega því ég myndi ekki vilja vera án hennar, heldur því að ef hún myndi standa við stóru orðin þýddi það að ég yrði eftir hjá stjúpa mínum. Hugsunin um að vera áfram með honum um ókomin ár hefði getað fengið hvern sem er til að sjá sjálfsmorð sem langþráð frí á betri stað. Uppreisn mín í lífinu byrjaði þegar ég hitti hann í fyrsta skipti 3 ára gamall og hugsaði með mér að ég myndi aldrei viðurkenna þennan mann sem föður eða yfirvald á nokkurn hátt. Sú ákvörðun var sett undir prófstein næstu 12 árin. Matarlausu dagarnir, sumrin sem ég eyddi lokaður undir stiga, margra klukkustunda ísköld böð, blóðugar barsmíðar, kvikindislegar niðurlægingar fyrir framan vini mína – t.d. að vera hent út nöktum í landsbyggðarvetrarnóttina og þurfa að finna upp leiðir til að frjósa ekki í hel – veittu hugmyndafluginu innblástur í að uppgvöta skapandi leiðir til að segja honum og mömmu að fokka sér.

„Ég myndi aldrei viðurkenna
þennan mann sem föður eða
yfirvald á nokkurn hátt“

Móðir mín og stjúpfaðir unnu hörðum höndum að því að samviska þeirra og hugsanir yrðu sem líkastar spænska rannsóknarréttinum. Svo týnd í leikritum um að þau væru ekki jafngeðveik og þau voru, sviðsett í skuggahverfum skýjaborganna um fyrirheitna landið, að þau gátu ekki komið út úr sér orði um atburði lífsins án þess að allt klabbið hryndi beint í jarðsprengjusvæðið sem höfuðið á þeim var. Þetta þvingaði mig til að verða röntgenmyndavél á mannleg samskipti. Ekki því ég væri að reyna verða einhver skilgreining í bók um meðvirkni. Ég hafði engan áhuga á því að bjarga fjölskyldunni, maður reynir ekki að búa til afgangamáltíð úr því sem er þegar búið að breyta í skít. En ég var forvitinn um hvaða atburðir höfðu ollið kalda stríðinu í það skiptið. Ég náði pælingunni um að flýja heiftarlegan alkahólismann, það að horfast í augu við fortíðina og sjálfan sig inn í hin ofsafengnu trúarsamtök Votta Jehóva – en að búa á Selfossi? Engin ætti að hata sjálfan sig svo mikið. Svo þarna var ég. Eini svarti Vottur Jehóva með framandleg hegðunarvandamál sem hlustaði á rapptónlist og bjó á Selfossi árið 1992. Gangandi nauðugur milli húsa til að að fylgjast með geðsjúkdómasafninu foreldrum mínum mæta óvelkomið í heimsókn til að myrða alla möguleika mína á félagslífi undir yfirskyninu „að vera boða fagnaðarerindið“ í fjögur þúsund manna slúðurskuði. Ég lærði reyndar að það að reyna horfa aftur fyrir sig í gegnum bringuna þýðir ekki endilega að fólk þekki þig ekki aftur næst þegar það sér þig. Þó þú sért með hendina fyrir augunum. Kjöraðstæður til að byrja tilraunir til að falla inn í samfélagið. Ég var ekki í minnihlutahóp, ég var einn. Þegar uppreisnargirni mín tók sér bólfestu í skólaumhverfinu varð ég fljótt vandamál sem yfirvöld sáu sér skylt að leysa. Kurteisislegar athugasemdir mínar um að mitt nánasta umhverfi væri vandamál fengu ekki meiri athygli en að vera álitin augljóslega ófyrirleitin lygi einhvers sem kunni ekki að skammast sín. Þarna lærði ég að það skipti engu hvort ég lygi eða segði satt, ég var vandamál.

Svo þarna var ég.
Eini svarti Vottur Jehóva með
framandleg hegðunarvandamál

Þrátt fyrir að vera algjörlega laus við félagslegt umhverfi upplifði ég karlmennskulega þörf fyrir að sigra heiminn, sem var í beinni mótsögn við algera uppreisn mína og afneitun á honum. Sjálfsmyndavandamálin byrjuðu snemma. Fimm ára gamall gekk ég um með batmanskikkju og lögregluhúfu og bjargaði sælgæti úr hillum kaupfélagsins. Sex ára mætti ég í skólann og var búinn að kenna sjálfum mér að lesa til vera örugglega mest framúrskarandi, en fór beint í að slást við stærsta strákinn í bekknum og gerði heiðarlega tilraun til að kveikja í steinsteypuskólanum með eldspýtum. Sjö ára æfði ég líkama minn linnulaust til að verða kraftakall þegar ég yrði stór og stoppaði bara til að reykja. Ég skrópaði í skólann en faldi mig síðan á bókasafninu og las heimsbókmenntir allan daginn. Ég betlaði slagsmál, lét ekkert tækifæri til þess að ögra fara til spillis en eyddi kvöldunum með vasaljós undir sæng skrifandi ljóð og smásögur þegar ég átti að vera farinn að sofa. Ég man eftir þeim fáu skiptum sem ég labbaði í skólann staðráðinn í því að „haga mér vel“ því mig langaði að vera góður. Eftir að hafa sprautað úr slökkvitæki yfir samnemendur mína sneri ég aftur heim og velti fyrir mér af hverju ég gæti ekki bara verið venjulegur. Og þeir eflaust líka.

Meðan að flestir finna kassann sem heimurinn treður þeim í þrengja að sér þá komst ég engan veginn í minn. Ég átti að hýrast í honum ásamt því að fara í smáatriðum eftir öllum tilmælum í eldgömlu, tæplega milljón orða hjátrúarriti sem varð til í samfélagi fyrir mörgþúsund árum þar sem það þótti eðlilegt að senda stelpur út í eyðimörk á meðan þær væru á blæðingum, fólk sór fyrir að hafa séð stafi breytast í snáka og besta hugmynd gáfaðasta manns þess tíma var að reyna skera smábarn í tvennt. Annars myndi ég tortímast í hræðilegustu atburðarrás mannkynsins fyrir að vera ekki góður. Þetta var reyndar fyrsta bókin sem fór í almenna dreifingu í sögunni en á sama tíma var fyrsti sjálfsalinn úr steini og kork líka búinn til. Hann sprændi víst smá heilögu vatni sem menn gátu sullað á sig áður en þeir héldu á þá gríðarlega vinsælu fjölskylduskemmtun að horfa á þræla drepa hvorn annan eða vera étnir af ljónum og górillum. Ég reyndi nokkrum sinnum af einlægni að haga mér eins og fyrir mig var lagt í von um hugarró en það gekk ekki upp eðlisfræðilega. Það virtist kristaltært fyrir mér að lögmálin sem heimurinn bjó sér til voru algjört drullumall. Og þau höfðu ekkert að gera ofan í kassann. Á sama tíma upplifði ég líka gríðarlega sterka þörf fyrir að sýna heiminum að hann hefði rangt fyrir sér, ég væri ekki aumingi og einn daginn myndi ég bjarga honum frá sjálfum sér. Stóra spurningin afhjúpaði sig og olli mér miklum kvíða. „Hef ég rangt fyrir mér? Er kerfið mögulega í stakasta lagi og ég í raun og veru dæmdur til að lifa vanhæfur um að aðlaga mig því? Ef svo er, þá er þetta að fara vera langt líf.“ Leitin að svörum við þessum spurningum heltók anda minn þegar ég var ekki vant við látinn að vinka fólki með löngutöng.

Það virtist kristaltært fyrir mér
að lögmálin sem heimurinn bjó sér til
voru algjört drullumall

Forsjálni stjúpa míns greip í taumana þegar að töp mín í slagsmálum við hann urðu naumlegri með hverju skiptinu. Afa minn fór að gruna að ekki væri allt með feldu og hvatti hann til að halda áfram að berja mig. „Þú ert ekki að yngjast og strákurinn minnkar ekki neitt.“ Fjölskyldukvöldin heima samanstóðu vanalega af mér að reyna fá mömmu til að drekka sig til áfengisdauða svo ég gæti sneytt hjá því að eiga við sjálfvorkunnardrifna árásarhneigð hennar. Ef það tókst ekki, elti hún mig vanalega um húsið haldandi á blómapotti sem var stílaður á hausinn á mér. Það var samt ekki jafnslæmt og það hljómaði, hún var iðulega búin að drekka úr sér alla samhæfingu og riðaði um eins og uppvakningur með blómapottinn í annarri á meðan hún hrundi á milli húsgagna að reyna að styðja sig með hinni. Ég var búinn að reikna út að ég hefði hálftíma til fá mér að borða, fletta í gegnum dagblaðið og koma mér niður stigann á fyrstu hæðina áður en henni tækist að staulast hættulega nálægt. Daginn eftir mundi hún að sjálfsögðu ekkert og heilsaði glaðlega meðan að ég hugsaði „Í alvöru? Þú reyndir að drepa mig í gær vínlegna belja.“ Það var komin tími til þess að yfirgefa þessa litlu paradís.

Fimmtán ára lagði ég af stað til að lifa í heiminum á mínum eigin forsendum. Í farteskinu var uppreisnarkennd sem var meira sjálfseyðandi en skilaboð í spennumyndum, mótsagnakenndur metnaður til þess að ná árangri og sjálfsmynd teiknuð af einhverjum sem ætti ekki að vera lita þegar hann er fullur. Hið fullkomna vegarnesti til þess að rústa lífi þínu. Mörgum árum seinna var ég ennþá á leiðinni að bjarga heiminum, en átti erfitt með að halda mig á áætlun fyrir öllum gengilbeinunum, flugfreyjunum eða módelunum sem trúðu allar að þær kynnu að hefta brotna vængi. Fastur milli sjálfsvorkunnar og hetjudrauma, í leit að öllu sem gat látið lífið hætta að vera svarthvítt. Stundum einsetti ég mér að verða uppljómaður, verða stórkostlegasta útgáfan af sjálfum mér. Sannur leiðtogi sem myndi leiða mannkynið áfram til betra lífs með góðu fordæmi. Fljótlega fór mig samt að gruna að það væru smávægilegir gallar við planið þegar ég gat ekki hætt að reykja eða vaknað fyrir hádegi, nema þegar ég vaknaði á næturnar til að reykja. Stanslaust rifinn og tættur á milli „góðs og ills“ og þessara tveggja andstæðu póla tilveru minnar – að vera sama um allt og að allt skipti máli – fékk ég engin svör við spurningunni um hvort væri raunverulega efnið sem tilveran væri ofin úr. Hvort ég væri geðveikur í heilbrigðum heimi eða heilbrigður í geðveikum heimi. Ég breyttist í strengjabrúðuna sem áttaði sig ekki á því hvort að strengirnir hennar væru fjötrar sem hindra hana frá því að vera frjáls eða það eina sem lætur hana hreyfast, glæðir hana lífi og drífur hana áfram. Ég hef tortímt öllu sem ég hef á einhverjum tímapunkti skilgreint sem gott. Ég hef tekið allar röngu ákvarðanirnar. Ég hef notað alla mína greind og sköpunargáfu til þess að gjöreyða öllum ummerkjum um að þarna hafi einhvern tímann verið brú. Ég hef byggt upp líf mitt þannig að það verði öfundsvert og stórbrotið bara til þess að rústa því algjörlega aftur. Ég hef gert öll mistökin, líka þau mistök að halda að ég læri af mistökunum. Vopnaður góðum ásetning og slæmri dómgreind hafa tilraunir mínar mínar til að bjarga sjálfum mér og heiminum endað á því að gera það að eyðileggja líf mitt að listformi.

Ég fæddist til að klúðra lífi mínu.
Þú finnur engan fróðari um málefnið
og ég er hér til að hjálpa þér að klúðra þínu lífi líka.

Ég fæddist til að klúðra lífi mínu. Þú finnur engan fróðari um málefnið og ég er hér til að hjálpa þér að klúðra þínu lífi líka. Ég mun sýna þér nákvæmlega hvaða eiginleika þú þarft að þroska með þér, hvernig þú öðlast þá og setur í framkvæmd í eigin lífi. Ég mun bjarga þér, svo þú getir bjargað sjálfum þér. Þarftu að láta bjarga þér? Við þurfum öll að láta bjarga okkur. Frá reikningum, stofnunum, tengdaforeldrum, ástríðulausum samböndum, tiltekt, bílastæðaleysi, fortíðinni, andvökunóttum, pólitík, skriffinnsku, námsefni, tilgangsleysi og þriðjudögum á milli tólf og þrjú. Sum okkar þurfa að láta bjarga sér frá venjulegheitum og aðrir þurfa bara hetju til að setja á stall svo þau geti gleymt eigin skort á kjarki. Þér verður bjargað frá því eina sem þessari hetju finnst þurfa bjarga heiminum frá – hversdagsleikanum.

Spurningin er bara: Þarf grár og hættulegur heimur – fullur af mannvonsku – hetju til að bjarga sér? Eða þarf hetjan hættulegan heim til þess að bjarga sjálfri sér frá meðalmennskunni?

SHARE