Ég var í eiturlyfjaneyslu meðan ég var ólétt – Barnið mitt er ekki heilbrigt í dag

Mig langar að segja frá hlut sem ég hef á samviskunni. Ég get ekki rætt þetta við fólk og get ekki hugsað mér að koma undir nafni því að ég veit að ég yrði dæmd og það gæti skaðað mig mikið og eina fólkið sem mun vita hver skrifar þetta eru þeir sem þekkja mig vel og þekktu mig á þessum tíma. Mig langar samt að opna mig um þetta til að fólk viti að þetta er til og að fólk sem gerir svona hluti sér oftast eftir þeim…

Ég er 25 ára gömul og varð ólétt þegar ég var tvítug.. ég var á pillunni þegar ég varð ólétt en var í mikilli neyslu og hef örugglega gleymt því að taka hana nokkuð oft. Ég vissi ekki að ég væri ólétt fyrr en ég var komin 13 vikur á leið, ég hafði verið óregluleg og var í það mikilli neyslu að ég var ekkert að spá í því hvort ég færi á blæðingar eða ekki. Ég fékk algjört áfall þegar ég fattaði að ég væri ólétt og fór til læknis og ætlaði í fóstureyðingu. Læknirinn sagði mér að það væri ekki í boði þar sem ég væri komin alltof langt fyrir það. Ég þurfti bara að gjörasvovel að taka þessu og eftir smá tíma fór ég að hlakka til að eignast barn. Mamma mín var sjálf í óreglu en hún studdi mig eins og hún gat og ljósmóðirin mín ráðlagði mér að fara í meðferð sem ég gerði… ég ætlaði að vera edrú þar sem ég vissi að það væri slæmt að vera í neyslu á meðgöngu.. edrúmennskan entist ekki lengi og strax og ég var komin úr meðferð og hitti gömlu vinina var auðvelt að falla í freistingu.

Ég notaði allt sem ég fann og gat sprautað mig með.. mest elskaði ég samt konta. Ég tók allskonar pillur líka sem svokölluðu vinir mínir redduðu mér. Ég borðaði varla og var ótrúlega horuð. Ég mætti sjaldan í mæðraverndina og ég held að skiptin hafi kannski verið þrjú.. þau skipti hafði ég náð mér ágætlega á strik en það gerðist alltaf af og til þessar 30 vikur sem ég náði að halda barninu inn í mér. Ég fór af stað alltof snemma var bara komin 30 vikur. Barnið var mjög veikburða fyrst en fékk góða ummönnun og var nokkrar vikur á spítalanum. Það sem olli því að barnið fæddist langt fyrir tímann var eiturlyfjaneysla mín og vannæring. Barnið var að fá eiturefni og litla sem enga næringu og engin vítamín svo bætti það ekki neitt að ég reykti mikið líka.. mér var sagt að fylgjan mín væri kölkuð og að barnið hefði ekki verið að fá næringuna sem það þurfti gegnum fylgjuna. Ég fékk að heimsækja barnið og fylgdist með því allan þann tíma sem það var á spítalanum. Dóttir mín þurfti að fara í aðgerð og lungun hennar voru  óþroskuð og hún þurfti mikla hjálp.

Barnið mitt er ekki heilbrigt í dag, dóttir mín glímir við ýmis vandamál og þó ég hafi náð mér á strik gerði hún það ekki að fullu. Hún er eftir á í þroska, hreyfingum og er mjög erfið þó hún sé yndisleg. Ég elska hana ótrúlega mikið og geri allt fyrir hana en það er ótrúlega erfitt að vita að allir hennar erfiðleikar í dag eru mér að kenna og minni neyslu. Ég hætti of seint, hún var fædd þegar ég hætti í rugli og það var bara of seint. Ég vil ekki ræða þetta við neinn og fólk talar alltaf bara um að hún sé svona af því að hún er fyrirburi. Ástæðan fyrir því að hún fæddist fyrir tímann er ástandið á mér og það veit enginn nákvæmlega hversu mikinn skaða dópið sem ég notaði hafði og mun hafa á hana í framtíðinni. Hún er ennþá svo lítil og þetta á allt eftir að koma betur í ljós.

Ég vona að mín saga geti hjálpað einhverjum.. ég vona líka að mín saga opni augu stelpna sem eru óléttar og í neyslu hvort sem það er áfengi eða eiturlyf þetta er hræðilegt hvort sem það er. Hugsaðu fram í tímann, hugsaðu um það að þú ert að ganga með barn sem þú munt elska út af lífinu þegar það fæðist, hugsaðu líka um það að þú þarft að hugsa um þetta barn og trúðu mér það er ekki auðvelt að hugsa um fatlað barn. Það eru fullt af konum sem segja, ég reykti á meðgöngu eða ég drakk alla meðgönguna en barnið er í lagi eða jafnvel sögur sem eru til um konur sem voru í fíkniefnum alla meðgönguna og barnið er heilbrigt líkamlega. Þetta eru undantekningar og þó að barnið sé heilbrigt líkamlega eru oft vandamál andlega og í þroska.

ÞESSI GREIN ER AÐSEND TIL HÚN.IS EN SKOÐANIR EÐA FULLYRÐINGAR SEM FRAM KOMA Í HENNI ENDURSPEGLA EKKI SKOÐANIR HÚN.IS OG ERU FULLYRÐINGAR Á ÁBYRGÐ ÞESS SEM GREININA SENDIR INN

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here