Gleðilegt nýtt ár!

Gleðileg jól, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt. Síðasta ár var frábært, uppfyllt af skemmtilegum ævintýrum og ég veit að næsta ár verður eins.

Í nokkur ár hef ég útbúið samverudagatal í desember handa okkur fjölskyldunni. Krakkarnir hafa dýrkað það og þegar ég sagði dóttur minni að ég ætlaði að færa samverudagatalið fram í janúar þá sagði hún að það yrðu engin jól. Dramadrottning. En ég sá það bara síðasta desember að þessi mánuður var einfaldlega orðinn of fullbókaður hjá okkur. T.d. eina helgina þá fórum við í tvö afmæli, sonur minn í eitt afmæli til viðbótar, danssýning hjá dóttur minni og ég þurfti að klára jólakortin. Og að hafa ætlað að troða samverudagatali inn í þetta, sólahringurinn er einfaldlega ekki nógu langur.

Ég byrjaði á því að panta gyltar og silfurlitaðar blöðrur að utan (og sparaði mér þannig töluverðan mikinn pening) og útbjó merkimiða til að setja á blöðrurnar. Ég vissi að ég yrði að hafa 2 liti til að koma í veg fyrir bardaga á hverjum morgni. Svo settist ég niður við tölvuna, skrifaði niður 31 spennandi atriði til að gera saman og prentaði út. Það var áskorun að finna 31 atriði sem voru ekki jólatengd en það tókst. Ég setti svo einn miða í hverja blöðru, þræddi stútinn í gegnum gatið á merkimiðanum og blés blöðruna svo upp áður en ég batt hana á borða. Þegar allar 31 blöðrunar voru komnar á bandið þá festi ég borðann upp.

Svo voru það reglurnar. Það má ekki sprengja blöðru fyrr en kl. 7 á virkum dögum og ekki fyrr en kl. 10 um helgar. Annað barnið mun bara sprengja silfurblöðrurnar og hitt gulllituðu.

Ég hreinlega veit ekki hver er spenntari yfir þessu, ég eða krakkarnir.

SHARE