Eggjakakan hans pabba

Þegar ég var að alast upp þá var það mamma sem eldaði langoftast (og eins og þið vitið að þá er mömmumaturinn alltaf bestur í í heimi) en það var sumt sem pabbi sá um. Hann gerði rauðvínssósuna á jólunum og brúnaði kartöflurnar, og hann bjó til bestu eggjakökur í heimi.

Svo fór ég að búa og varð auðvitað að fá uppskriftina af eggjakökunni. Hún er í raun ótrúlega auðvelt. Það sem þú þarft er egg (því fleiri egg, því meira deig, því fleiri eggjakökur), hveiti, krydd og mjólk. Þú byrjar á því að brjóta egginn og láta í skál, bætir svo því kryddi sem þig langar í (ég nota alltaf salt og pipar, karrý og papriku).

 

Svo setur þú hveiti og mjólk í sósuhristara og býrð til jafning sem þú hrærir svo saman við egginn.

Það er ekki nauðsynlegt að hafa beikon með þessu en mér finnst eitthvað mikið vanta ef beikonið vantar.

Láttu olíu á pönnu og steiktu nokkra beikonbita en rétt áður en þeir verða tilbúnir helltu þá nógu mikilli eggjahæru á pönnuna þannig að það verði botnfylli. Bíddu í smá stund og snúðu eggjakökunni við, bíddu aðeins meira og „voila“, yndisleg eggjakaka.

Ef það voru til afgangs soðnar kartöflur þá gerði pabbi oft það sem hann kallaði kartöflusalat með þessum eggjakökum.

Þá setti hann edik og sykur út á pönnuna, lét það malla bara örlítið og bætti svo kartöflum við. Kartöflurnar urðu ótrúlega góðar við þetta, eiginlega súrsætar, og pössuðu fullkomlega við eggjakökuna.

 

SHARE