Ég hef nokkuð oft fengið áminningu um að lífið er stutt

Það er einhvernveginn þannig að maður áttar sig á að lífið er stutt þegar maður horfir á eftir einhverjum yfir móðuna miklu eða greinist með sjúkdóm eða eitthvað verður þess valdandi að minna mann á að maður er ekki eilífur.

Ég hef nokkuð oft fengið þessa áminningu um að lífið er stutt, já nokkrum sinnum!

Samt hef ég alveg gleymt því og hagað mér eins og ég sé eilíf.

Þegar ég tala um að haga mér eins og ég sé eilíf þá er ég að meina að ég hef gleymt að njóta hverrar mínútu og lifa til fulls.

Hversu oft hefur maður frestað einhverju af því að…. eiginlega af því bara og hversu oft hef ég sagt seinna?

OFT….. mjög oft.

Hvenær er þetta seinna? Kemur það yfirleitt? Hver veit það ?

Ég á vinkonu sem ætlaði að gera helling seinna, hún dó fyrir nokkrum árum 39 ára án þess að „seinna“ kæmi.

Ég þekkti mann sem var að bíða eftir að fjárhagurinn yrði betri svo hann gæti farið að ferðast, hann bara safnaði og safnaði pening en fór aldrei neitt. Hann veiktist og getur ekki ferðast en á fullt af pening.

Foreldrar sem ég veit um ætluðu að eiga dag með börnunum fljótlega en þurftu bara að finna tíma í skipulaginu af því það var svo mikið að gera, þau neyddust til að taka frí þegar þurfti að jarða eitt barnanna en aldrei kom tíminn til að gera eitthvað með börnunum.

Ég heimsæki bara ömmu í næstu viku…fer í ferðalagið þegar…

Eftir hverju erum við að bíða?

Sjá einnig: Tekur upp lífið með krabbamein… allt til andláts 

Lífið er núna, lífið var í gær og verður vonandi á morgun ef við erum heppinn.

Í dag er ég orðin nokkuð góð í að lifa til fulls og er líka búin að fatta hvað það er sem skiptir mig máli. Það sem skiptir mig máli er fólkið mitt, maðurinn minn, börnin, barnabarnið, vinirnir, félagar og fólk.

Fólk er mesti auður sem til er og núið er sú stund sem við eigum.

Ég er að mestu hætt að bíða. Ég framkvæmi, ég fer að sjá leikritið, hitta vinina, kyssi manninn, knúsa krakkana, skelli mér til útlanda og svo framvegis.

Lífið er svo miklu skemmtilegra þegar maður man að það er stutt og það er alls enginn trygging fyrir því að það sé eitthvað seinna!

 

 

SHARE