Ég leitaði sjálf á göngudeild geðdeildar Landspítalans – Frásögn

Ég eignaðist litla stelpu í janúar á þessu ári. Þegar hún var 12 daga gömul fór ég sjálfviljug á geðdeild vegna þess að ég var alveg með það á hreinu að ég væri með fæðingarþunglyndi. Sem kom í ljós að var rétt hjá mér.
Ég sat heima alla daga meðan maðurinn minn fór í skólann og bara grét og grét með litlu stelpuna mína í fanginu. Ég fór ekki í sturtu, tók ekki til, borðaði ekki, hrundi niður um möööörg kíló á örfáum dögum.
Ég fékk líka svona kvíðaköst. Svitnaði, hjartað fór á milljón, varð óglatt, snjóhvít í framan og nötraði og skalf. Þetta var skelfilegt!

Ég ákvað að leita aðstoðar og fór, ásamt manninum mínum og dóttur okkar, á göngudeild geðdeildar Landspítalans. Eftir stutt viðtal hjá sálfræðingi ákvað hún, í samráði við mig, að leggja mig inn. Ég fékk að hafa litlu fjölskylduna hjá mér og fór strax inn í FMB teymið (Foreldrar Móðir Barn) þar sem ég kynntist fullt af yndislegu fólki sem vinnur í þessu teymi.
Eftir samtalsmeðferð hjá geðlækni og sálfræðingi fékk ég lyf og aðstoð við að sinna dóttur minni á daginn og smám saman tókst mér að losna við kvíðann og varð öruggari í þessu nýja hlutverki – að vera mamma.
Það bætti ekki úr skák að litla daman fékk heiftarlega ungbarnakveisu og grét meira og minna allar nætur frá fæðingu og þangað til hún varð eins mánaða. Við gengum með hana um gólf til skiptis og sváfum nánast ekkert. Mér fannst ég ömurleg mamma að geta ekki huggað barnið mitt. Ég grét oftast með henni.

Einum deginum mun ég aldrei gleyma. Það var dagurinn sem hún grét í 14 tíma samfleytt. Ég barði í borðið og sagði hingað og ekki lengra. Ég gæti ekki hlustað á litla barnið mitt gráta svona sárt og horft á hana þjást. Maður sá nefnilega, heyrði og fann umbrotin í maganum hennar og þjáningarsvipurinn og hvernig hún engdist…..úff!
Við pöntuðum tíma hjá barnalækni og ég var tilbúin með svaka ræðu en við lentum á yndislegum manni sem vildi allt fyrir okkur gera. Hann setti hana á magakveisulyf og tveimur dögum seinna breyttist allt til hins betra. Hún fór að sofa í 8 – 10 tíma samfleytt á nóttunni og gerir enn í dag þegar hún er nýorðin fimm mánaða.

Ég skráði mig á geðdeildina þann sjötta febrúar og dvaldi þar í viku. Í kjölfarið fylgdi ákveðið prógramm sem gekk út á að við sváfum heima á nóttunni en við mægður fórum svo upp á deild þegar pabbinn fór í skólann á morgnanna. Svo fór þetta út það að pabbinn fór í skólann en við mæðgur vorum heima en höfðum kost á því að fara upp á deild ef mér færi að líða mjög illa en ég átti þó að reyna að vera heima og sinna henni svo átti ég að hringja upp á deild um hádegi og láta vita hvernig mér leið og hvernig gengi. Ég var þó enn innskrifuð á deildina en útskrifaðist þaðan 12.mars en hélt áfram í viðtölum hjá geðlækni og sálfræðingi sem vinna þarna með FMB teyminu. Útskrifaðist svo alveg 16.apríl.
Í dag finn ég enn fyrir kvíðanum en ekkert í líkingu við það sem var áður. Ég er miklu öruggari í móðurhlutverkinu og finnst ekki svona yfirþyrmandi þegar hún grætur þó það standi kannski yfir í einhvern tíma. Ég hef allt í einu öðlast mikla yfirvegun og þolinmæði sem ég átti ekki til áður og á starfsfólkinu á deild 33C á Landspítalanum mikið að þakka. Þarna er bara yndislegt fólk sem vildi allt fyrir okkur gera og aðstoða á allan hátt.
Ég var við stjórnvölin í þessari meðferð allan tímann. Fékk til dæmis svefntöflu fyrstu tvær næturnar og kvíðastillandi lyf á morgnana. Ég varð hinsvegar svo sljó af þeim að ég gat með naumindum haldið mér vakandi og sinnt stelpunni. Sagði við hjúkrunarfræðinginn að ég vildi fá eitthvað annað kvíðastillandi sem gerði mig ekki svona ruglaða og sljóa og þessu var umsvifalaust breytt.
Ég er ákaflega stolt af mér fyrir að hafa ákveðið sjálf að biðja um hjálp. Tilfinningar mínar til dóttur minnar hafa bara orðið sterkari og ástin sem ég ber til hennar er svo heit og mikil að mig verkjar stundum í hjartað þegar ég horfi á hana. Ég hef alltaf borið tilfinningar til hennar, sem betur fer en ekki svona sterkar eins og í dag. Það hlýtur að vera hræðilegt að finna ekki til neins þegar maður horfir á barnið sitt.
Það er til hjálp

Ég skrifa þetta vegna þess að ég vildi óska þess að fleiri konur hefðu hugrekki til að leita sér aðstoðar. Þetta á ekki að vera feimnismál eða eitthvað tabú. Það velur sér enginn að líða svona og það langar engum að líða svona.
Þannig að það sem mig langar að segja með þessum skrifum er:

Elsku elsku konur sem líður svona, það er til hjálp. Það er til lausn. Í guðanna bænum leitið á göngudeild geðdeildarinnar og biðjið um aðstoð. Það er engin skömm í því. Það er ekkert sjálfgefið að maður svífi um á bleiku skýi eftir barnsburð. Það bara er ekki þannig.
Þetta er ekkert til að skammast sín fyrir, ekki frekar en ef maður fengi krabbamein eða fótbrotnaði og börnin okkar eiga bara eina mömmu. Ef okkur líður ekki vel þá getum við ekki sinnt börnunum okkar eins og best verður á kosið. Ánægð mamma sem líður vel er betri mamma. Börnin okkar eiga það skilið og við eigum það svo skilið að okkur líði vel og hugsa vel um okkur.
Svona er mín saga.

Kv Þóra.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here