„Finnst þér ég vera feit í kjólnum?“ – Pistill eftir Friðrik

Konan mín er stórkostleg í einu og öllu. Það þarf náttúrulega ótrúlega sterk bein til að þola mig, en stundum dáist ég hreinlega að óbilandi einurð hennar og ákveðni.

Allt frá því að við ákváðum að giftast hefur hún verið í átaki. Þannig byrjaði hún á safakúrnum, því næst paleo, fór síðan á 5:2, svo á LKL og nú er nýjasta æðið að vera í crossfit. Ég hef því mátt horfa upp á breytingar á matseðlinum með reglulegu millibili. Sumt hef ég kunnað ágætlega við, mér þykir ekkert verra að borða beikon og kjúklingalundir, en gras, hnetur og baunir er nokkuð sem mér hefur hins vegar mislíkað. Þú fyrirgefur, en mér finnst það ekki vera matur, hugsanlega meðlæti, já, en ekki sem uppistaða í fæðunni. Hnetur á t.a.m. aðeins að njóta með bjór.

Jæja, hvað um það, elskulega konan mín hefur þannig ekki mátt heyra minnst á að við borðum sitthvorn kvöldmatinn, jafnvel þó að ég sjái um að elda.

„Friðrik, veistu hvað matarverð hefur hækkað mikið?“ segir hún ákveðin og setur hendur á mjaðmir og ég veit hvað það þýðir þegar hún stillir sér þannig upp. Þá er stutt í að hún leggi áherslu á orð sín með því að benda á mig með vísifingri og þar á eftir kemur JÆJAÐ! Nú, ég gaf auðvitað eftir og lét mig hafa það að drekka gulrófusafa með engifer og rúsinum í kvöldmat á tímabili. Reyndar svindla ég í hádeginu og fæ mér hamborgara með strákunum, en hún, þessi elska, hirðir afganginn af kvöldmatnum með sér í vinnuna. En bara svo það sé á hreinu, henni finnst þetta alveg jafn vont og mér, en hún ætlar sér að líta einstaklega vel út þegar hún gengur inn kirkjugólfið.

Henni hefur reyndar ekki gengið nógu vel að ná af sér þessum örfáu aukakílóum sem henni finnst að hái sér. Ég hef reyndar misst einhver sjö eða átta kíló en af ótta við að hún setji höndina á mér í blöndunargræjuna af pirringi þá hef ég ekki sagt henni frá því. Sumt einfaldlega segir maður ekki við konu sem er í megrun.

Allavega, nýjasta æðið er crossfit. Hún skráði sig á eitthvað námskeið og mætir nokkrum sinnum í viku, agalega hress og ánægð með þetta. Fyrstu vikuna gat hún reyndar ekki rétt úr sér, hún var svo stíf og aum alls staðar að ég mátti hvergi snerta hana án þess að hún urraði á mig. Það átti við um alla snertingu, þú veist. Hún lagðist stynjandi í sófann á kvöldin, sofnaði kl. 21 og allar viðreyningar mínar voru til einskis.

Ég kom heim um daginn og þá var konan mín komin í brúðarkjólinn. Vinkona hennar, sem er hárgreiðslukona, var í heimsókn og þær voru að velta fyrir sér hvernig konan mín ætti að vera greidd í giftingunni. Ég var varla stiginn inn um útidyrnar þegar á mér dundu spurningar, eins og ég hefði óvart gengið inn á sviðið í Gettu betur.

„Hvað finnst þér um þetta? Hvernig finnst þér að þetta ætti að vera? Hvernig skóm ætti ég að vera í?“

Ég veit ekki að hverju ég var ekki spurður. Ég hummaði þetta svona af mér og náði við illan leik að brjótast inn í eldhús, þar sem ég opnaði ísskápinn í von um að ísskápshurðin myndi skýla mér. Þá kom Spurningin! Og karlmenn vita hver Spurningin er og vei þeim sem svara henni rangt.

„Getur verið að ég hafi bætt á mig!? Finnst þér ég vera nokkuð feit í kjólnum?“

Tíminn stóð kyrr. Ég fann að ég svitnaði. Ég leit á konuna mína. Vinkonan leit á mig. Þær horfðust í augu. Ef við hefðum verið í villta vestrinu hefði svona trjáflækja fokið á milli okkar. Ég kyngdi munvatni og svaraði:

„Nei?“

Hér skiptir gríðarlega miklu máli að þú, kæri lesandi, áttir þig á þeim reginmistökum sem ég gerði. Ég táknaði þau með spurningarmerkinu. Ég get ekki með nokkru móti lýst þeim í texta með öðrum hætti, en hefði ég dregið fram sveltandi afrískt barn og lamið það með skítugum klósettbursta hefði það líklega haft minni áhrif en þetta eina, litla, saklausa spurningarmerki.

Hafi konan mín verið þreytt eftir crossfit fyrstu vikuna, var hún mun þreyttari síðar þetta kvöld.

 

SHARE