Frá gallabuxum yfir í veski

Munið þið eftir þegar ég gerði þessar körfur úr gallabuxum? . Hélduð þið að ég hefði hent restinni af buxunum? Úff, ekki einu sinni hugsa svona.

.

Neib, ég setti þær ofan í skúffu, tók þær svo upp og ákvað að núna skyldu þessar buxur (eða tæknilega séð, restin af þeim) endurfæðast sem taska.

Ég klippti skálmarnar frá ca. 5 cm fyrir neðan klofið. Lagði svo skálmarnar til hliðar vegna þess að ég ætlaði að nota þær fyrir ólar á töskuna.

Ég snéri buxunum (sem núna litu út eins og stuttbuxur) við og gerði þær aðeins beinari með því að snúa þeim á hlið og gera beina línu frá klofinu og rassinum og niður og sauma svo (sjá mynd, það er frekar erfitt að útskýra þetta).

Svo snéri ég þessu aðeins og saumaði fyrir botninn. Svo mældi ég út þríhyrning báðum megin þannig að það var jafn mikið efni báðum megin saumsins, merkti, saumaði og klippti (eins og ég gerði þegar ég var að gera körfurnar).

Núna er taskan sjálf eiginlega tilbúin. Ég vildi fóðra hana þannig að ég bjó til eins „poka“ sem var aðeins minni en taskan sjálf úr efni sem ég átti. Ég hafði hann ekki alveg eins háan vegna þess að ég vildi ekki að fóðringin næði alla leiðina upp. Svo handsaumaði ég fóðringuna við töskuna. Það tók tíma en mér fannst þetta koma miklu betur út svona.

Þá var komið að ólunum.

Ég skar ræmur úr sama efni og fóðringin og gallaefni úr skálmunum. Ég hafði gallabuxnaræmurnar aðeins breiðari en efnisræmurnar og þegar ég saumaði þetta saman þá setti gallabuxnaefnið með röngu á móti röngu og efnið þar ofan á, saumaði þetta svo með sikk-sakk munstri. Ég seti þetta svo í þvottavélina til að fá þetta tjásulegt. Svo mældi ég réttan stað og saumaði ólarnar á töskuna.

Ég notaði svo smellur sem ég handsaumaði inn í töskuna og setti tölur á vasana til að skreyta.

Og vitið þið hvað er það eina sem vantar núna? Handavinnu til að setja í töskuna, hvað annað?!

 

SHARE