Falleg og létt sumarförðun

Nú er sumarið komið þó að veðrið sé ekki enn sammála okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu. Því fylgir garðpartýin, útskriftirnar og brúðkaupin. Hér koma nokkur einföld ráð til að ná fram fallegri sumarförðun.

Falleg ljómandi húð
Á sumrin þá er oft fallegra að vinna með léttara útlit. Léttan farða eða jafnvel bara litað dagkrem. Einnig er einstaklega sumarlegt að nota góðan ljóma sem gefur húðinni frísklegt yfirbragð.
Ekki skemmir ef að kremið sé með smá sólarvörn í sem verndar húðina.

Kremaðir augnskuggar
Kremaðir augnskuggar hafa aldrei verið vinsælli, þeir gefa glans, shimmer útlit sem passar vel í létta og fallega sumarförðun. Þá er hægt að nota eina og sér, sem hluti af skyggingu eða sem eyeliner.

Ferskar kinnar
Við erum einstaklega mikil sólarpúður þjóð, en í stað þess að nota það sem kinnalit er tilvalið að nota sólarpúðrið til að gefa smá fallegan lit yfir andlitið eða til að skyggja andlitið og taka svo fallegan kinnalit og skella á kinnarnar. Kinnalitir gefa fallegt ferskt útlit, soldið eins og þú hafir tekið einn hlaupahring í kringum húsið þitt áður en þú mættir í partýið.

Glossaðar varir
Léttur litur með glossaðari áferð er einstaklega fallegt og sumarlegt. Gott er að gefa vörunum góðan raka með varasalva eða vaselini áður en þú setur á þig glossið eða varalitinn. Þá helst allt mikið betur á.

Gleðilegt förðunarsumar!

SHARE