„Þetta er ekkert grín, sama hvora ákvörðunina þú tekur þá mun hún hafa áhrif á þig alla þína ævi.“ Þessi orð fékk ég frá einni af mínum bestu vinkonum þegar við vorum loksins búnar að koma okkur í það að tala alvarlega um þá staðreynd að ég væri ólétt – að ég gæti orðið móðir eftir nokkra mánuði.

Ég var 17 ára gömul og nokkrum vikum fyrir afmælið mitt komst ég að því að ég væri ólétt, mig hafði reyndar grunað það í þó nokkurn tíma, en ég hafði þó aldrei kjarkinn í það að staðfesta það, staðesta það að ég væri þunguð, bæri barn undir belti..

Það var eitt laugardagskvöldið að ég var á rúntinum með vinkonu minni og ég var búin að segja henni grun minn, þannig að hún krafðist þess að við færum og keyptum óléttupróf. Ég harðneitaði því því ég var hrædd við niðurstöðuna, en á endanum þá hafði hún betur. Við fórum á uppáhalds staðinn okkar þar sem ég tók prófið og á næstu hálfu mínútunni fékk ég grun minn staðfestann. Ég var ólétt!

Ég vissi ekki alveg hvað ég ætti að gera, hvort ég ætti að hlæja eða gráta eða hvað. Ég var hreinlega í sjokki. Næsta skref var að segja barnsföðurnum. Hann tók því ekkert alltof vel, en kom að vísu mestmegnis kurteisislega fram og bauð fram stuðning sinn. Auðvitað var hann líka hræddur, þetta var alls ekki á planinu, en getnaðarvarnir virka víst ekki alltaf 100%, því er nú ver og miður.

Þegar ég komst að þunguninni var ég í miðjum lokaprófum fyrir sumarfrí. Ég átti þrjú próf eftir og fór gjörsamlega í kerfi yfir þessu, enda kolféll ég á þeim prófum sem eftir voru, ég gat ekkert lært eða einbeitt mér neitt að neinu öðru en að hugsa hvað ég ætti að gera, hvað væri rétt ákvörðun. Þannig að mínir lærdómsdagar fóru í grátur og meiri grátur.

Eftir smá tíma og gott tal við vinkonu mína sem reyndist mér stoð mín og stytta í þessu máli, þá hugsaði ég: Hvernig líf hef ég uppá að bjóða fyrir örlítið barn? Ég, aðeins 17 ára og ekki í sambandi, ekki með fasta vinnu, ekki með sér íbúðarhúsnæði og svona gæti ég talið endalaust áfram. Ég vil geta boðið mínu barni uppá það sem það á skilið. Barn sem fæðist inní þennan harða heim á í það minnsta skilið að eiga föður og fá endalausa ást frá honum, eða það finnst mér. Þannig að ég pantaði tíma hjá félagsráðgjafa niðri á kvennadeild þar sem hugur minn og hjarta voru sammála um að fóstureyðing væri rétta leiðin.
Þegar þangað var komið tók við mér þessi yndislega kona sem spurði mig spjörunum úr og eftir viðtalið sagði hún mig hafa góða og gilda ástæðu fyrir ákvörðun minni og var mér fullkomlega sammála með allt sem ég hafði sagt henni. Þarna var ég búin að átta mig á því að þetta væri líklegast það besta í stöðunni og var orðin örugg með ákvörðun mína.

Ég fékk tíma í aðgerðinni 2 dögum seinna og mætti þá kl 10 um morguninn uppá Kvennadeild. Ég var ein og það var mjög furðulegt, en þar sem ég er ekki mjög opin manneskja þá hafði ég kosið að gera þetta svona.
Ég var látin hátta mig og beið svo eftir því að röðin kæmi að mér. Svo um 12 leytið þá var ég flutt uppá vöknun og átti að bíða þar eftir að komast í aðgerðina, ég var undurbúin og settur upp æðaleggur og þess háttar. Á þessum tímapunkti langaði mig bara að fara að gráta. Það eina sem ég gat hugsað var „Á ég að hætta við? Er það réttara? Hvað ef þetta er vitlaus ákvörðun?“, ég var alveg í rusli en ákvað þó á endanum að þetta væri bara bull í mér.

Þegar ég vaknaði var ég svolítið dösuð og langaði bara heim að sofa. Svo var ég sótt um það bil klukkutíma seinna og ég fór beinustu leið heim, upp í rúm og svaf restina af deginum og nóttina eftir. Vaknaði svo næsta morgun og grét. Næstu vikuna grét ég líka.

Í dag er ég ennþá í rusli, ekki endilega af því að ég held ég hafi tekið ranga ákvörðun, heldur bara yfir því hvað þetta er mikið mál í alvörunni og það eru einungis örfáir sem skilja mann. Þetta reyndist mér persónulega virkilega erfitt andlega. Ég er búin að gráta endalaust yfir þessu, og ég veit að ég mun koma til með að hugsa með mér alla ævi: „Hvernig ætli barnið mitt hefði litið út? Ætli það hefði orðið brúnhært? Ljóshært? Bláeygt? Hávaxið? Og síðast en ekki síst Hvernig ætli líf mitt væri í dag ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun þarna um árið?“

Ég efast ekki um það að þarna úti eru stelpur sem þykja þetta ekki nærri jafn mikið mál og mér þykir, að fóstureyðing virki frekar eins og strokleður heldur en tip-ex, að mistökin hverfi bara fyrir fullt og allt en séu ekki þarna ennþá undir öllu þessu sem maður málar yfir þau. Og það er alls ekkert að því, fóstureyðing hefur ekki sömu áhrif á alla – og það er eitthvað sem samfélagið verður að bera virðingu fyrir.

En fyrir mér, þá mun hún vinkona mín alltaf hafa rétt fyrir sér og ég mun aldrei á ævinni gleyma hennar orðum: „Þetta er ekkert grín, sama hvora ákvörðunina þú tekur þá mun hún hafa áhrif á þig alla þína ævi.“

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here