Ertu með gula tengla og slökkvara?

Við vorum að flytja í nýja íbúð og því fylgir ákveðin streita og vinna sem fólki finnst ekki alltaf skemmtileg, en á endanum verður þetta allt erfiðisins virði.

Við máluðum íbúðina og flesta veggi máluðum við hvíta sem er bjart og klassískt. Þegar við svo ætluðum að setja tengla og innstungur á sína venjulegu staði þá voru þeir hinsvegar orðnir frekar gulir og þetta leit alls ekki nógu vel út. Við veltum fyrir okkur að kaupa nýtt á alla íbúðina en svo fór ég að gúgla og fann aðferð sem ég ákvað að prófa fyrst.

Sú aðferð er svona:

Þú þarft að eiga

  • Klór
  • Vatn
  • Fötu eða stóra skál

 

Aðferð:

  1. Fylltu fötu eða stóra skál af köldu vatni og klór til helminga. Settu hlutina ofan í og passaðu að þeir séu alveg á kafi.
  2. Fylgstu vel með þeim og hefði eitthvað til að miða við, hvítan vegg til dæmis.
  3. Þegar hlutirnir eru orðnir nógu hvítir skolaðu þá í hreinu vatni með mildri sápu. Láttu þá á viskastykki til að þorna.

Ath: Passið upp á að fá ekki klórblönduna í fötin ykkar því þau eyðileggjast, þ.e.a.s. ef þau eru ekki hvít á litinn. Það getur tekið tíma að lýsa hlutina og samkvæmt minni reynslu geta sumir hlutir þurft lengri tíma en aðrir, þannig að fylgstu vel með þeim. Sumir þurftu að vera yfir nótt í skálinni. Ekki vera mikið með hendurnar í þessu og notaðu hanska ef þú átt þá. Ég notaði grillpinna úr tré til að veiða mína hluti upp úr skálinni.

20140911_191835

Gangi ykkur vel!

Eruð þið með einhver skemmtileg húsráð eða DIY? Sendið okkur endilega á ritstjorn@hun.is

SHARE