“Ég hef fengið fræðslu um það hvað ungt fólk gerir á stefnumótum í dag og ekkert er nýtt undir sólinni þar!”

Viðhorf yngra fólks til eldra fólks koma fram með ýmsu móti. Viðhorf eldra fólks til eldra fólks, viðhorf okkar til sjálfra okkar eru líka mismunandi og ráða miklu um farsæld okkar. Í bók bókanna segir: lát engan líta smáum augum á æsku þína. Ég leyfi mér að líta svo á að við eigum ekki að líða að litið sé smáum augum á elli okkar. Vissulega bilar margt hjá okkur með árunum og verður jafnvel ónýtt. En eftir stendur að við komum til leiks með reynslu heillar ævi í farteskinu, reynslu sem getur verið dýrmæt þeim sem við deilum henni með.

Við höfum verið barnið sem lék sér með þau leikföng sem þá voru til, við vorum unglingurinn sem leitaði að sjálfum sér og var sjálfsagt í uppreisn eins og unglingar allra tíma hafa verið, við leituðum að ástinni og mörg okkar fundu hana, við áttum manndómsárin og erum nú komin á síðasta æviskeiðið sem er ellin. Og eins og öll hin æviskeiðin er ellin breytileg, fer misjafnlega með fólk. En á hverju sem gengur  og hvert sem æviskeiðið er erum við dýrmætar manneskjur- líka þegar atgerfi okkar líkamlegt og andlegt er ekki lengur til staðar.

Aðstæður eru þannig hjá mér í vetur að ég hef getað fylgst með þeim darraðadansi sem upphefst þegar unglingsstúlkur búa sig á stefnumót. Þegar ég svo hef spurt hvað gert er á stefnumótum nú til dags var ég leidd í allan sannleikann um það, að ekkert þýddi að segja mér frá því, ég skildi ekki svoleiðis. Lát heyra, sagði ég, það er ekki lengra en í gær í minningunni þegar ég var að búa mig á stefnumót. Er það? Virkar þetta svona??? Man maður alveg þegar maður er orðinn gamall hvernig var að vera ungur? Og af þessu hafa spunnist miklar samræður um tímann og hvað hann er afstæður og minningarnar, hvernig þær lifa.

Auk þess hef ég fengið haldgóða fræðslu um hvað ungt fólk gerir á stefnumótum nú til dags og mér er alveg ljóst að ekkert er nýtt undir sólunni

Í ömmuhorninu segir amma, sem er á áttræðisaldri okkur frá sínum hugsunum og viðhorfum.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here