Freyja mín

 

Kl 9:00 11.janúar 2006 kemur ein lítil tvítug kasólétt Þóranna, gjörsamlega búin á því og ósofin eftir stríð við hríðir, svefn og verkjalyf í eina viku, gat ekki meir. Mér er tilkynnt að ég verði sett af stað og hún Freyja ætli að aðstoða mig í dag. Ég man gjörsamlega ósofin Þóranna lítur á þessa fallegu ljóshærðu vingjarnlegu konu í fyrsta skipti og spyr: “Hvað er það?” Freyja heldur aftur að sér hlátrinum og segir: “Það þýðir að við ætlum að framkvæma fæðinguna, barnið kemur í dag.” Með tvær ljósmæður að finna útúr því hvaðan blæðingin kæmi eftir fæðinguna mína heyri ég hina segja við Freyju: “Segðu mér að þú sért nú allavegana ennþá stimpluð inn?” Freyja : “Nei nei ég stimplaði mig út fjögur.” Freyja fór ekki heim fyrr en uppúr 20:00 sama dag. Stóð þétt við litlu Þórönnu allan daginn. Ég hef aldrei verið einni konu jafn þakklát.

Kl 8:00 25.maí 2012. Ég hafði verið uppá deild í klukkutíma eða svo með annað barnið mitt, bara ný búin að fá mænudeyfingu þegar Nína (sem er einnig frábær ljósmóðir) segir við mig: “Jæja Þóranna mín, ég er að fara heim en það eru tvær komnar á vakt í dag sem taka við, annahvort Freyja…” FREYJA æpi ég upp yfir mig, ég vil fá Freyju. Nína hlær og segir mér að það ætti nú ekki að vera vandamál að Freyja kæmi til mín. “Nei ertu komin aftur, æi þú varst svo lítil síðast þegar ég tók á móti hjá þér” Kemur Freyja mín og nær að taka á móti barni númer tvö, það gekk nú allt ljómandi vel, við vorum kannski ekki sammála með mænudeyfinguna en hún leyfði mér alfarið að ráða ferðinni. “Jæja Þóranna mín svo hringiru í mig með næsta barn, við förum ekkert að rjúfa þessa hefð,” segir Freyja við mig með sitt hlýja bros þegar hún er að fara heim af vaktinni sinni. Mér hlýnaði allverulega, þó mér þótti nú ólíklegt að svo yrði einhverntíman aftur.

Nóvember 2013 sit ég á kaffihúsi, kasólétt og buguð af mínu þriðja barni! Með mín eldri með mér. “Hæ elsku snúllan mín, áttu von á þér aftur? Og eru þetta börnin mín?” heyri ég fallega rödd koma fyrir aftan mig, Ó Freyja var komin. Á réttum tíma á réttum stað. Hún spyr mig hvenær ég eigi að eiga, “Þú hringir í mig Þóranna” … mhm hugsaði ég, ég ætla einmitt að fara ónáða hana svona ef hún er ekki að vinna þegar ég fer af stað, af því í sjálfselsku minni þætti mér ekkert betra en ef hún kæmi.

6.janúar 2014. Ég var komin aðeins fram yfir settan dag, lifði það af en mikið ósköp var ég orðin þreytt. Síminn minn hringir “hæ Þóranna mín, þetta er Freyja hérna hvernig hefuru það?” JÁ ég átti voðalega erfitt með að hemja tárin við þetta símtal. Þarna hafði ég nú ekki heyrt í henni siðan ég rakst á hana á kaffihúsinu og hafði nú ekki hugsað mér það, eins mikið og mig langaði það hefði ég aldrei haft það í mér. Ég segji henni stöðu mála “já elskan ég er á kvöldvakt á morgun, endilega kíktu á mig og við förum yfir stöðuna.” Ég fann fyrir svo mikilli ró. Þvílíkur léttir, ég lagðist róleg á koddann þetta kvöld – ég fæ að hitta Freyju mína á morgun.

Kl 7:00 7.janúar -NEEEEEI ekki strax hugsaði ég… ég ætla ekki strax af stað, Freyja fer ekki á vakt fyrr en kl 16:00 – en því miður ræður maður þessu víst ekkert! Með bullandi hríðir tek ég krakkana til fyrir skóla og dagmömmu, hringi uppá deild og bruna uppeftir. Jæja… yndisleg ljósa tekur á móti mér og við förum inní fæðingarherbergið. ÉG ER KOMIN… kemur þessi engill, já hún Freyja min lét sig ekki vanta þrátt fyrir að vera ekki á vakt. Hvernig hún frétti af mér uppá deild er mér en hulin ráðgáta, ég giska á að hún hafi verið búin að láta vita að hún ætti von á barni sem hún ætlaði sér að taka á móti og það hafi verið hringt í hana, en ég veit það svosem ekki. En þarna var hún komin, ný vöknuð og til í slaginn með mér í þriðja skiptið. Hún er með mér þarna til að verða 14:00, fer heim í hádegismat og sturtu og er svo mætt aftur í vinnu kl 16:00.

Ég hef sjaldan verið jafn þakklát einni konu í lífi mínu og ljósmóður minni henni Freyju.

Takk fyrir elsku ljósmæður fyrir að helga líf ykkar því að aðstoða okkur í að koma öðru lífi í heiminn, að vera til staðar fyrir okkur þegar við tökumst á við þetta krefjandi verkefni. Þetta hefði ég ekki getað án þín elsku Freyja.

SHARE