Föstudagspizza með heimagerðri kasjúhnetusósu – Uppskrift

Á mínu heimili höfum við lengi notað þessa uppskrift að pizzabotni.

Stundum hef ég notað keypta satay sósu sem pizzasósu en mér finnst þessi kasjúsósa enn betri. Kasjúsósan er líka mun hollari enda leynist mjög oft viðbættur sykur í keyptum sósukrukkum.

Ég vil hafa vel af áleggi á pizzunni minni og bræddur gráðaosturinn setur svo punktinn yfir I-ið. Þið getið að sjálfsögðu notað ykkar uppáhalds álegg.

Það tekur smá tíma að skella í þessa (og smááá uppvask) en það er vel þess virði.

 

Pizzabotn

120 gr. fínt spelt

60 gr. hveitikím

1 ½ tsk kókosolía

1 dós AB jógúrt frá Bio-bú (gæti þurft aðeins minna)

½ tsk herbamare salt

2 tsk vínsteinslyftiduft

 

Kasjúsósa

1 dl kasjúsmjör frá H-berg

½ dl kasjúhnetur

3 hvítlauksrif

1 msk ólífuolía

1 cm bútur engifer

1 tsk soya sósa

Smá sítrónusafi

1 msk thai sweet sósa

½ dl vatn

 

(Mitt) álegg

Kjúklingur (ég notaði afgangs kjúkling)

Ferskur ananas

Rauðlaukur

Sveppir

Paprika

Gráðaostur (blue cheese)

 

Aðferð

1. Hrærið saman spelt, hveitikím, kókosolíu, herbamare og vínsteinslyftiduft. Bætið AB jógúrt smátt og smátt við þar til deigið klístrast ekki lengur við puttana.

2. Stráið smá spelti á borðið og hnoðið deigið í nokkrar mínútur.

3. Fletjið út og leggið á bökunarplötur.

4. Setjið allt sem á að fara í sósuna í matvinnsluvél og mixið saman þar til þið eruð komin með fullkomna sósuáferð. Dreifið jafnt yfir pizzubotnana.

5. Takið til það álegg sem þið ætlið að nota og saxið niður. Setjið það svo á botnana.

6. Bakið í 10-15 mínútur við 170 gráður

Verði ykkur að góðu!

 

 

SHARE