Elsku börnin okkar! – Öskudagsmyndir

Það hefur örugglega ekki farið framhjá neinum að í dag er Öskudagur. Hér í borginni eru kynjavættir, prinsessur, ofurhetjur og aðrar framandi verur á gangi, en þær fara á milli verslanna og fyrirtækja til að syngja og fá að launum sælgæti eða lítinn glaðning.

Fyrir einhverjum árum síðan var það algengt að börn væru með öskupoka sem þau hengdu í hvort annað og svo var haldið grímuball. Nú í dag er þetta orðið meira þannig að börnin eru að sækjast eftir sælgætinu og börnin sem í kringum mig eru, vita fæst hvað öskupoki er.

Öskudagur er í vestrænni kristni fyrsti dagur lönguföstu sem hefst 7. viku fyrir páska og getur hann verið á bilinu 4. febrúar til 10. mars. Dagurinn hefur lengi verið mikilvægur í kaþólska kirkjuárinu og nafnið á rætur í þeim sið að ösku af brenndum pálmagreinum frá árinu áður var dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag og oft til þess notaður sérstakur vöndur. Líka þekkist sá siður að smyrja ösku á enni kirkjugesta.

Facebook hefur logað í dag af flottum myndum af krökkum í öskudagsbúningunum sínum. Mér finnst þetta æðislegur dagur og mjög gaman að sjá hverju fólk tekur upp á, í vali á búningum.

SHARE