Ertu „scrappari“?

Ef að ég spyrði þig hvort að þú værir „scrappari“ þá væru mjög góðar líkur á að þú myndir svara “hvað er það?”, ekki satt? „Scrapp“ eða „scrap booking“ er t.d. mjög vinsælt í Bandaríkjunum og í stuttu máli er það að taka myndaalbúmin þín á hærra plan, þetta eru eiginlega hálfgerðar minningarbækur.

Ég er rosalegur „scrappari“, mér finnst þetta svo heillandi föndur og það besta er að þú getur haft „scrap“ bækurnar þínar eins og þú vilt, algjörlega eftir þínu höfði. Ég t.d. vil hafa bækurnar mínar frekar einfaldar, að það sé ekki mikið að gerast á hverri blaðsíðu þannig að fókusinn sé á myndunum. Þú getur notað límmiða til að skreyta blaðsíðurnar, tölur, borða, blúndur, miðann á tónleikana sem þú fórst á………… Það eina sem þú verður að passa er að pappírinn sem þú notar (bakgrunnurinn) og límið verður að vera sýrufrítt, en fyrir utan það þá getur þú eiginlega notað hvað sem er. Ég nota oftast 12×12 tommu stærð fyrir bækurnar mínar (30×30 cm), en fyrir byrjendur þá getur það virkað dálítið yfirþyrmandi að þurfa að skreyta svona stóran flöt. Þá er t.d. hægt að nota 8×8 tommu stærð eða 6×6.

En af hverju er ég að tala um þetta? Ég var viku í bústað með börnunum mínum og setti mér það takmark að á meðan ég væri þar þá myndi ég klára 8 „scrap“ síður. Það tókst ekki alveg, þegar við komum heim þá átti ég rétt eftir að fínisera 2 síður, en ég er samt mjög ánægð með útkomuna. Hvað finnst ykkur?

 

SHARE