„Ég græt ansi oft“ – Óskar býr í Úkraínu með eiginkonu sinni

Óskar Hallgrímsson býr með úkraínskri eiginkonu sinni í Kiev og hefur búið þar í 4 ár. Hann er nýjasti gesturinn í hlaðvarpinu sem ég er í, sem heitir Fullorðins.

Óskar segir hér frá því þegar fyrsta árásin var gerð á Kiev þann 24. febrúar 2022 og hvað tók við á fyrstu dögunum. Þau búa við hliðina á lestarstöðinni og sáu lest eftir lest fara, fullar af fólki, til að yfirgefa borgina. Þau ákváðu að vera um kyrrt í bili og sjá hvað myndi gerast en þau bjuggust aldrei við að stríðið yrði eins langt og komið hefur í ljós.

Óskar segir að stríðsglæpir séu daglegt brauð og nauðganir á fólki og börnum og Rússarnir séu hættir að reyna að fela það. Þeir geri þetta allt fyrir opnum tjöldum og eru jafnvel farnir að nota efnavopn.

„Ég græt ansi oft,“ er eitt af því sem Óskar sagði við mig og það var oft sem ég þurfti að halda aftur af tárunum í þessu spjalli.

Ég lærði margt af þessu samtali og ég vona að sem flestir hlusti á þetta og heyri hvernig þetta er, í raun og veru, og eins og ég sagði á Facebook síðu minni: Ekki líta undan. Við þurfum að vita hvað er í gangi.

SHARE