Fæðingarsaga – Ingibjörg Jóna, fæddist í Volvo 740

Við áttum von á okkar öðru barni saman þann 20. mars 2008, en litla skottan okkar ætlaði að láta bíða aðeins eftir sér, svo við náðum að halda uppá eins árs afmæli bróður hennar áður en hún lét sjá sig.
Þar sem ég var ófrísk með svona ungt barn var ég orðin alveg rosalega þreytt og var búið að hreyfa við belgnum einu sinni hjá mér, en ekkert gekk. Svo ég var send aftur á FSA í skoðun og aftur var hreyft við belgnum og ég bókuð í gangsetningu daginn eftir, þetta var 31. mars 2008.

Ég og maðurinn minn fórum bara heim og höfðum það notalegt með syni okkar og systur minni sem ætlaði að passa hann daginn eftir þegar ég færi í gangsetninguna.
Yfir allan daginn fann ég svona smá seiðing, en var svo sem ekki mikið að spá í honum, þetta hafði komið líka eftir fyrra skipti sem hreyft var við belgnum.
Dagurinn var undirleikin rólegheitum, svo var farið snemma að sofa til að vera vel hvíld fyrir átökin daginn eftir, þar sem fæðing sonar mín hafði tekið 20 tíma, þá var ég búin að búa mig undir langa törn.

Um klukkan 1:30 vakna ég við smell í bumbunni og eitthvað leka á milli lærana á mér, svo ég ýti í manninn minn og segi honum að ég haldi að ég hafi verið að missa vatnið.
Hann fer á fætur rólegur en samt örlaði fyrir smá stressi, hann nær í handklæði fyrir mig og finnur til föt handa mér að fara í.
Ég finn strax að verkirnir eru virkilega harðir og reglulegir, en ég fór samt inná bað til að skola af mér vatnið á meðan rekur maðurinn minn á eftir mér, orðin frekar stressaður, sem ég skildi ekkert í. Fyrri fæðing hafði tekið 20 tíma, mér lá ekkert á að fara.
Hann náði mér loksins úr sturtunni og setti mig í gamalt pils, sem mér fannst nú frekar kjánalegt, en lét mig hafa það. Ég lét systur mína vita að við værum að fara, sem betur fer hafði hún ákveðið að gista hjá okkur.

Þegar við vorum komin í bílinn, hringdi ég í mömmu sem ætlði að vera viðstödd.

Leiðin á sjúkrahúsið, sem tekur um 25 mínútur, var hreint helvíti! Verkirnir voru að verða óbærilegir. Svo loksins þegar við komum að FSA var rembingsþörfin orðin frekar mikil og ég farin að halda í mér, svo ég gat ekki staðið upp.
Maðurinn minn fór og hringdi bjöllunni á ljósmóður og sagði henni að ég væri alveg við það að fæða barn og ég gæti ekki staðið upp. Hún sagði honum að keyra að næsta inngangi þar sem komið var út með rúm og hjólastól, en þegar ljósmóðirin skoðaði mig fann hún að útvíkkunin var komin í 10 og kollurinn komin niður, svo það var ekkert annað í stöðunni en að fæða barnið í bílnum.
Fullt af starfsfólki sjúkrahússins var komið út til að fylgjast með þessu í gegnum framrúðuna á bílnum, svo þau fengu bara sama útsýni og maðurinn minn.
Þrír rembingar, var allt sem þurfti til að koma litla krílinu í heiminn kl 2:39. Fæðingin tók rétt um klukkutíma frá fyrstu verkjum.
Ég sá bakið á henni og mikin dökkan lubba, svo var klippt á naflastrenginn, henni vafið í handklæði og aðstoðalæknir tók hana og fór með hana inná fæðingardeild.
Þegar ég var að standa upp úr bílnum, kemur mamma loksins og það eina sem ég gat sagt við hana var “Barnið er komið”. Ég hélt að hún myndi missa andlitið á þessum tímapunkti.
Mér var skellt í hjólastól og farið með mig uppá deild þar sem okkur var óskað til hamingju með hana, þá fyrst fengum við að vita hvors kyns barnið okkar væri.

Ingibjörg Jóna er fædd kl. 2:39 þann 1. apríl 2008 í Volvo 740 á planinu fyrir utan Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here