Facebook síðan „Sniðgöngum Smartland” komin í loftið

Netheimar loga af bræði vegna umfjöllunar íslenskra miðla um samskipti Mörtu Maríu, ritstjóra dægurmála mbl.is og Helgu Gabríelu heilsubloggara og er orðfarið ljótt á köflum. Nú er svo komið að sett hefur verið á laggirnar sérstök Facebook síða sem ber heitið Sniðgöngum Smartland en nokkur virkni er á síðunni, sem fór í loftið þann 25. október sl. Hafa 1989 notendur líkað við þegar þetta er ritað, en þau innlegg sem finna má þar snúast flest um hvernig best er að sniðganga dægurmáladálk þann er Marta ritstýrir á mbl.is með öllu.

Birta bara „ljótar myndir” af Mörtu Maríu 

Ber þar að líta ljósmynd af Mörtu Maríu Jónasdóttur í gervi útigangskonu, en Marta fjallaði um málefni útigangsfólks í Reykjavík fyrir skemmstu undir yfirskriftinni Svona er að vera ógæfukona og hlaut ómælda gagnrýni fyrir vikið, þar sem mörgum þótti henni takast miður upp.

 

Hæla smáviðbót sem felur færslur Smartland í vafra

„Það er til app sem heitir ósmartland. Mæli með því” segir einn notandi síðunnar og klykkir annar út með orðunum: „Hef notað þetta með góðum árangri síðustu mánuði. Felur Smartland og birtir ekki fréttir frá Smartlandi í “Mest lesið” og vísar þar í sérhannaða viðbót sem nálgast má gegnum Google Chrome Store og felur allar lífsstílsfréttir á miðlinum.

Vilja kenna tækni til að draga úr vinsældum Mörtu

Í þeim hluta sem snýr að lýsingu síðunnar kemur fram að tilgangurinn sé að „styðja lesendur til að spara músarsmellina” svo draga megi úr lestri á vinsældum á umfjöllunum Mörtu en þar segir: „Ef við hættum að lesa greinar á Smartlandi hættir hún að hneyksla fólk með fyrirsögnum. Ekki smella ef þú veist fyrirfram að þér mun mislíka innihaldið.”

 

„Get ekki líkað við síðuna því þetta er hópárás á eina manneskju”

Aðrir segja þó nóg komið; að nema ætti staðar hér, Marta eigi undir högg að sækja frá almenningi og að draga verði siðferðislega línu einhvers staðar. „Ég hef lengi tekið meðvitaða ákvörðun um að lesa ekkert frá Smartlandi. Ég get bara ekki líkað við þessa síðu vegna þess að þetta er í raun hópárás á eina manneskju og ég vil ekki taka þátt í svoleiðis,” skrifar einn notandi inn á síðuna og fær svarið: „Þetta er bara gagnrýni á Smartland og vinnubrögðin sem þar eru notuð. Hópárás er fullgróf lýsing á þessari síðu.”

Smartland rýkur upp í lestri samhliða harðorðri gagnrýni á efnistök

Hverju sem því líður hafa vinsældir Smartland færst í aukana ef marka má virka vefmælingu Modernus. Yfir 208.000 lesendur smelltu á umfjallanir Smartland Mörtu Maríu í undangenginni viku og ruku lestrartölur upp úr öllu veldi, en 37.5% aukning var á lestri dægurmálahluta mbl.is vikuna 20 til 26 október. Þykir líklegt að sú aukning sé að hluta tilkomin vegna háværra mótmæla netverja og átakalegrar umfjöllunar um samskipti þeirra Mörtu og Helgu Gabríelu.

Markaðslögmálin virðast óskeikul; en dæmi hver fyrir sig.

SHARE