„Er með lítið svart hjarta“ – Kastaði hrísgrjónum í móður sína

Helgi Jean Claessen er orðinn þekktur á Íslandi fyrir síðuna Menn.is, en hann hefur ritstýrt vefnum í nokkur ár. Nú á dögunum tók hann svo alfarið við vefnum og á hann sjálfur í dag. Helgi er mikill húmoristi, eins og sést á svörum hans hér að neðan en hann skellti sér í Yfirheyrsluna.

Hversu mörg börn viltu eiga?
Þau sem sannast á mig mun ég gangast við. Öðrum ekki.

Hver var fyrsta atvinna þín?
Mjólkaði beljur tvisvar á dag sex daga vikunnar – ásamt því að láta nautið næstum drepa mig.

Manstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum?
Menntaskólaárin voru eitt samfellt tískuslys – sem ég er enn að jafna mig á. Mér þótti ég reyndar mjög töff með eyrnalokk og aflitaðan topp.

Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar?
Nei – fyrir dauða minn mun ég rita niður í erfðaskránna allt það hræðilega sem ég hef hugsað eða gert. Eftir það mun mér verða afneitað af þeim sem þekktu mig – en ég verð dauður svo það bjargast.

Hefurðu farið hundóánægð/ur úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann?
Ég hef verið hundóánægður út af öllu – í gegnum allt mitt líf – en haldið kjafti því ég er svo kurteis/meðvirkur.

Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá?
Nei ég kíki ekki – ekki nema ég sé að koma í fyrsta skipti í heimsókn og viti ekki hvað er í skápnnum.

Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í?
Það væri auðveldara að telja upp atvik sem ég hef lent í – og eru ekki vandræðaleg.

Ertu með einhvern ósið/ávana?
Ég reyki ekki – og reykingamönnum finnst það mjög slæmt því þeir vilja að ég taki þátt í spillingunni með þeim.

Seinasta sms sem þú fékkst?
Þú ert pabbinn.

Hundur eða köttur?
Hundur

Ertu ástfangin/n?
Ég er með lítið svart hjarta ófært um svona væmnar og heimskar tilfinningar.

Hefurðu brotið lög?
Ég sat inni í 16 ár fyrir aðild mína að stóra fíkniefnamálinu – annars bara stöðumælasektir og svoleiðis.

Hefurðu grátið í brúðkaupi?
Nei – en ég kastaði hrísgrjónum í móður mína eftir að hún giftist fósturföður mínum. Hún hélt það væri snjór og hundskammaði mig fyrir utan kirkjuna.

Hefurðu stolið einhverju?
Ég stal mikið af snúðum þegar ég var krakki. Í seinni tíð virðist ég helst stela sálarró hinna ýmsu aðila. (misviljandi)

Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það?
Það er ábyggilega eitthvað sem gerðist þegar ég var fullur – en ég hef blessunarlega gleymt því.

Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun?
Ég sé fyrir mér gamlan mann með kindabyssu sem tekur ekki neinu kjaftæði. Sérstaklega ekki frá kindum eða fólki.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here