Glæsileg stofa í hjarta Kórahverfisins

Ég fór í klippingu og litun fyrir skemmstu og fór í fyrsta sinn á M Hárstofu sem er í Kórahverfinu í Kópavogi. Ég bý í Smárahverfinu svo þetta er frekar nálægt heimili mínu. Ég hafði heyrt góða hluti um Möggu, sem er eigandi stofunnar, og séð myndir á Facebook hjá henni og stofunni sem mér fundust flottar.

Margrét Matthíasdóttir, eða Magga, eins og hún er oftast kölluð lærði hársnyrtiiðn í Iðnskólanum í Reykjavík sem í dag heitir Tækniskólinn. Hún útskrifaðist árið 2004 og hefur hún unnið á fleiri stofum en þetta er fyrsta stofan sem hún opnar sjálf.

Þegar ég kom inn á stofuna tók ég strax eftir flottri hönnuninni, litunum og húsgögnunum og allt passaði svo vel saman.

Ég settist í stólinn hjá Möggu, við ákváðum lit og ég fór að spyrja hana út í stofuna. Það kom mér á óvart, að stofan er hönnuð af Möggu og eiginmanni hennar, Róberti en hann er smiður. „Hann hefur mikla reynslu af því að innrétta bæði veitingastaði og verslanir. Við skoðuðum mikið Pinterest líka til að fá hugmyndir,“ sagði Magga í samtali okkar. Hún sagði líka að þetta hverfi væri þeirra hverfi, en þau búa rétt fyrir aftan stofuna, svo það hefði verið nokkuð gefið að opna stofuna þarna.

„Ljósin voru í rýminu þegar við tókum við því en þurftum aðeins að bæta við kösturum á vinnusvæðinu. Speglarnir eru sérsmíðaðir af Róbert en spegillinn sjálfur er frá Íspan,“ segir Magga.

Ég tók eftir þessari skemmtilegu viðarklæðningu við vaskana og í vöruhillunum frammi við afgreiðsluna og Magga sagði mér að Róbert hefði brennt furu og lakkað yfir. Ótrúlega flott!

Húsgögnin í biðstofunni voru eins og punkturinn yfir i-ið fyrir heildarútlitið en þau komu úr Rúmfatalagernum.

Smelltu hér til að sjá meira um M hárstofu og jafnvel panta tíma.

SHARE