Gömlu góðu fiskibollurnar – Uppskrift

Þessi fiskibolluuppskrift hefur gengið fjölskyldna á milli í móðurættinni. Kannski með einhverjum breytingum í gegnum tíðina en grunnurinn er alltaf sá sami.
Þessi uppskrift gefur virkilega góðar fiskibollur.  Stórir sem smáir munnar kjamsa á bollunum.

2 fiskflök (þorskur eða ýsa – best að hafa eitt og eitt)
2 laukar
3 egg
Spelt/hveiti
Kartöflumjöl
Salt
Pipar
2-3 msk hveitikím

Aðferð
1.    Hakkið fiskflökin í matvinnsluvél.
2.    Hakkið laukinn.
3.    Brjótið 3 egg í glas.
4.    Takið tvö glös í viðbót og látið spelt/hveiti og kartöflumjöl í sitthvort glasið svo verði jafn mikið og eggin – þannig að spelt/hveiti, kartöflumjöl og egg ná jafnhátt í öllum glösunum þremur.
5.    Blandið fiskfarsinu, lauknum, eggjunum, speltinu/hveitinu og kartöflumjölinu vel saman í hrærivél.
6.    Saltið vel og piprið.
7.    Bætið 2-3 msk af hveitikími við og hrærið vel (má sleppa).

Ef lögunin er þunn skaltu bæta kartöflumjöli út í. Þú átt að geta mótað bollu í skeið og bollan á að halda lögun á pönnunni.

8.    Setjið vel af olíu á pönnu og mótið hæfilegar stórar bollur   með skeið. Steikið þar til góð gylling fæst á báðar hliðar.

Uppskriftin gefur 24 – 30 bollur (fer eftir stærð fiskflaka og lauks).
Gerir oftast 2 skammta fyrir miðlungs stóra fjölskyldu.  Gott að skipta í tvo zip loc poka og setja í frysti.  Þegar á að borða bollurnar er best að taka þær út um morguninn og baka þær við 170 gráður í 15-20 mín.
Ef það á að borða annan skammtinn strax er það bara eins nema ekki frysta.  Grjón og sætar kartöflur er mjög klassískt meðlæti.  Jafnvel brún eða karrýsósa.

 

 

SHARE