Það sem börn segja getur oft verið alveg hrikalega fyndið eða brætt mann gjörsamlega nokkrum sinnum á dag, og börnin mín eru sko engin undantekning. Frá því að eldra barnið mitt fór að tala þá hef ég passað mig að skrásetja þessi gullkorn (og á öld snjallsímans þá gæti það ekki verið auðveldara), vegna þess að þú heldur kannski að þú munir muna eftir þessu, en trúðu mér, þú munt gleyma þessum gullkornum. Hérna er smá úrval af því sem mín hafa sagt.

Þegar þau voru yngri kúruðum við foreldrarnir alltaf til skiptist hjá þeim þangað til að þau sofnuðu. Ég “átti vaktina” eitt kvöldið, hélt að sonur minn væri sofnaður og stóð upp til að fara fram. Þá heyrði ég rosalega syfjulega rödd koma frá rúminu “mamma, ég er ekki sofnaður, ég skal bara láta þig vita þegar ég er það.” Sonur minn er hæfileikaríkur, en ég veit ekki alveg hvernig hann ætlaði að fara að því, tala upp úr svefni???

Dóttir mín er fædd á Indlandi og er með fallega kaffibrúna húð. Þegar hún var 4 ára þá átti leikskólinn hennar afmæli og í tilefni þess þá fengu krakkarnir súkkulaðiköku í eftirrétt. Og þið getið rétt ímyndað ykkur, 20 stykki af 4 ára krökkum og súkkulaðikaka, auðvitað fór súkkulaðið út um allt þannig að kennarinn sagði “jæja, allir inn á bað að þvo sér, þið eruð súkkulaðibrún upp fyrir haus.” Dóttir mín var ekki lengi að setja hendur á mjaðmir og segja “ég á að vera svona brún!” Ég vildi óska þess að ég hefði getað séð svipinn á vesalings manninum, hún sló öll vopn gjörsamlega úr hendinni á honum.

Sjá einnig: Hann er ekki tilbúinn í barn númer 4!

Dagurinn hjá mér byrjar ekki fyrr en ég er búin að fara í bað, þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera. Sonur minn veit þetta. Einn sunnudagsmorgun þá erum við að kúra saman uppi í hjónarúminu og hann spyr mig hvort að ég ætli í bað núna. Ég svaraði nei, ég ætlaði að hvíla mig aðeins lengur. Þá kom hjá honum “já, svo að þú sofnir ekki í baði.” Jebb, best að koma í veg fyrir það.

Foreldrar mínir eru fjárbændur og eitt af því sem því fylgir eru göngur á haustinn. Það er alltaf mikill áfangi í fyrsta skiptið sem ungur einstaklingur fær að fara í göngur og þegar dóttir mín var 7 ára var komið að henni. Hún var mjög spennt, fór með nesti, reyndara fólk var auðvitað með henni, allt gekk vel og þegar daman mín kom niður af fjalli þá hljóp hún til ömmu sinnar og sagði “amma, ég er komin niður af fjallinu og ég lifði af”. Þannig að, ef þið haldið að hún sé dramadrottning (hún reyndar segist bara vera drottning) þá er svarið já.

Sjá einnig: 10 börn í einu herbergi – „Ég er frábær móðir“

Ég nota heyrnatæki og ég söng í kór. Einu sinni þegar ég var á leiðinni heim af æfingu þá kláraðist batteríið í heyrnatækinu þannig að ég fer beint í að skipta um það. Sonur minn sér að ég er eitthvað að föndra við tækið og spyr hvort að batteríið sé búið. Ég segi já, þá svarar hann “já, það er svona að syngja í kór.” Allar þessar syngjandi kvennraddið….ekki skítið þó að batteríið væri búið.

Ég var einhverntímann að tala við börnin mín um hvað það væri allt í lagi að vera sérstakur eða öðruvísi (aðallega vegna þess að þau eru svo dökk) og sagði “sjáið mig, ég er minni en allir aðrir og mér finnst það bara fínt.” Dóttir mín varð þvílíkt reið við mig og sagði “nei mamma, ekki segja þetta, vegna þess að mínu hjarta þá ertu rosalega rosalega stór”. Mundu, þó að í augum heimsins þá ertu kannski ein lítil mannvera, en í augum barnanna þinna þá ertu heimurinn.

 

 

 

 

SHARE