Ferskt pasta

Á heimasíðunni Allskonar er að finna mjög margar góðar uppskriftir og við rákumst á þessa þarna inni. 

Að búa til ferskt pasta heima er svo ótrúlega einfalt, og það þarf ekkert endilega að eiga pastavél, deigið má fletja út með kökukefli og skera með hníf. Það verður þá bara enn heimalagaðra í útliti ef það er ekki þráðbeint og jafnbreitt.

Það er hægt að nota bæði hrærivél og matvinnsluvél til að koma deiginu saman áður en við hnoðum það og fletjum það út. Hér kemur auðvelda aðferðin sem tekur enga stund – en er svo vel þess virði.

 

  • Ferskt pasta f.4

  • 4 egg
  • 360gr hveiti

 

Undirbúningstími: 10 mínútur

Vinnsla og skurður: 10 mínútur

Suða: 5-6 mínútur (fer eftir þykkt)

 

Settu eggin og hveitið í hrærivélaskál eða matvinnsluvélina og blandaðu vel saman á góðum hraða. Þetta blandast saman og áferðin verður eins og brauðmylsna, þá er hægt að skella þessu á borðið og hnoða vel saman án erfiðleika. Búðu til 6 kúlur  úr deiginu og  settu í plastpoka og inn í ísskáp. Passaðu að loka plastpokanum vel.

Því meiri tíma sem deigið er inni í ísskáp að kólna því auðveldara verður að vinna með það.

Nú er komið að því að fletja út deigið.

Taktu eina og eina kúlu úr plastpokanum og ýttu deiginu vel niður með höndunum, flettu það svo út með kökukefli svo að verði um 5mm þykkt ef þú ætlar að nota pastavél.  Ef þú ætlar að fletja út og skera til sjálf/ur þá þarftu að fletja deigið út eins þunnt og þú getur (2mm) og skerð í 5mm breiðar ræmur fyrir tagliatelle.  Þetta gerirðu svo með hverja kúluna á fætur annarri.  Ef þú notar pastavél þá er nauðsynlegt að hefla niður deigið í þrepum og ekki sleppa neinu þrepi.

Tagliatelle er 2mm þykkt en spaghetti 1mm, okkur hefur fundist gott að hafa lasagneplötur 1mm á þykkt.

Athugaðu að dreifa smávegis hveiti yfir deigið þegar þú hefur flatt það út, þannig varnar þú því að allt festist saman á leiðinni í pottinn.

 

Einhver fræði segja að nú eigi pastað að þorna í 1 klukkustund, en við höfum oftast skellt því beint út í pottinn.

Það þarf að nota amk 5L pott, það þarf 2L af vatni til að sjóða pastað og pastað þarf gott pláss í pottinum til að sjóða án þess að klístrast saman. Vatnið í pottinum þarf að vera bullsjóðandi og mjög vel saltað, jafn salt og sjórinn segir í gamalli ítalskri uppskrift. Í pastadeiginu er ekki salt og því tekur það salt úr soðvatninu, við ætlum ekki að drekka það vatn svo að það er alger óþarfi að vera með tepruskap í saltmagninu. Svo má taka um 1/4 dl af soðvatninu í lokin og nota út í sósuna til að þykkja hana ef þið eruð með rjómalausa sósu, þar sem vatnið er fullt af sterkju og salti. Bara muna að vera ekki búin að salta sósuna áður.

Við látum pastað út í pottinn þegar suðan á vatninu er komin upp og hrærum vel til að fá vatn og pasta á hreyfingu svo ekkert festist nú saman. Setjum lokið á og látum suðuna koma upp aftur, tökum þá lokið af og fylgjumst með. Suðutími er um 5 mínútur fyrir al dente, þá tökum við smá pasta upp úr pottinum og smökkum, það á að vera þétt og alls ekki lint. Nú síum við vatnið frá strax svo að pastað haldi ekki áfram að eldast í heitu vatninu og berum fram með sósu að eigin vali.

Heimalagað pasta er líka frábært á einfaldan hátt; með góðri ólífuolíu, ristuðum furuhnetum og smá hvítlauk, skallottulauk og steinselju.

Endilega smellið einu like-i á

 

SHARE