Fæðingasaga – Margrét Fjóla

Meðgangan var í rauninni mjög erfið í heildina. Það gekk í rauninni allt vel nema það að ég ældi meira og minna alla meðgönguna. Byrjaði að æla á 11. viku og það hélt áfram í rauninni allan tímann, öðru hvoru. Síðustu tveir og hálfu mánuðirnir voru verstir.. Þá ældi ég á hverri nóttu, stundum oftar en einu sinni og leið mjög illa þessa síðustu mánuði. Ég þyngdist bara um 5 kíló alla meðgönguna, en það var í lagi þar sem ég er í yfirþyngd.

Það var búið að prófa að setja mig á alls konar tuggutöflur, við bakflæði og brjóstsviða og ekkert virtist virka. Ég fór til einhvers heilara sem tók mig í nálastungur og einhverjar meðferðir síðasta mánuðinn en ekkert virkaði. Blóðþrýstingurinn var alltaf í lagi og Margréti Fjólu virtist samt líða vel og hún virtist dafna vel, því hjartslátturinn hjá henni var alltaf góður, sem var auðvitað gott. En svo loksins þegar ég var komin 38 vikur þá datt einni ljósmóður sem ég hitti í hug að setja mig á Omepersol held ég að það heiti og þá loksins hætti ég.
Enda þyngdist ég um síðustu tvö kílóin síðustu tvær vikurnar.
Ég fór viku framyfir.

Nú, yfir í smá fæðingasögu.
Ég missti vatnið að morgni laugardags þann 18. febrúar 2012, þá komin 41 viku og einn dag.
Ég hringdi upp á deild og þær sögðu að ég mætti koma þegar ég vildi, í skoðun og við græjuðum okkur bara og drifum okkur uppeftir og ég fór í skoðun, kom þá í ljós að daman mín hafði kúkað í legvatnið en ég var ekki komin með neina útvíkkun þá, en ég var bara lögð inn það átti að setja mig af stað seinnipartinn ef ekkert myndi gerast að sjálfu sér. Þarna er klukkan hálf níu þegar ég mætti. Engir verkir ennþá.. En þar sem hún hafði kúkað í legvatnið þurfti ég að vera þarna og það átti að fylgjast með mér. Erlingur minn, (unnusti minn, við erum búin að vera saman í 5 ár ) var með mér, og mamma kom svo í hádeginu. Ekkert var að gerast og það var búið að ákveða að setja upp stíl klukkan fjögur ef ekkert hafði gerst þá og svo dripp klukkan 18 ef ekkert væri að gerast ennþá. Svo fór að ég fékk stíl klukkan fjögur og klukkan hálf sex var ennþá ekkert að gerast, en þá stakk mamma mín upp á því að við skyldum reyna að syngja fyrir hana, svo við sungum þarna dúett á fæðingardeildinni og bara stuttu seinna virtist allt fara í gang. Ég fór að finna verki (smávægilega) samt og ég fór í baðið um kl 18. og þurfti ég sem betur fer ekki dripp. Í baðinu byrjuðu verkirnir að versna og verða meiri og korter í sjö ákvað fá mænurótardeyfingu. það var kallað í svæfingalækni og á meðan var ég skoðuð. Þá var ég komin með fjóra í útvíkkun. Nú hófst svo versta martröð lífs míns. Ég settist á rúmið og átti að vera alveg kyrr á meðan var verið setja nálina í bakið. Það gekk illa og það þurfti stærri nál og fleiri læknar komu til að hjálpa. Klukkan átta var ég búin að vera sárkvalin sitjandi á rúminu í rúman klukkutíma og berjast við hríðir og að sitja kyrr, og læknarnir voru alltaf að biðja mig um að sitja bein, en þarna kom í ljós að rúmið var einfaldlega skakkt. Það var ekki ég sem gat ekki setið bein heldur rúmið sem var skakkt. Á þessum tímapunkti var ég búin að fá glaðloft, búin að æla og kveljast mikið. Mamma og Erlingur reyndu að stappa í mig stálinu en þetta var eins mikil martröð fyrir þau eins og mig, já og bara alla sem voru á staðnum.

Eftir að rúmið var lagað tókst loksins að koma deyfingunni upp. En… hún virkaði ekki, það var beðið í einhvern hálftíma og hríðirnar urðu verri og verri. og styttra og styttra á milli þeirra. Svo aftur var talað við svæfingalækni, og þá byrjaði allt upp á nýtt. Reynt fara að koma nálinni í og ég kvaldist og mátti ekki hreyfa mig. Ég var með dásamlegar ljósmæður á staðnum sem hvöttu mig áfram og sögðu að ég væri algjör hetja. Það hvatti mig áfram og ég bað þess að þetta myndi nást, sem það gerði loksins kl 22. Þá var ég skoðuð og komin með 10 í útvíkkun. Og ég mátti byrja að rembast. Deyfingin var farin að virka akkúrat á þeim tímapunkti. Og ég var orðin svo þreytt og uppgefin að ég ýtti henni út í þremur rembingnum.

Ég fékk hana í fangið og hún grét ekki.. og ég grét ekki. Skyldi ekkert í þessu.. Mamma grét og Erlingur, en ekki við Margrét Fjóla. Hún fór að horfa í kringum sig og skoðaði allt.
Hún vildi ekkert drekka heldur bara horfa. Mér fannst hún auðvitað fallegust í heimi og varð samstundis ástfangin að henni.

Jæja, mig langar að koma með smá viðbót við söguna mína. Eftir að var búið að tjasla mér saman og þrífa Margréti Fjólu eftir að hún kúkaði á sjálfa sig og pabba sinn, fengum við fljótlega að fara á Hreiðrið. Ennþá hafði ekkert gengið að koma henni á brjóst og ég var ekki ennþá farin að gráta.. . sem mér fannst mjög skrítið. Klukkan var eitt eftir miðnætti þegar við komum á Hreiðrið og systir mín og pabbi fengu að koma til okkar í smá stund, þá loksins komu tárin þegar systan mín kom til okkar.
En svo liðu einn og hálfur sólarhringur á Hreiðrinu þar sem var barist við að koma henni á brjóst.
Hún var svo löt að hún vildi ekkert drekka og vildi bara sofa.
Ég átti hana á laugardagskvöldið og á mánudagsmorguninn var læknir að skoða hana og greindi hann hana með ungbarnagulu.
Ennþá var hún ekkert farin að drekka hjá mér, heldur voru ljósurnar búnar að koma fleiri en tvær og fleiri en þrjár að reyna að koma henni á, án árangurs.
Börn sem eru með ungbarnagulu eru löt og vilja ekkert drekka.
Litla músin mín var sett upp á vökudeild í hádeginu á mánudeginum og við Erlingur fórum á Sængurkvennaganginn, en við máttum ekki knúsa hana í heilan sólarhring. Það var lengsti og erfiðasti sólarhringur lífs míns. Við máttum koma og sitja hjá henni eins og við vildum og ég reyndi það, en það var oft svo hrikalega erfitt.
Ég reyndi að halda í höndina á henni og klappa henni og raula fyrir hana eins og ég gat. Svo grét hún stundum þegar við fórum… ég hélt að hjartað mitt ætlaði að brotna í þúsund mola. Úfff.. Fæ bara tár í augun við tilhugsunina. þennan sólarhring var mér sagt að mjólka mig til að koma framleiðslunni í gang fyrir hana því að ég mátti fá hana í fangið á þriðjudaginn í hádeginu. Við komum þá og sváfum nánast ekkert þessa nótt. En þvílík gleði að fá hana svo í fangið á þriðjudeginum.. og reyna að gefa henni. Það gekk ekki vel. Ég mátti koma á þriggja tíma fresti og reyna að gefa henni en það gekk illa. Hún fékk mjólkina sína í sondu. og þá kom ég með þá mjólk/brodd sem ég náði að mjólka. Sólarhring tvö fengum við semsagt að koma á þriggja tíma fresti og knúsa hana og reyna að gefa og þriðja sólarhringinn mátti ég fá hana með mér á Sængurkvennaganginn í eina nótt áður en við færum heim, til að sjá hvernig hún myndi bregðast við því að losna við ljósin. Hún spjaraði sig vel en ennþá gekk illa að gefa henni. Því ég þurfti að vekja hana á þriggja tíma fresti og reyna að gefa henni. Brjóstagjöfin fór ekki að ganga fyrr en við komum heim þegar hún var fimm daga gömul. Þrjóskan í mér var svo mikil að þetta hafðist og í dag er hún 6 mánaða og ég framleiði mjög vel og hún drekkur voðalega vel og aldrei verið vesen. Held að ég hafi þessa frásögn ekki lengri.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here