Eiginkonu manns sem er með 4. stigs krabba neitað um hjálp frá kerfinu

Það mallar í mér reiðin eins og eldgos sem er alveg að þolmörkum komið.

Af hverju?

Jú þetta svokallaða velferðakerfi sem ekki finnst á Íslandi þó vel sé leitað, trúið mér, ég hef leitað í mörg ár bæði sem fagaðili og sem þjóðfélagsþegn.

Ég ætla ekkert að draga úr því að jú jú það eru til góð kerfi innan kerfisins, en það gleymist stundum að það er fólk sem þarf á aðstoð frá kerfinu að halda en ekki einhverjar tölur á blaði samkvæmt einhverjum fyrirfram ákveðnum reglum, sem einhver hópur bjó til út frá þarfagreiningu sem hópur bjó til en hefur kannski aldrei þurft á kerfinu að halda.

Manneskjan getur bara aldrei orðið töluleg, sorrý, já ég er meira en brjáluð.

Ég sjálf, hef staðið í þeim sporum að vera eiginkona krabbameinssjúklings með krabbamein á 4. stigi núna í rúm 3 ár og því fylgir allskonar rússibani. Við hjón höfum verið heppin og barráttan gengið vel og lyf haldið meinum í skefjun, þangað til núna. En karlinn minn er ótrúlegur og gerir allt til að bæta lífsgæði sín, stundar líkamsrækt, stundar vinnu eins og hann getur og við lifum fyrir einn dag í einu því við vitum að lífið er ekki endalaust.

Ég á vinkonu sem er í sömu sporum nema hennar spor eru þyngri. Maðurinn hennar er mjög veikur og þarf mikla umönnun, hún er hans ummönnunaraðili, án hennar getur hann ekki nærst.

Hann hefur þurft að gangast undir erfiðar meðferðir og vera töluvert inn á deild inniliggjandi. Álagið á alla fjölskylduna er mikið og auk þess er hann með genagalla sem gerir það að verkum að hans krabbi er arfgengur og eitt barna þeirra erfði þennan genagalla. Augljóst að áföllinn eru stór og þung.

Vinkona mín stundaði vinnu á því sviði sem hún er menntuð til og borgaði alltaf sína skatta en svo kom að því að hún bara gat ekki unnið með þessu, ef einhver skilur það ekki þá er mér allri lokið.

Það tekur alla hennar orku að sinna eiginmanni sínum og börnum og heimilislæknir setti hana í veikindafrí, einfaldlega af því hún er algerlega búin á sál og líkama. Engin orka eftir, núll.

Hún ræður ekki við að fara í endurhæfingu hjá Virk af því hún er svo örmagna að hún einfaldlega getur ekki meira. Læknirinn hennar sótti um tímabundna örorku til að hjálpa þeim hjónum og allri fjölskyldunni en Tryggingastofnun sagði bara NEI af því hún er ekki búin með endurhæfingu!

Meira ruglið, hvernig á eiginkona sem er búin á líkama og sál og er að sinna eiginmanni sínum sem er með 4. stigs krabbamein og mjög langt genginn, að stunda endurhæfingu?

Af hverju tekur Tryggingarstofnun ekki mark á læknum sem skrifa um ástand skjólstæðinga sinna?

Til hvers er þessi spurningarlisti ef ekkert á að taka mark á honum?

Þetta er alveg galið, hún á að stunda endurhæfingu samhliða því að hugsa um deyjandi eiginmann og vera orðin algerlega örmagna.

Svar óskast frá Velferðaráðherra!

Bara svona til að fræða þessa sem gera allar þessar þarfagreiningar og tölur til að raða fólki inní. Þá einfaldlega er fólk mannlegt og með tilfinningar brotnar og verður dýrara fyrir kerfið ef það fær ekki stuðning.

Þegar maður fylgir manninum sem maður elskar, sem maður á börnin með og minningarnar,í gegnum sjúkdóm sem mun að öllum líkindum sigra að lokum, þá þarf maður skilning og hjálp en ekki auka vandamál eins og að berjast við kerfið og eiga í fjárhagsáhyggjum.

Jæja ætla að hætta núna áður en það renna frá mér orð sem eru ekki birtingarhæf, en ef þú lesandi góður, vilt stíga fram máttu heyra í mér því það er tímabært að opna umræðuna um kerfið sem skaðar fólk í stað þess að hjálpa.

kristinsnorra@gmail.com

SHARE