Eru inngróin hár vandamál hjá þér?

Inngróin hár geta verið mjög þrálátt og leiðinlegt vandamál. Mjög misjafnt er hvort einstaklingar fá inngróin hár eða ekki og einnig er það svæðisbundið. Sumir fá inngróin hár í nára en ekki undir hendur eða á leggi, eins og ég segi, mjög einstaklingsbundið. En hvað er til ráða?

Mjög mikilvægt er að skrúbba húðina og auka húðflögnun og líka að bera á húðina góðan raka. Ef við ímyndum okkur að við leggjum plastfilmu yfir húðina, gefur það augaleið að hárin komast ekki upp, eins er það ef við erum með lag af dauðum húðfumum sem liggja á húðinni. Ef það er þannig, vaxa hárin upp úr hársekknum og þegar þau komast ekki í gegnum þykkt lag dauðra húðfrumna, fer það aftur niður og þá myndast bólga, roði og stundum gröftur.

Þegar hárið fær að vera lengi óáreitt, getur bólgan og gröfturinn orðið það mikill að við fáum kýli. Þegar svona er komið er mun erfiðara að ná hárunum. Til að sporna við kýlamyndun reynum við að ná hárunum með því að opna leið fyrir þau með því að skrúbba húðina og oft er hægt að kreista hárið upp eins og þetta sé fílapensill. Ef það er gert, er gott að nota plokkara til að taka hárið upp úr sekknum ef gengur að kreista það aðeins upp og sótthreinsa vel á eftir. Fara verður mjög varlega í þetta, því þetta getur valdið öramyndun og þá sérstaklega á nárasvæðinu. Ég mæli mjög sterklega með því að ef þið fáið inngróið hár sem ekki næst auðveldlega, að hringja á snyrtistofuna þína og biðja um hjálp. Þetta er ekki mikið mál fyrir snyrtifræðinga að kippa í liðinn, enda allt annað sjónarhorn sem við höfum þegar viðskiptavinurinn liggur á bekk og við með stækkunarspegil til að sjá almennilega.

Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi þetta, eða annað tengt snyrtifræði, endilega sendu fyrirspurn á inga@hun.is

Gangi ykkur vel.

SHARE