Fullorðið fólk með ADHD – Ert þú með einkennin?

Inni á síðunni adhd.is eru frábærar lýsingar á ADHD en það getur hrjáð börn sem og fullorðna.

Í grein eftir Grétar Sigurbergsson geðlækni um ADHD hjá fullorðnum kemur ýmislegt nytsamlegt og fróðlegt fram um ADHD hjá fullorðnum.

Einkenni ADHD

Höfuðeinkenni ADHD eru þrennskonar: Athyglisbrestur, ofvirkni og hvatvísi. Tvö síðastnefndu einkennin fylgjast oftast að og eru mjög áberandi einkenni hjá mörgum sem þjást af ADHD, en hafa þarf hugfast að athyglisbrestur getur verið til staðar án þess að honum fylgi ofvirkni eða hvatvísi. Í þeim tilfellum er erfiðara að greina kvillann og tilvist ADHD fer þá gjarnan fram hjá foreldrum og kennurum og greinist þá stundum ekki fyrr en vaxandi námsörðuleikar koma í ljós eða við bætast s.k. fylgiraskanir (=fylgikvillar), sem með aldrinum einkenna ADHD í æ ríkara mæli og vikið verður að síðar. Hér á eftir verður fjallað nánar um ofangreind einkenni, einkum eins og þau lýsa sér hjá fullorðnum. Mörg af þeim einkennum sem minnst verður á kannast flestir, sem ekki þjást af ADHD, við að hafa upplifað stöku sinnum. Sá sem er með ADHD er aftur á móti alltaf og yfileitt stöðugt með þessi einkenni. Við greiningu á ADHD þarf að hafa hugfast að allir geta verið utan við sig öðru hvoru, á köflum jafnvel virst ofvirkir eða hvatvísir. Allir þekkja t.d. það að missa þráðinn við lestur bóka öðru hvoru eða glopra út úr sér orðum, sem betur hefðu verið ósögð. Allir kannast við að fara á milli herbergja á heimili sínu til að sækja eitthvað en steingleyma síðan hvert erindið var. Þetta hendir okkur öll stöku sinnum. Sá sem er með ADHD upplifir slíka hluti alltaf.

Athyglisbrestur: Hjá fullorðnum með ADHD er athyglisbrestur oftast höfuðvandamálið. Þetta einkenni hverfur síður en önnur með aldrinum. Um er að ræða einbeitingarskort, erfiðleika við að halda athyglinni vakandi nema stutta stund í einu við sama viðfangsefni, sérstaklega ef efnið er ekki áhugavert. Þá er tilhneiging til  að fara stöðugt úr einu í annað, eiga í erfiðleikum með að byrja á viðfangsefni og ekki síður við að ljúka við það. Fólk kvartar um minnisleysi, það þurfi að skrifa allt á minnismiða, týni endurtekið hlutum eins og lyklum, farsímum, fötum o.s.frv. og eyði miklum tíma við að leita að hlutum.

Þessu geta fylgt erfiðleikar við lestur bóka. Fólk missir þráðinn við lesturinn og fer að hugsa um eitthvað allt annað, sérstaklega ef söguþráðurinn er ekki þeim mun áhugaverðari. Það sama getur gerst í samtölum við fólk. Maður hættir að taka eftir því sem fólk er að segja við mann í miðju samtali og hugurinn reikar að allt öðru, jafnvel dagdraumum. Þetta getur komið sér mjög illa í samskiptum við aðra og maður getur virkað utan við sig, annars hugar eða eins og úti á þekju.

Sérstaklega er athyglisbrestur bagalegur fyrir námsmenn. Ef fólk er með góða greind, getur það spjarað sig allvel á fyrri stigum menntunar s.s. í grunnskóla. Þegar námið þyngist og kröfur aukast um viðvarandi einbeitingu og verkefnaskil, getur ADHD fyrst farið að valda verulegum námsörðugleikum. Sumum tekst að bæta þetta upp með því að eyða meiri tíma í heimavinnuna, lesa námsefnið aftur og aftur. Algengt er að ungt fólk, jafnvel ágætlega greint og efnilegt, gefist upp í framhaldsskóla á þessu stigi, jafnvel aftur og aftur. ADHD leiðir þannig gjarnan til þess að fólk er langt undir getu í námi og síðar meir einnig í starfi.

Athyglibrestur hefur í för með sér skipulagsleysi. Hlutir svo sem pappírar, þvottur, fatnaður o.s.frv. hefur tilhneigingu til að safnast í hrúgur og erfiðlega gengur að finna það sem á þarf að halda hverju sinni. Þegar athyglisbrestur er á háu stigi getur fólk átt í sífelldum vandræðum með að rata um götur borga, jafnvel um heimaslóðir. Sumir geta verið mjög annars hugar við akstur bifreiða. Þá hendir marga að fara framhjá fyrirhuguðum áfangastað. Fólki með athyglisbrest er hættara en öðrum að lenda í vandræðum í umferðinni.

Athyglisbrestur hefur í för með sér að maður á erfitt með að fara eftir leiðbeiningum vegna eftirtektarleysis, muna eftir að gera nauðsynlega hluti, mæta á réttum stöðum á réttum tíma og almennt að setja á minnið það sem nauðsyn krefur. Þetta getur komið sér afar illa t.d. þegar maður gleymir að greiða reikninga, mæta á stefnumót, skila videospólum, standa við loforð. Sumir hafa lélegt tímaskyn í ofanálag.

Ef athyglisbrestur er verulegur, getur fólk átt í mestu erfiðleikum mrð að einbeita sér að sjónvarpi, kvikmyndum o.s.frv. Eftir á man viðkomandi illa söguþráðinn og á erfitt með að rifja upp í huganum atburðarás myndarinnar.

Sé maður með athyglisbrest þarf lítið áreiti eða utanaðkomandi truflun til þess að maður missi einbeitingu. Hver hreyfing eða smáhljóð í umhverfinu getur sett mann út af laginu. Mörgum gengur betur að einbeita sér ef þeir hlusta á tónlist við t.d. heimanám. Með því tekst þá að eyða öðru áreiti og bæta þannig einbeitinguna.

Þeim sem þjást af athyglisbresti gengur oft betur að einbeita sér að tölvuskjá. Tölvan gerir viðfangsefnið afmarkaðra en ella. Bæði börnum og fullorðnum með ADHD er hættara en öðrum að eyða óhóflegum tíma við spennandi tölvuleiki. Spennan bætir einbeitinguna. Þegar verst lætur hverfur einstaklingurinn inn í sýndarheim tölvuleikja, einfaldari heim þar sem auðveldara er að leysa verkefni vel af hendi en í raunveruleika hversdagsins.

Eins og fram hefur komið, þá getur athyglisbrestur verið til staðar án þess að honum fylgi ofvirkni og / eða hvatvísi. Reyndar getur mikill athyglisbrestur leitt til eins konar uppgjafar. Manni fallast hendur í þeirri ruglingslegu tilveru sem getur fylgt ADHD og útkoman verður vanvirkni, gjarnan í heimi dagdrauma.

 

Ofvirkni: Ofvirkni er einkenni sem margir með ADHD losna við að hluta eða að öllu leyti á unglingsárum. Er þá átt við s.k. hreyfiofvirkni, þ.e.a.s. sýnilega ofvirkni. Margir geta með árunum  lært að hemja hreyfiofvirkni  þá sem svo mjög einkennir oft ADHD hjá börnum. Aðrir halda þó áfram að vera sífellt á iði, ekki síst með hendur og fætur, eða þurfa stöðugt að vera á ferðinni, gera margt í einu. Þeir eru fullir ákafa, byrja á verkefnum af miklum krafti og áhuga sem oft er þó skammvinnur. Margt verður þá hálfklárað. Gjarnan eru mörg járn í eldinum á sama tíma.

Jafnvel þótt hreyfiofvirkni minnki eða jafnvel hverfi með tímanum, kvarta flestir áfram um ofvirkni í hugsun. Sumir upplifa hugsun sína eins og “hraðlest” í höfðinu þar sem lítið er um stoppistöðvar.

Þeir sem þjást af ofvirkni tala gjarnan hratt og mikið. Svefnþörf þeirra er gjarnan minnkuð og svefnörðugleikar geta verið viðvarandi vandi. Mörgum finnst hugurinn fara á fulla ferð þegar þeir ætla að sofna og verða andvaka, sem leiðir til þess að erfitt getur verið að vakna að morgninum.

Ofvirknin leiðir m.a. til þess að erfitt verður að hlusta á aðra. Maður forðast athafnir sem krefjast þess að maður sitji kyrr, t.d. við að hlusta á fyrirlestra eða vera við kirkjulegar athafnir. Ofvirkir einstaklingar eru alltaf að flýta sér, ekki síst í umferðinni. Þeir aka hratt og gjarnan óvarlega og eru líklegri en aðrir til að fá endurteknar hraða- og stöðumælasektir og lenda í slysum í umferðinni.

Hvatvísi: Með hvatvísi er átt við að fólk geri eða segi hluti án þess að hugsa málið til enda. Útkoman verður þá fljótfærni á öllum sviðum, pirringur, óþolinmæði, léleg skapstjórn, truflandi framkoma t.d. með því að grípa fram í fyrir öðrum, liggja á flautunni í umferðinni, taka vanhugsaðar ákvarðanir í fjármálum, segja fyrirvaralaust upp vinnu, gjarnan í reiðikasti. Fólk getur þá  virkað eins og það kunni ekki sjálfsagða mannasiði.

Þegar athyglisbrestur og hvatvísi fara saman, liggur manni á að koma hugmyndum sínum á framfæri, vegna þess að annars gleymir maður hvað ætlunin var að segja. Hinn hvatvísi getur verið særandi án þess að ætla sér það. Hann kaupir jafnvel dýra hluti án umhugsunar. Flestir eru endurtekið að skammast sín fyrir hversu orðhvatir þeir eru eða að iðrast sóunar  fjármuna sinna og vanhugsaðra fjárfestinga.

Hvatvísi getur lýst sér í sókn í spennu og áhættuhegðun af ýmsu tagi. Sem dæmi má nefna fjárhættuspil, hraðakstur, veggjakrot, hættulegar íþróttir og fífldirfsku af ýmsu tagi.

Hvatvísi er í raun skortur á hömlum. “Bremsukerfið” er ekki í gangi. Menn verða bremsulausir í hegðun. Slík hegðun getur verið hættuleg fyrir einstaklinginn sjálfan og stundum aðra vegna skorts á skapstjórn. Sérstaklega getur hegðunin verið hættuleg ef mjög hvatvísir einstaklingar með ADHD neyta hömlulosandi vímuefna, t.d. áfengis, róandi lyfja eða svefnlyfja. Losnar þá ekki einungis enn frekar um hömlur viðkomandi, heldur skerðist dómgreind einnig og samviskan slævist. Við þær kringumstæður aukast líkur á að skapstjórn skerðist enn frekar og að það leiði jafnvel til hættulegs ofbeldis.

Hvatvísi getur lýst sér þannig að hinn hvatvísi virði ekki eðlileg  mörk í mannlegum samskiptum. Hann getur þá virkað ókurteis, uppáþrengjandi, frekur, tillitslaus, truflandi o.s.frv. Sá sem er verulega hvatvís hefur gjarnan tilhneigingu til að svara fólki áður en viðmælandinn hefur lokið við að bera upp spurninguna. Jafnvel er tilhneiging hjá sumum, sem eru hvatvísir, að ljúka við setningar fyrir viðmælendur sína til að “flýta fyrir” og komast þannig sjálfir að með það sem þeim liggur á hjarta.

Eins og ofvirkni, þá getur hvatvísi minnkað eða orðið minna áberandi með árunum. Virðist sem margir, ekki þó allir, læri með tímanum að hemja þetta erfiða einkenni að einhverju eða jafnvel öllu leyti.

 

Hér má finna greinina í heild sinni.

 

SHARE