Eitt af mínum áhugamálum eru snjósleðar!

Þegar ég var að alast upp í Djúpavík var eina leiðin til að mennta sig, að fara í heimavistarskóla sem er aðeins norðar. Fyrstu árin fóru mamma og pabbi með okkur á bát á Gjögur og svo fengum við far með öðrum börnum á bíl restina af leiðinni. Það komu allskonar hlutir fyrir í þessum bátsferðum en ég mun segja ykkur frá því seinna.

Við fjárfestum í snjósleða einhverntímann í byrjun 9. áratugarins sem var notaður til að flytja okkur í skólann, sækja mat og aðrar nauðsynjar. Við vorum mjög gjarnan 4 á sama sleðanum, Pabbi að keyra, svo ég og bróðir minn og mamma aftast. Ég var ekki hrifin af þessum ferðum í skólann oft á tíðum því við höfðum lent í allskonar atvikum á sleðanum. Sleðað fram af hengju, villst í stormi og fleira.

Eftir að ég fór að geta sleðast mér til skemmtunar er þetta allt annað mál. Þetta er bara eitt af því besta sem ég geri. Við fjölskyldan, ásamt fleirum, höfum verið með sleðaferðir á Ströndum seinustu ár og hefur það bara aukið við áhuga minn á sleðamennsku. Gamli jálkurinn sem við hjónin áttum gaf upp öndina í vetur og þá voru góð ráð dýr. Ég setti mig í samband við Ásdísi hjá Stormi og hún gerði sér lítið fyrir og lánaði mér sinn sleða: Polaris SKS 850.

Ég hafði aldrei á ævinni keyrt svona nýjan sleða og þvílíkur draumur. Nýir sleðar eru með hærri sætum svo þú situr mjög létt á honum. Tyllir þér eiginlega bara á sætið en hefur bestu stjórnina    á sleðanum þegar þú stendur og færir þungann á milli hægri og vinstri. Á gamla sleðanum sat maður á dúnmjúku sæti og var svo orðin eins og gamalmenni eftir nokkra klukkutíma á sleðanum, að drepast í bakinu.

Stýrið heldur þú svo í, í mittishæð, sem gefur þér gott svigrúm til að beygja og þú ert ekki að ríghalda í stýrið eins og var svo oft á gömlum sleðum. Það var líka dauðanum erfiðara að beygja á þessum gömlu. Á Polaris sleðanum þurfti ég nánast bara að hugsa um að beygja og sleðinn beygði. Mikill munur fyrir litla konu.

Annað sem er nauðsynlegt á sleða fyrir litlar konur eins og mig er að vera með rafstart. Að þurfa að toga sleðann í gang er ekki alveg að gera sig fyrir mig. Jú jú það tekst stundum, en sjaldnast. Mér finnst algjört lágmark, að geta komið tækinu í gang ef maður ætlar að vera á sleða, ekki þurfa að biðja einhvern að toga hann í gang. Ég vil líka ekki lenda í því að vera einhversstaðar, ein, föst uppi á fjalli, af því ég get ekki togað sleðann í gang.

Sleðinn kom mér svakalega á óvart og munurinn á milli gamla sleðans míns og þessa nýja sleða, var stjarnfræðilegur. Ég fann varla fyrir þreytu þegar ég hafði verið að sleðast í 8 tíma, því það fór svo vel um mig og allt var bara á einhvern hátt miklu auðveldara. Krafturinn í Pollanum var meiri en ég get ímyndað mér. Ég gaf alveg vel í, en sleðinn átti mjög mikið eftir þrátt fyrir það.

Nú verður víst ekki aftur snúið. Ég verð að kaupa mér sleða fyrir næsta vetur og það er alveg á hreinu að mun banka aftur uppá hjá Ásdísi í Stormi og fjárfesta í nýjum Polaris*.

Fyrir konur sem hafa áhuga á sleðamennsku og vilja kynnast fleiri konum í sportinu bendi ég á þessa Facebook síðu.

Hér er smá samantekt frá skemmtuninni á nýliðnum vetri

*Ég fékk ekki greidda peninga fyrir þessa færslu og hún er því ekki auglýsing, heldur frí umfjöllun um tæki sem ég prófaði

 

SHARE