„Ekki segja neinum að ég hafi grátið“

Ég elska snjó. Mér finnst hann fallegur, góður á bragðið (já ég borða enn snjó) og mér finnst gaman að leika mér í honum, á snjósleða eða snjóþotu eða bara að gera snjóhús. Snjórinn angrar mig ekki neitt og hræðir mig ekki. Mér finnst hann passa einstaklega vel við jólaljósin á þessum árstíma. Kannski er ég svona vön snjónum, en við fjölskyldan höfðum bara tækifæri til að ferðast milli staða á bát eða á snjósleða í æsku minni. Vegurinn í sveitina lokaðist svona í október og svo var hann bara opnaður í maí ef ég man þetta rétt.

Ég held að við þurfum bara yfir höfuð að klæða okkur betur í snjónum og kuldanum. Þá er þetta allt í lagi. Þá er meira að segja bara mjög gaman að vera í snjónum. Mamma klæddi okkur alltaf í hlýjar, prjónaðar brækur, buxur yfir. Nærbolur og stuttermabolur og peysa kom svo yfir og jafnvel lopapeysa og svo úlpa og snjóbuxur yfir eða bara hreinlega snjógalli. Svo var maður með trefil og húfu og þá beit kuldinn ekki á mann.

Það var einmitt í svona múnderingu sem ég var í þegar ég var svona 9-10 ára og það var kominn mánudagur. Við vorum ekki búin að fá fyrsta snjósleðann okkar þá og einn indælis bóndinn úr sveitinni ætlaði að koma og sækja okkur á sleða og koma okkur í skólann. Hann ætlaði með okkur „yfir skörð“ sem var þannig að við fórum á sleðanum út fjörðinn, eftir veginum og yfir fjallið á lægsta stað og komum nánast beint niður að skólanum. Mér fannst þessi leið alltaf frekar örugg og þægileg svo það var brosandi, lítil stelpa sem sat á milli bóndans og stóra bróður á sleðanum þegar við lögðum af stað. Veifuðum til mömmu og pabba og lögðum af stað.

Ferðin gekk vel og það var bjart veður og allt leit vel út. Við vorum komin að staðnum sem við förum yfir fjallið þegar sleðinn pompaði undan okkur. Snjórinn hafði gefið sig og við misstum sleðann í læk. Ekkert djúpt en samt þannig að við komumst ekkert áfram. Bróðir minn, sem er bara einu ári eldri en ég, var snemma mikill karl í krapinu og var mjög öflugur að hjálpa manninum og þeir reyndu að koma sleðanum upp úr læknum. Allt í einu breyttist veðrið. Bjarta veðrið var búið og við tók dimmur snjóstormur. Kidda litla var orðin frekar skelkuð þegar þarna var komið og byrjaði að skæla. „Mig langar heimmmmmm“, grét ég. Það endaði með því að maðurinn og bróðir minn ákváðu að koma skælandi smástelpunni í var og fóru með mig niður að eyðibýli sem var í fjallshlíðinni spölkorn í burtu. Þeir létu mig í smá skot við húsið og sögðu mér að bíða þarna og alls ekki fara neitt. Þarna var smá skjól og ég byrjaði að bíða. Á meðan fóru bróðir minn og maðurinn að reyna enn frekar að ná snjósleðanum upp úr læknum.

Ég gat horft niður að sjónum en fljótlega bætti við vindinn og þá hætti ég að sjá sjóinn. Ég sá í raun ekkert. Skafrenningurinn var orðinn svo mikill að það var allt hvítt allsstaðar. Ég settist niður í snjóinn og horfði á bleika snjógallann minn og stígvélin voru öll í snjó. Ef ég myndi bara sitja með bakið í vegginn og sæi bleika gallann í öllu þessu hvíta gæti ég verið róleg. Til þess að róa mig niður fór ég að syngja og búa til lög sem ég raulaði með sjálfri mér. Tók snjó upp með lúffunum og bjó til bolta og henti í stígvélin mín. Aftur og aftur.

Sjá einnig: Ég átti yndislega vinkonu

Allt í einu datt mér í hug að kannski kæmu þeir ekki aftur. Kannski myndu þeir ekki rata að húsinu aftur. Kannski yrðu þeir úti. Ég yrði alein eftir.

Ég byrjaði að gráta aftur. Lokaði augunum og reyndi að hugsa um mömmu mína og heita húsið mitt heima í Djúpavík. Örugga rúmið mitt og herbergið. Þegar ég ætlaði að opna augun aftur voru augnhárin frosin saman að hluta. Komin lítil grýlukerti í þau.

Ég veit ekki hversu lengi ég beið en þetta leið eins og heil eilífð. HEIL EILÍFÐ! Svo komu þeir aftur og ég byrjaði aftur að gráta. Kannski af gleði, kannski af geðshræringu. Veit ekki. Þeir höfðu ekki náð að losa sleðann. Það var því bara eitt í stöðunni. Það var að ganga heim, eða allavega inn í Reykjafjörð sem var næsti bær við Djúpavík. Nú var bara að bíta á jaxlinn!

Maðurinn tók í hendurnar á okkur og leiddi okkur í sitthvora hendina og við gengum af stað. Það var svo mikill blindbylur að við þurftum að reyna að fylgja veginum. Ég grátandi af ótta við að verða úti og týnast í storminum. Bróðir minn alltaf eins og klettur, lét ekkert á sig fá. Alltaf svo sterkur þessi elska.

Á einhverjum tímapunkti fór ég í miðjuna og þeir héldu í sitthvora hendina mína. Ég man að ég var orðin svo þreytt á rokinu og snjónum að ég lokaði augunum. Ég leyfði þeim að stjórna ferðinni og hvíldi augun fyrir þessari miklu birtu og áreiti. Það var allt svo skjannahvítt… allsstaðar.

Við höfum varla komist hratt yfir með mig svona stuttfætta en á endanum vorum við komin á sveitabæinn. Þar bjuggu tvær gamlar konur sem tóku vel á móti okkur. Þær gáfu okkur heitt að drekka og við fórum úr þungum, köldum fötunum. Það var auðvitað hringt strax í mömmu og pabba sem voru auðvitað orðin frávita af skelfingu því ekki hafði heyrst til okkar í marga klukkutíma. Þau komust hvorki lönd né strönd svo það var ekkert hægt að gera nema að bíða.

Þegar ég komst svo heim í Djúpavík var farið orðið dimmt. Maðurinn úr sveitinni var sóttur af öðrum bónda í sveitinni á sleða þegar úrkoman minnkaði.

Um kvöldið var þó eitt sem ég þurfti að gera. Dauðþreytt, búin á því gjörsamlega, hringdi ég á sveitabæinn sem góði maðurinn bjó á og bað um að fá að tala við hann. Ég hafði smá áhyggjur af þessu öllu saman. Ég var svo hrædd um að hann myndi segja börnunum sínum, sem voru með okkur í skóla, að ég hefði grátið svona mikið. Ég sagði því við hann í símann. „Hæ, þetta er Kidda í Djúpavík…… viltu ekki segja neinum að ég hafi grátið svona mikið í dag?“ Hann lofaði mér því og þá gat ég farið að sofa. Ég vildi ekki, fyrir mitt litla líf vera álitin grenjuskjóða og að ég væri ekki hugrökk.

Daginn eftir var svo gerð önnur tilraun til að koma okkur í skólann og ég held ég hafi aldrei verið jafn fegin á ævi minn að sjá skólann minn eins og þann dag.

 

1928925_115048613007_1607542_n

Til gamans er hér mynd af mér, mömmu og bræðrum mínum að fara í bátinn okkar, eftir jólaball.

Áttum eftir að sigla inn í Djúpavík. 

Fylgstu með!

Kidda á Instagram

Hún.is á Instagram

Kidda á Snapchat: kiddasvarf

Hún.is á Snapchat: hun_snappar

SHARE