Ert þú matarfíkill?

Matarfíkn er vel þekkt fyrirbæri sem er allt of sjaldan rætt og enn sjaldnar viðurkennt. Það þarf virka umræðu til að breyta því. Hér eru helstu táknmyndir matarfíknar og athugið að þessi listi er engan veginn tæmandi.

Skilgreining á matarfíkn

Birtingarmynd matarfíknar er óstjórnleg löngun í einföld kolvetni, aðallega sykur og hveitivörur sem eru fljótmelt og umbreytast í sykur sem flýtur um blóðstreymi líkamans.

Þegar matarfíkill borðar sykur eða hveitivörur þá minnka lífsgæði einstaklingsins töluvert einmitt vegna þessara óstjórnlegu langana. Um líkamlega, tilfinningalega, félagslega og/eða andlega/trúarlega skerðingu á lífsgæðum er um að ræða.

Ef einhver af eftirfarandi einkennum eiga við þig þá er möguleiki á að þú sért matarfíkill:

 

Líkamleg einkenni matarfíknar

Telur þú að þú getir ekki stjórnað hversu mikið þú innbyrðir af mat, þá sérstaklega ruslmat og mikið sykruðum mat?

Hefur þú prófað mismunandi mataræði eða fitubrennslu-prógrömm án þess að nokkur þeirra virki til lengri tíma?

Hefur þú gerst sek/ur um að framkvæma uppköst, notað hægðalyf, þvagræsilyf og/eða stundað mjög miklar æfingar til að koma í veg fyrir þyngdaraukningu eftir að hafa borðað mikið?

Mikið af matarfíklum eru of þungir og hafa notast við ýmsar aðferðir til að stjórna líkamsþyngd sinni (lyf, mataræði, aðgerðir o.s.frv.) en ekkert af þessum aðferðum hefur leitt til varanlegra lausna. Aðrir matarfíklar hafa aldrei verið of þungir. Þessir einstaklingar hafa stjórnað líkamsþyngd sinni með mjög öfgafullum aðferðum eins og t.d. gífurlega miklum æfingum, með því að framkvæma uppköst eða notast við hægðalyf eða einfaldlega að takmarka fæðuinntöku á mjög öfgafullan máta (anorexia). Það skiptir í raun engu máli hvað af þessum einkennum eiga við um þig. Öll þessi einkenni verða alvarlegri með tímanum og afleiðingin verður sú að líkamleg vandamál myndast eða ágerast sem geta leitt til ótímabærs og stundum sársaukafulls dauðdaga.

 

Tilfinningaleg einkenni matarfíknar

Hefurðu verið niðurdregin/þunglynd, upplifað vonleysi, sorgmædd/ur eða skammast þín yfir þyngd þinni og matarvenjum?

Verðlaunar þú sjálfa/n þig með mat þegar þú afrekar eitthvað sem er gott og jákvætt?

Borðar þú þegar þú ert í uppnámi?

Leitar þú í sykur- og/eða hveitivörur þegar þú ert pirruð/pirraður?

Matarfíklar eru oft meðvitaðir um að tilfinningalíf þeirra verður öfgafyllra eða óraunhæfara þegar þeir borða sykur og hveitivörur. Örvænting, þunglyndi og jafnvel sjálfsvígshugleiðingar gera oft vart við sig hjá mörgum matarfíklum.

 

Félagsleg einkenni matarfíknar

Borðar þú alein/n þegar enginn sér til þin?

Forðast þú að vera innan um annað fólk af því þér finnst þú ekki líta nógu vel út eða að þú eigir ekki föt sem passa nógu vel á þig?

Stelur þú mat annars fólks?

Hugsar þú meira út í hvaða matur er í boði á mannamótum í stað þess að hlakka til að hitta fólkið sem mætir á þau?

Eitt einkenni matarfíkils er mikil þráhyggja varðandi mat. Að ná augnsambandi við annað fólk eða hefja samræður eða stofna til náinna kynna við það skiptir minna máli en að finna og borða mat. Matarfíklar eiga það til að fela og stela mat til að borða í laumi.

 

Andleg/trúarleg einkenni matarfíknar

Finnst þér eins og lífið væri betra ef einungis sumt fólk eða hlutir myndu breytast?

Biður þú til Guðs (eða æðri máttar) um að hann hjálpi þér að léttast og líður eins og bænir þínar séu ekki heyrðar?

Matarfíklar eiga oft mjög erfitt með að takast á við lífið þegar þeir neyta sykurs og/eða hveitivara. Örvænting, þunglyndi, skortur á sjálfstrausti og brotin ímynd er mjög algeng hjá þessu fólki. Spurningin er hvort þú tengir þig við einhver einkenni sem minnst er á hér að ofan. Spurningin er hvort þú sért sjálf/ur matarfíkill?

 

Hvað skal gera?

Ef þú upplifir þig sem hugsanlegan matarfíkil þá er mikilvægt að leita aðstoðar fyrr, frekar en seinna. Það er oft notast við svokölluð 12 spora kerfi sem hafa gefið góða raun. Því hvet ég þig lesandi góður til að kíkja á www.matarfikn.is til að fræðast meira og leita þér aðstoðar. Lausnin á þessum vandamálum er ekki alltaf hinumegin við Atlantshafið. Vel er búið að þessum hlutum hér á landi og hjálpin er til staðar ef þörf er á.

 

SHARE