Ég sef svo illa, hvað er til ráða?

Eitt og annað um svefntruflanir og meðferð þeirra.

Svefntruflanir eru algeng ástæða þess að fólk leitar læknis. Talið er að u.þ.b. fimmtungur allra íbúa á vesturlöndum fái svefntruflanir einhvern tíma á ævinni. Sem betur fer eru þessar svefntruflanir vægar í flestum tilfellum og ganga yfir án sérstakrar meðferðar, en hjá hluta verða svefntruflanir langvinnar og geta sett svip sinn á allt lífið.

Greining svefntruflana

Ef einstaklingur leitar læknis vegna svefntruflana leitast læknirinn við að kynna sér heilsufar og aðstæður sjúklings gaumgæfilega þar sem svefnleysi er einkenni sem getur verið af ýmsum ástæðum svo sem óheppilegum svefnvenjum, líkamlegum sjúkdómum eða kvillum, andlegri vanlíðan eða geðsjúkdómum, af félagslegum ástæðum eða vegna aukaverkana lyfja eða vímuefna.

Við greiningu svefntruflana er samtal læknis og sjúklings langsamlega mikilvægasta greiningartækið. Á grunni þess hvernig sjúklingur lýsir svefntruflunum sínum, hvernig þær tengjast svefnvenjum, líkamlegri og andlegri heilsu, lyfjanotkun, félagslegum aðstæðum og vímuefnanotkun má ákveða frekari rannsóknir, skoðanir og velja heppilega meðferð. Einungis í undantekningartilfellum er nauðsynlegt að gera svefnrannsókn þar sem svefninn er rannsakaður á lífeðlisfræðilegan hátt með svefnrannsóknatækjum. Ef grunur er um svefnsjúkdóm er þó oftast nauðsynlegt að staðfesta sjúkdómsgreiningu með svefnrannsókn. En hafa ber í huga að allir svefnsjúkdómar sem þekktir eru í dag eru sjaldgæfir, nema helst kæfisvefn.

Óheppilegar svefnvenjur eru ein algengasta orsök svefntruflana.

Ef einstaklingur leitar læknis vegna svefnleysis er mikilvægt að kanna hversu lengi viðkomandi sefur á sólarhring og á hvaða tímum sólarhringsins það er. Flestir þurfa að sofa um 7-8 klst á sólarhring og flestum er það eiginlegt að sofa á tímabilinu um miðnætti fram til 7-8 að morgni. Svefnþörf og svefntímar eru aðeins mismunandi eftir einstaklingum. Þannig finnst sumum þeir endurnærðir eftir 6 tíma svefn, þegar öðrum nægir ekki minna en 9 tímar. Þá eru til einstaklingar sem eru nátthrafnar meðan aðrir eru morgunhanar.

Dæmi: Kona kemur til læknis og biður um svefntöflur þar sem hún geti ekki sofnað á kvöldin. Í ljós kemur að kona þessi sem er líkamlega hraust og tekur engin lyf að staðaldri er fráskilin fyrir mörgum árum og börnin flutt að heiman. Hún hætti að vinna á síðasta ári og við það breyttust aðstæður hennar að mörgu leyti. Hún þarf ekki að fara á fætur að morgninum eins og áður. Henni finnst notalegt að sofa aðeins fram eftir en er oftast komin á fætur um hálftíuleytið. Hún á það til að leggja sig eftir hádegið í u.þ.b. klukkutíma, en oft heldur hún að hún sofni ekki nema 10 mínútur til hálf tíma. Á kvöldin fer hún upp í rúm um hálfellefu, les stutta stund, en getur oft ekki sofnað fyrr en eitt hálftvö.

Ef heildarsvefntími þessarar konu er lagður saman kemur í ljós að hún sefur nógu og lengi, eða 8-9 klst.á sólarhring. Óraunhæft er að gera ráð fyrir því að geta sofnað um ellefuleytið eins og hún reynir, en þá myndi heildarsvefntíminn verða 11-12 klst . Helsta ráðið til að bæta svefn þessarar konu væri að upplýsa hana um að hún sé í raun að fá nægjanlega langan svefn, Ef hún kjósi að sofna fyrr á kvöldin sé ráðið að fara fyrr á fætur að morgninum og sleppa eftirmiðdagsblundinum. Sumu fullorðnu fólki hentar þó að sofa stuttan dúr eftir hádegið ef það vaknar snemma og er ekkert að því ef sá blundur er tekinn strax eftir hádegið og ekki hafður of langur.

Líkamlegir sjúkdómar og kvillar geta valdið svefntruflunum

Almennt er góður svefn tengdur heilbrigði, en slæmur svefn vanheilsu. Alltaf er ástæða að fara vel í hvernig heilsu einstaklings með svefntruflanir er háttað og gera lækniskoðun til að ganga úr skugga um hvort vanheilsa sé undirrót svefntruflana.

Dæmi um líkamlegar orsakir svefntruflana eru verkir, hitakóf á breytingaskeiði, andþyngsli vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma, næturþvaglát, brjóstsviði, skert nýrnastarfsemi, ofstarfsemi skaldkirtils, Parkinsonssjúkdómur. ofl.

Verkir trufla svefn

Verkir trufla oft svefn. Til að bæta svefn verkjasjúklinga er mikilvægast að reyna að slá á verki eins vel og kostur er. Rannsóknir á sjúklingum með langvinna verki hafa sýnt að þeir sem þjást einnig af svefnleysi, eiga mun ver með að afbera verkina og lífsgæði þeirra eru verri að flestu leyti en hinna sem ná að sofa.

Dæmi: Fullorðinn maður leitar ráða vegna svefntruflana. Hann segist vakna upp oft á hverri nóttu. Hann fer í háttinn um hálftólf og er oftast kominn á fætur um átta. Þá er hann búinn að velta sér í rúminu vakandi í 1-2 klst. Hann er þreyttur á daginn, þó hann reyni að leggja sig smástund. Aðspurður hvað sé að vekja hann segir hann það vera verk í hné. Hann er með slæma slitgigt í hné og hefur verið á biðlista eftir aðgerð í 2 ár, til að fá gervilið.

Verkir eru algeng ástæða svefntruflana. Í dæminu hér að ofan er mikilvægast að reyna að slá á verki til að bæta svefn, fremur en að gefa svefnlyf, gjarnan langverkandi verkjalyf sem slá á verkina alla nóttina. Flýta þarf aðgerð ef kostur er og huga að annarri meðferð á biðtímanum t.d. sjúkraþjálfun. Stundum er reynt að gefa svefnlyf með verkjalyfjum. Í tilfellinu hér að ofan þarf að hafa í huga að mörg svefnlyf eru langverkandi og valda skertri einbeitingu og athygli daginn eftir, ásamt óæskilegri vöðvaslökun og skertu jafnvægi sem gæti verið mjög varasamt fyrir þennan fullorðna mann sem væri í aukinni hættu á að detta og slasa sig.

Breytingaskeiði kvenna fylgja oft svefntruflanir

Breytingaskeið kvenna hefst oft nokkru fyrir fimmtugsaldur og orsakast af minnkandi hormónaframleiðslu eggjastokka. Kvenhormón hafa áhrif víða í líkamanum þó svo flestum sé best kunnugt um áhrif þeirra á kynfæri og stjórnun tíða. Kvenhormón hafa áhrif víða í miðtaugakerfi og eru mikilvæg varðandi geðslag og ekki síst stjórnun svefns.

Svefntruflanir eru eitt algengasta einkenni breytingaskeiðs. Algengast er að konur kvarti yfir að þær séu þreyttar og syfjaðar og sofni um leið og þær leggist á koddann, vakni síðan upp endurtekið alla nóttina, séu oft glaðvakandi og eigi erfitt að festa svefn aftur. Talið er að bæta megi svefn kvenna á breytingaskeiði með því að gefa þeim hormón.

Íslensk rannsókn á einkennum breytingaskeiðs fimmtugra kvenna (Læknablaðið, júni 2000) sýndi að svefntruflanir á breytingaskeiði voru algengar og þriðjungur kvenna taldi að svefn þeirra hefði batnað við hormónameðferð.

Hafa ber í huga að ekki eru allar svefntruflanir kvenna um fimmtugt vegna hormónaskorts. Sjúkdómar, bæði líkamlegir og andlegir, gera vart við sig í auknu mæli á þessu aldursskeiði. Lyfjameðferð með hugsanlegum aukaverkunum á svefn verður algengari. Þá eru félagslegar aðstæður oft að breytast, en allt þetta gætu verið orsakavaldur svefntruflana og þurft athugunar og íhlutunar við, fremur en hormónameðferð eða svefnlyfjagjöf til að bæta svefn.

Sjá einnig: Það þarf að taka svefnröskun alvarlega

Ég vakna til að fara á klósettið.

Þeir sem eru frískir þurfa sjaldnast að pissa á nóttunni. Hormón sem dregur úr þvagmyndun (antidiuretic hormon) kemur út í blóðið snemma nætur og gerir það að verkum að minna þvagmagn kemur í blöðru í svefni. Það magn vökva sem drukkið er fyrir nóttina hefur áhrif á framleiðslu þvags. Ekki svo ósjaldan rekur fólk svefntruflanir sínar til þess að þurfa að pissa á nóttunni.

Þetta sést vel hjá karlmönnum með stækkun á blöðruhálskirtli sem oft sofa illa. Þeir lýsa því að þeir vakni upp til að pissa. Þurfi að bíða eftir bununni, sem sé slöpp. Þeir hafi það á tilfinningunni að blaðran tæmist ekki almennilega og það dropi gjarnan úr þvagrásinni eftir að þeir hafi lokið sér af. Bæta má svefn þessara manna með meðferð á stækkun blöðruhálskirtlis.

Bjúgur er vökvi sem safnast í líkamanum. Bjúgur sést oft best kringum ökklana sem bólgna, einkum þegar líða tekur á daginn. Hann rennur oft af á næturna þegar fólk leggst út af. Þeir sem hafa bjúg sofa oft illa og þurfa oft að pissa á næturnar. Þá er líkaminn að losa vökva sem hefur safnast fyrir í líkamnum að deginum. Rétt er að láta athuga hvers vegna bjúgur safnast í líkamanum og meðhöndla undirliggjandi orsök sem gæti orðið til að bæta svefn.

Margt fullorðið fólk tekur þvagræsilyf vegna t.d. bjúgs, háþrýstings eða hjartasjúkdóma. Séu þessi lyf tekin of seint að deginum eða að kveldi geta þau verið að verka að nóttu til og valda því að viðkomandi vaknar upp til að pissa.

Ófrískar konur þurfa iðulega að fara á klósettið undir morgunn vegna þess að leg og fóstur þrýsta á blöðru sem þá rúmar minna en áður, einnig ef bjúgur er að renna af yfir nóttina.

Blöðrubólga gæti truflað svefn en gerir þó mest vart við sig að deginum með því að valda sviða og tíðum þvaglátum. Ef vart verður við þau einkenni er rétt að láta athuga þvag.

Sykursýki getur fylgt mikill þorsti og aukin þvaglát ef blóðsykur er hár. Þetta verður til þess að sjúklingur vaknar upp þyrstur og þarf að pissa oft að nóttu til. Við meðferð á sykursýki lagast þessi einkenni og svefninn batnar.

Til eru sjúkdómar, sem valda því að hormónið (antidiuretic hormone) sem dregur úr þvagframleiðslu að nóttu framleiðist ekki sem skyldi. Þessir sjúkdómar eru sjaldgæfir. Vanþroski eða hrörnun á stjórnun framleiðslu hormónsins eru algengari og sést hjá krökkum sem pissa undir og einnig hjá eldra fólki. Hægt er að gefa hormónið í formi nefúða sem þá dregur úr þvagframleiðslu að nóttu og bætir svefn..

Næturþvaglát eru eitt af einkennum kæfisvefns.

Bakflæði og svefntruflanir

Bakflæðis verður oft helst vart að nóttu til þegar lagst er út af. Magasýran rennur þá upp vélindað, kok og jafnvel niður í lungnaberkjur. Við þetta getur viðkomandi hrokkið upp af svefni, oft með andfælum og hugsanlega haft óþægindi í brjósti. Þrálátur hósti og jafnvel köfnunartilfinning getur fylgt. Ekki er víst að viðkomandi tengi svefntruflanir sínar bakflæði. Vert er líka að hafa í huga að bakflæði er fylgifiskur kæfisvefns sem er einn algengasti svefnsjúkdómurinn og truflar svefn mjög mikið.

Astmi gerir oft meira vart við sig að nóttu til.

Velþekkt er að astmi er oft verstur seinni part nætur. Sjúklingurinn vaknar vegna hóstakasta og andþyngsla og því mikilvægast að reyna að meðhöndla astma til að bæta svefn. Þetta á ekki síst við um börn sem geta verið einkennalaus þegar læknir skoðar þau að deginum.

Dæmi: 6 ára strákur kom til svefnrannsóknar vegna þess að hann vildi ekki fara að sofa á kvöldin. Hann sagðist vera hræddur við að sofna. Hann hafði um þó nokkurn tíma átt það til að koma hlaupandi upp í rúm til foreldra sinna seinni part nætur, sveittur, hræddur, móður og hóstandi, viljað sitja uppi og ekki getað sofnað. Þegar læknirinn spurði hann við hvað hann væri hræddur á kvöldin þegar hann færi að sofa sagðist hann vera hræddur að geta ekki andað í myrkrinu. Í ljós kom að drengurinn var með slæman astma sem gaf einkum einkenni seinni part nætur, olli hósta, andþyngslum, köfnunartilfinningu sem vöktu hann og ollu angist og hræðslu. Svefntruflanir og hræðsla við að sofna hurfu eftir astmalyfjameðferð.

Í slæmum astma getur þurft að meðhöndla um tíma með steratöflum (Prednisólón). Þessi lyf trufla dægursveiflu líkamans og valda iðulega svefntruflunum meðan á meðferð stendur.

Exem getur truflað svefn.

Börn með exem sofa oft illa.. Þau svitna þegar þau sofna og svitinn eykur kláða í húðinni sem vekur þau.

Svefntruflanir eru algengt einkenni samfara geðsjúkdómum.

Breytingar verða oft á svefni þeirra sem þjást af geðsjúkdómum t. d. þunglyndi, kvíða, örlyndi, geðklofa, lystarstoli eða heilabilun. Fæstir sjúkdómanna hafa þó sérstæðar svefntruflanir sem teljast einkennandi fyrir þá.

Sjá einnig: Hvað get ég gert sjálf/ur til að bæta svefninn?

Þunglyndi

Dæmi: Stúlka í háskólanámi kom í fylgd unnusta síns og leitaði sér hjálpar læknis. Henni hafði yfirleitt gengið vel í námi og haft mörg áhugamál. Undanfarnar vikur hafði hún fundið fyrir vaxandi erfiðleikum að koma sér að verki. Það olli henni áhyggjum að verkefnin hlóðust upp og henni varð lítið úr verki og einkunnir höfðu dalað. Hún fann fyrir sektarkennd og fannst hún vera að bregðast. Hún fann fyrir tilgangleysi með námi og lífi sínu. Hún hafði oftast látið sér annt um útlit sitt en nú fannst henni það ekki skipta máli þó hárið væri feitt og hún væri í sömu fötunum dag eftir dag. Matarlystin var lítil og hún hafði horast. Hún fann ekki fyrir tilhlökkun og eftirvæntingu eins og áður. Hún var þreytt og óupplögð. Verst leið henni á morgana því hún vaknaði oft um fimmleytið að morgni og fannst áhyggjurnar hellast yfir sig og verkefni dagsins vera sér ofviða.

Sagan hér að ofan lýsir þunglyndi. Þeir sem eru þunglyndir vakna oft snemma morguns og upplifa það sem erfiðasta tíma dagsins. Þunglyndi getur þó líka fylgt ofsvefn þar sem einstaklingurinn sefur óvenju þungt og mikið. Þeir lýsa svefni sínum gjarnan sem lítt nærandi og að þeir séu þreyttir og óupplagðir eftir langan svefn.

Kvíði

Kvíðnir einstaklingar eiga oft erfitt með að sofna á kvöldin, sofa grunnt og hrökkva ítrekað upp af svefni. Hugurinn er oft á fleygiferð þegar lagst er á koddann og erfitt að bægja áhyggjum og heilabrotum frá.

Geðklofi

Dæmi: Foreldrar leituðu ráð vegna ungs mann sem hafði snúið sólahringnum við. Hann var 25 ára, eðlilega greindur en hafði hætt í menntaskóla og eftir það unnið við ýmis störf en haldist illa í sömu vinnu. Hann var fáskiptinn og vinafár, en dvaldi mest heima í grúski sem enginn vissi svo sem hvað var. Fjölskyldan leitaði ráða þar sem hann hafði um nokkurn tíma ekki mætt í vinnu, vakað á næturnar en sofið mest alla daga. Hann sagðist vera að vinna að mjög merkilegu riti sem myndi breyta heimsmynd manna. Hann hafði tjáð foreldrum sínum að guðleg rödd talaði til hans og ætlaði honum mikið hlutverk í framtíðinni.

Geðklofasjúklingar snúa oft sólarhringnum við, vaka á næturna og sofa á daginn. Við geðklofa breytist raunveruleikaskyn, annarlegar hugmyndir taka hug sjúklingsins sem skynjar þær sem raunverulegar. Sjúkdómsinnsæi skortir og þeir skilja ekki ábendingar um að hugmyndir þeirra séu sjúklegar. Við meðferð og bata & aacute; undirliggjandi sjúkdómi verður svefninn eðlilegur.

Örlyndi

Dæmi: Kona olli sínum nánustu nú miklum áhyggjum með hegðun sinni. Hún hafði fyrir ári síðan verið þunglynd, lagst í rúmið, fundist hún vera sjúk og hafa verki um allan kropp Nú var hún hátt stemmd, talaði mikið og óð gjarnan úr einu í annað. Hún var stöðugt að, en kláraði fæst verk. Þau nefndu sem dæmi að hún hefði tekið öll teppi og mottur úr íbúðinni, raðaði þeim á grindverkið kringum blokkina, dustaði og þrifið, þótt komið væri langt fram á kvöld og rigning úti. Hún hefði gefið sig á tal við flesta sem áttu leið hjá, sem var mjög ólíkt henni. Hún keypti matvörur og annað langt umfram það sem þörf var á og efni leyfðu. Henni fannst hún fær í flest verk og aldrei þreytt og gat vakað nær allan sólarhringinn. Hún gat verið á ferðinni alla nóttina og truflað svefn fjölskyldunnar mikið.

Örlyndir hafa minnkaða svefnþörf og sofa lítið. Þeir eru hátt stemmdir og geta sýnt sturlunareinkenni. Þeir hafa stundum sjálfir eða fjölskyldusögu um þunglyndi og/eða örlyndi Svefninn lagast við meðferð örlyndis.

Svefnsjúkdómar

Svefnsjúkdómar eru flestir sjaldgæfir, nema kæfisvefn. Sameiginlegt einkenni þeirra er mikil dagsyfja. Mikil dagsyfja með eða án svefntruflana ætti því að leiða hugann að svefnsjúkdómum, en greining þeirra þarfnast svefnrannsóknar.

Lyf geta valdið svefntruflunum

Mörg lyf geta truflað svefn t.d. háþrýstilyf, einkum betablokkerar. Þvagræsilyf, nýrri gerðir þunglyndislyfja, sterar, theopyllamin, Parkinsonlyf svo eitthvað sé nefnt. Einnig er fráhvarf frá svefn-, þunglyndis- og kvíðastillandi lyfjum algeng orsök svefntruflana.

Þá ber að hafa í huga að ýmis vímuefni hafa mikil áhrif á svefn og geta valdið svefntruflunum bæði við notkun og ekki síður við fráhvarf, t.d. alkóhól, kaffi, tóbak, hass og amfetamín.

Félagslegar ástæður svefntruflana

Félagslegur vandi eins og truflun frá umhverfi (hávaði, ljós, óþægilegt rúm, grátandi börn o.s.frv.) áhyggjur af ættingum, fjármálum, getur líka haft veruleg áhrif á svefn.

Fleiri frábærar greinar tengdar heilsu á doktor.is logo

 

SHARE