Fjöldi Íslendinga óskar eftir að fá púrrulauksúpu TORO aftur í hillur verslana

Púrrulauksúpan frá TORO hefur um árabil verið mjög vinsæl meðal Íslendinga og mörgum þykir hún ómissandi í hinar ýmsu uppskriftir. Fyrir skömmu tilkynntu framleiðendur TORO-varanna, Orkla Foods, að hætt yrði að framleiða púrrulauksúpuna í neytendapakkningum og yrði hún aðeins framleidd fyrir stóreldhús, í pakkningum sem gefa 15 lítra af súpu.

purrulauksupa_pakkning

John Lindsay hf., umboðsaðili TORO á Íslandi, mótmælti þessu og segja framleiðendur vera tilbúna að endurskoða ákvörðunina ef eftirspurnin verður nógu mikil. Síðustu daga hefur síminn vart stoppað á skrifstofu John Lindsay hf. og fyrirspurnum rignir inn um hvar hægt sé að fá púrrulauksúpuna frá TORO. Starfsfólk John Lindsay hf. hefur boðið fólki að kaupa stóreldhúspakkningu af púrrulauksúpu og hafa nú þegar nokkrir þegið það.

Einnig brá dyggur aðdáandi púrrulauksúpunnar á það ráð að stofna Facebook-síðu til að sýna samstöðu Íslendinga því að púrrulauksúpan yrði aftur fáanleg í verslunum landsins. Viðbrögðin voru vægast sagt ótrúleg og á einum sólarhring höfðu um 1.600 manns líkað við síðuna. Fjölmargar athugasemdir voru skrifaðar af fólki sem velti fyrir sér hvað hefði orðið um þessa vinsælu matvöru.

Stefán S. Guðjónsson, forstjóri John Lindsay hf., segir frábært að sjá viðbrögð fólks og er bjartsýnn á framhaldið. Því meiri undirtektir og eftirspurn, því meiri líkur eru á að við fáum að sjá TORO púrrulauksúpu aftur í hillum verslana innan skamms.

Nokkrar af athugasemdum á síðunni:

Á mínu heimili heitir ídýfan sem gerð er úr sýrðum rjóma og púrrulauksúpu “góða sósan”. Við þurfum að hafa svoleiðis í partýum og á spilakvöldum!

———–

Ídýfan, bollurnar og margir pottréttir verða ekki eins ef púrrulauksúpuna vantar!

———–

Hún er bara eitt af því sem er alveg nauðsynlegt að geta gripið til, m.a í bollur, ídýfur, eða bara að elda súpu í fljótheitum. Við viljum súpuna aftur í neytendapakkningar.

SHARE