Fjórði í aðventu: Í dag kveikja Íslendingar á Englakertinu

Í dag kveikjum við á fjórða og síðasta kertinu á aðventukransinum, en fjórða kertið ber heitið Englakertið og vísar til englanna sem birtust á jólanótt og sögðu frá því að Jésús væri fæddur.

Ófáir eru þegar búnir að kaupa jólagjafirnar meðan einhverjir eru enn á spretti að ná síðustu pökkunum fyrir hátíðir. Nú eru landsmenn farnir að flykkjast á jólatrjáasölurnar og bros sem lýsir tilhlökkun tekið að færast yfir rjóðar kinnar í fimbulkulda veturs.

Sá siður að gera aðventukrans og kveikja á fjórum kertum; einu fyrir hvern sunnudag aðventu er ekki ýkja gamall hér á landi. Siðurinn barst hingað eftir síðari heimsstyrjöld en hefur náð að festa rætur á Íslandi og skarta í dag, ófá heimili aðventukrönsum hérlendis.

Sjálft orðið Aðventa er komið úr latínu, adventus og merkir „koma“, en á aðventunni horfa kristnir menn fram til hans sem kom í heiminn á jólunum. Fyrir flestum er aðventan iðulega tímabil tilhlökkunar og gleði, þar sem kertaljós gefa yl og lýsa upp myrkt skammdegið, en jafnvel er það sjálft vetrarmyrkrið sem gerir að verkum að við Íslendingar leggjum svo mikla áherslu á ljósið sem tákn jólanna.

Ritstjórn óskar landsmönnum öllum gæfu og gengis á síðustu dögum fyrir jól, en það eru þeir félagar í Baggalút sem flytja hér lagið Sagan af Jésúsi:

Heimild: tru.is

Tengdar greinar:

Fyrsti í aðventu: Í dag tendra Íslendingar á Spádómskertinu

Annar í aðventu: Í dag tendrum við á Betlehemskertinu

Þriðji í aðventu: Í dag kveikjum við á Hirðakertinu

SHARE