„Er þetta ekki kúmen þarna?“

Það er svo magnað hvað margt getur farið framhjá okkur í hraðanum. Þegar við erum sífellt á hraðferð, ætlum okkur allt of mikið, erum í kappi við okkur sjálf daginn út og inn þá fer glansinn af tilverunni. Við verðum flöt, þreytt, áhugalaus… Fegurðin í kringum okkur verður ekki athyglisverð eins og hún er, fyrr en við náum að róa hugann og taka inn umhverfið. Við missum í raun af því sem raunverulega skiptir máli.

Ég var í bíl með 95 ára gamalli drottningu fyrir ekki svo alltof löngu síðan, þessi drottning er amma mín. Henni þykir best í heiminum að eiga samverustundir, tala saman, eða jafnvel bara þegja saman. Henni er mikilvægust nærvera okkar. Henni finnst við aldrei stoppa nógu lengi. Þær eru ekki stórar kröfurnar þegar dagarnir eru hver öðrum líkir og fátt að upplifa, nærvera okkar er næg til að breyta deginum hennar í veislu.

Í þessari bílferð þar sem við keyrðum í bilaðari Reykjavíkurumferðinni, ég að keppast við að komast yfir sem flest eins og svo oft áður, hún við hliðina á mér alls ónæm fyrir hraðanum, að njóta þess að vera annarsstaðar en heima í stólnum sínum segir sú lífsreynda…. „sjáðu þetta þarna úti, er þetta ekki kúmen?“ Þessi uppgötun hennar var ágætis áminning fyrir manneskjuna mig sem ætla mér oft of mikið þrátt fyrir að vera meðvituð um að lifa hægar. Við sjáum oft ekki það sem er beint fyrir framan augu okkar vegna hraðans.

Það þarf ekki að vera kúmen, það gæti jafnvel verið barnið þitt að brosa til þín ❤

SHARE