Fæðingasaga – Brynjar Þór

Brynjar Þór fæddist 17. júní 2011.

Miðvikudagsmorguninn þann 15. júní vakna ég kl. 10:00 við einhverja verki sem ég hafði ekki fengið áður, en ég hafði farið daginn áður og látið losa um belginn.
Ég fékk mér að borða og kíkti svo smá rúnt með manninum mínum, en þarna voru verkirnir mjög óreglulegir, alveg frá 5 mínútum og upp í 15 mínútur á milli og ekkert svo slæmir, meira óþægilegir.
Um 22:00 fóru verkirnir að versna, og um 02:00 voru þeir orðnir mjög slæmir á 5 – 10 mínútna fresti. Ég reyndi að fara í heita sturtu til þess að lina verkina, en ég entist bara í 10 mínútur í sturtunni þá var mér farið að líða illa þar. Við ákváðum að hringja upp á deild og þær vildu fá mig í skoðun, og þá kom í ljós að ég var bara komin með 1 í útvíkkun! Svo ég var send heim með verkjalyf til þess að reyna að sofa.
Það gekk ekkert og verkirnir versnuðu bara þegar ég kom heim, og á tímabili var ég farin að æla á milli hríða.
Klukkan 11:00 á fimmtudagsmorgninum 16. júní voru verkirnir orðnir enn verri, og ég náði ekkert að hvíla mig milli hríða en var samt alveg búin á því, enda ekkert búin að sofa! Við hringdum upp á deild, og þær sögðu mér að koma, það hlyti eitthvað að vera búið að gerast núna! En nei, útvíkkunin var rétt orðin 2! Svo ég fékk 2 parkódín forte og Phenergan sem á að slá á ógleðina og vera eitthvað róandi, og átti að fara heim að sofa.
Ég lagðist bara á dýnu fyrir framan sjónvarpið inni í stofu og reyndi að hvíla mig, og náði að hvílast aðeins í 2 klukkutíma þó ég hafi ekki náð föstu svefni, en þá hættu verkjalyfin að virka og verkirnir komu aftur af krafti!
Klukkan 19:30 voru verkirnir orðnir frekar óbærilegir með 4-5 mínútna millibili, það var orðið frekar erfitt að anda sig í gegnum hríðina og ég var alveg búin á því svo við drifum okkur niður á deild þar sem ég og maðurinn minn fengum herbergi á Hreiðrinu og ég fékk Peditín og Phenergan sprautu til þess að hvílast. Ég varð alveg frekar mikið út úr heiminum af þessari sprautu og ég náði loksins að hvíla mig í rúma 2 klukkutíma. Þá hætti sprautan að virka og þá fór allt af stað aftur og verkirnir urðu mjög fljótlega mjög harðir og ég var hætt að ná að anda mig í gegnum hríðina, og hver hríð stóð yfir í ca. 2 mínútur. Ég prófaði að fá nálastungur sem virkuðu ekkert, svo ég prófaði glaðloftið en ég fór bara í tómt rugl af því, haha! Enda var ég orðin svo þreytt og búin á því að ég vissi varla neitt og gleymdi mér alltaf og hélt áfram að anda að mér glaðloftinu á milli hríða svo mér leið mjög fljótt eins og ég væri bara blindfull svo ég hætti að nota loftið!
Þarna var klukkan orðin um 01:00, semsagt komin 17. júní og ég var þarna farin að garga á mænudeyfingu – og ljósmóðirin mælti líka með því að ég fengi hana þar sem ég var búin að vera að stanslaust í meira en 1 og hálfan sólahring! Var aftur farin að æla á milli hríða og kveið fyrir hverri hríð, en það komu alltaf 2 mjög harðir toppar í hríðinni þar sem ég missti alla stjórn á líkamanum og skalf bara og gat ekkert gert.
Á þessum tíma voru svo margar fæðingar í gangi að það var ekki pláss inni á fæðingargangi, svo ég gat ekki fengið deyfingu fyrr en einhver kona væri búin að eiga og búið væri að þrífa herbergið! Ég var ekki alveg að sætta mig við það og gargaði nánast á ljósmóðurina að það þyrfti sko ekkert að þrífa þetta helvítis herbergi, ég vildi bara fá mænudeyfingu ekki seinna en strax! Svo hún reyndi að flýta fyrir með því að setja upp vökva í æð og gera allt tilbúið svo það væri bara strax hægt að drífa mig yfir á fæðingargang þegar losnaði og setja upp deyfingu.
Um kl. 03:00 minnir mig kom loksins yndisleg ljósmóðir sem heitir Brynja, og fylgdi mér yfir á fæðingargang, en hún ætlaði að taka á móti prinsinum mínum. Hún setti mig í mónitor og tengdi allar snúrur við mig og svoleiðis svo ég væri tilbúin fyrir deyfingu og nokkrum mínútum seinna birtist svæfingarlæknirinn og setti upp deyfinguna!
Um 10 mínútum seinna var svo deyfingin farin að virka, og vá, mig langaði að giftast svæfingarlækninum á þessari stundu, haha! Ég fann ekki fyrir neinu, gat bara séð á mónitornum þegar hríðin kom og ég náði að ég held að sofna í ca. klukkutíma og eftir það lá ég bara og slakaði á, alveg dofin eftir allan þennan tíma!
Klukkan 06:20 fór ég svo að finna rosalegan þrýsting og fékk mikla rembingstilfinningu svo ég lét Brynju ljósmóður vita og hún athugaði með útvíkkun og já, hún var komin í 10!!! Svo ég mátti loksins byrja að rembast og vá, hvað það var mikill léttir!
Eftir 20 mínútna rembing, eða klukkan 06:49 skaust litli prinsinn minn í heiminn og kom beint upp á bringuna á mér og ég gleymdi strax öllum sársauka! Yndislegasta tilfinning í heimi að fá barnið sitt í heiminn! Fylgjan kom svo nokkrum mínútum seinna og ég rifnaði mjög lítið sem betur fer.
Litli maðurinn var rosa duglegur að taka brjóstið og þarna var komið að vaktaskiptum svo að það kom önnur ljósmóðir, hún Guðríður, til þess að mæla drenginn og fylgja okkur yfir á Hreiðrið!
Hann var 3.555 grömm og 51,5 sentímetrar – fullkomnasta mannvera sem ég hef á ævinni séð!
Við litla fjölskyldan fórum svo yfir á Hreiðrið og náðum að sofa loksins eftir öll átökin!
Fórum svo heim kl. 11:00 daginn eftir, þann 18. júní – eftir að barnalæknirinn var búin að koma og skoða hann og útskrifaði okkur með toppeinkunn!
Þetta var án efa það erfiðasta sem ég hef á ævinni gert, en hver einasti verkur er sko þess virði því ég fékk bestu verðlaun í heimi – gæti ekki verið meira hamingjusöm!


Brynjar Þór gullfallegur snáði með helling af hári!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here