Fíknin verður sterkari er móðurástin

Ung móðir, sem er langt gengin með sitt þriðja barn, kom í viðtal á hlaðvarpinu Það er von. Hún er aðstandandi, alin upp við mikinn alkóhólisma og einnig í bata frá fíknisjúkdómi sjálf og hefur verið í rúmlega þrjú ár. Þessi unga kona er nafnlaus til þess að vernda elsta barnið sitt, sjö ára dreng. Drengurinn á, eins og gefur að skilja, mikla áfallasögu en báðir foreldrar hans glíma við fíknisjúkdóm, faðir hans enn í virkri neyslu. Farið er yfir sögu þessarar ungru konu í hlaðvarpinu:

Þessi unga móðir ólst upp við mikinn alkóhólisma sjálf, báðir foreldrar hennar alkóhólistar, hún segir: „Ég hét mér því að verða aldrei eins og mamma mín, ætlaði mér aldrei að gera það og vildi miklu stærra og meira.“

Aðstæður voru, eins og gefur að skilja, erfiðar og fór hún í fóstur sex ára gömul til ömmu sinnar og afa í litlu þorpi úti á landi. Hún upplifði öryggi þar og er það í síðasta skipti sem hún man eftir að hafa upplifað það sem barn. „Einn daginn, tveimur árum seinna, kom símtal og við áttum að flytja í bæinn til mömmu aftur.“ Hún, ásamt systkinum sínum, flutti í bæinn og þá byrjar þetta “geimverusyndrome” eins og það er oft kallað. „Ég þoldi ekki þennan stað, það var innprentað í mig þetta viðhorf barns alkóhólista, ég verð að fela, svo ég tengdist engum og vildi ekki bjóða neinum heim.“

Árið áður en konan fermdist fór hún í fyrsta sinn í heimsókn til pabba síns, mamma hennar lét sig hverfa svo hún þurfti að flytja til hans í þessari heimsókn. Hún lýsir höfnuninni en á sama tíma guðsgjöfinni sem stjúpmamma hennar er, sem gerði sitt besta þegar hún fékk þrjá snarvitlausa unglinga í hendurnar, eins og hún orðar það. Neyslusaga þessarar ungu konu byrjar helgina eftir fermingu, stjórnleysið gerir strax vart við sig. „Ég man „moment“ á þorrablóti í þorpinu mínu, mamma var þar, ég var að verða 17 ára og ákvað að fara til Reykjavíkur og verða dópisti, ég var komin með nóg og passaði aldrei inn í.“

Neyslan varð um leið dagneysla og vatt upp á sig, þannig gekk það þar til um tvítugt þegar hún varð ólétt af syni sínum. Það átti að breyta öllu því hún ætlaði ekki að verða eins og mamma sín. „Hann hefur alltaf verið tilgangurinn minn, fíknin er bara svo ógeðslega sterk! Ég átti að búa í einbýlishúsi í litlu þorpi, sem mér var plantað í og rækta gras á meðan barnsfaðir minn sat inni, lengi. Ég gat það ekki svo ég lét pabba sækja mig og við bjuggum hjá honum þar til sonur minn var að verða tveggja ára.“ Á þeim tíma fékk hún úthlutaða íbúð og það var eins og blaðra sem sprakk. Neyslan þróaðist hratt. „Ég hafði alltaf þráð að vera mamma en á sama tíma þráð að vera elskuð en var líka mjög veik. Ég faldi mig á bakvið það að strákur sem ég var með var miklu verri en ég, í geðrofum og notaði efnin öðruvísi.“

Fyrsta sem hún gerir eftir að hún kemur úr meðferð, fyrir rúmlega þremur árum, er að hlúa að barninu sínu. „Hann var allt of lengi inni á heimilinu á meðan ég var í neyslu og hefur þurft að ganga í gegnum allt of mikið.“ Þegar umræðan barst að skólakerfinu segir konan að skóli drengsins hafi vanrækt sínar skyldur. „Sonur minn fékk taugaáfall eftir að hann hitti pabba sinn, sem glímir við fíknisjúkdóm. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að pabbi hans væri veikur þó það sæist ekki, hann væri veikur í hjartanu og höfðinu sem gerði það að verkum að hann gæti ekki verið eins góður pabbi og hann ætti að vera. Hann hittir pabba sinn svo og hann segir barninu að hann sé veikur af því hann fái ekki að hitta hann. Sonur minn fékk taugaáfall í sturtunni eftir þetta.“

Augljóst er að erfitt er fyrir þessa ungu, kasóléttu og ráðþrota móður að segja frá raunum sínum en hún segir frá baráttu sinni við kerfið. Þáttastjórnandi og konan ræða um hvernig konan myndi vilja sjá kerfið halda utan um barnið sitt. Konan segist þakka seinni barnsföður sínum, vinkonum, fundum og Guði fyrir að vera ennþá edrú. „Ég tek ekki stórar ákvarðanir ein því mínar ákvarðanir hafa ekki komið mér á góða staði. Á mestu vonleysistímunum hef ég hugsað að ef ég hefði fallið fimmtán sinnum á þessum tíma væri örugglega búið að gera eitthvað fyrir barnið mitt en af því ég er að standa mig þá er þetta sett til hliðar.“

Í þættinum ræða konurnar um hvernig fíknin verður sterkari er móðurástin, sterkari en allur vilji. Barátta þessarar ungu móður snýst um að bjarga syni sínum og er hún ekki að benda á alla aðra heldur er hún viljug til að læra og fá leiðsögn í uppeldi. Einnig ræða þær um kerfið, börn í áhættuhópi, viðhorf fólks, fallvalda, líkamsímynd stelpna eftir meðferð og ýmislegt fleira.
Mælum með að hlusta á þessa hugrökku ungu konu.

Kær kveðja Tinna ♥️ 

SHARE