Gulrótar- og kókossúpa frá Cafe Sigrún – Uppskrift

Vetur konungur skartar sínu fegursta um þessar mundir. Ég elda oft súpur þegar kalt er í veðri en líka þegar ég þarf að hreinsa til í ískápnum. Yfirleitt elda ég stóran skammt í einu vegna þess að súpur eru næstum alltaf betri daginn eftir. 
Ég á mér nokkrar uppáhalds, ein þeirra kemur úr fórum www.cafesigrun.com og hefur hún veitt mér góðfúslegt leyfi til að birta hana hér. Ég hreinlega elska uppskriftirnar hennar Sigrúnar og hef prófað þær margar í gegnum árin. Það góða við þær er að þær klikka aldrei og eru alltaf jafn bragðgóðar og ljúfengar. 
Til fróðleiks fyrir þá sem þola illa sykur, ger og hveiti notar hún aldrei slíkt í uppskriftir sínar. Hún er líka með úrval af grænmetis- og hráfæðiuppskriftum fyrir þá sem borða ekki kjöt.

Þessi súpa er stútfull af A, C og K vítamínum ásamt trefjum og hentar þeim sem eru með mjólkuróþol, glútenóþol og grænmetisætum. Ekki spillir að hún er ódýr, einföld og þægileg. Best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.

gulrotar-_og_kokossupa_fra_zanzibar

Gulrótar- og kókossúpa frá Cafe Sigrún
http://www.cafesigrun.com/gulrotar-og-kokossupa-fra-zanzibar
Fyrir 4

Innihald
•    1 stór laukur saxaður
•    2 msk ferskt engifer, saxað
•    4 hvítlauksgeirar, saxaðir
•    300 g gulrætur, afhýddar og saxaðar gróft
•    150 g sætar kartöflur, afhýddar og saxaðar gróft
•    2 tsk kókosolía og vatn til viðbótar ef þarf
•    1 tsk karrí
•    2 gerlausir grænmetisteningar
•    750 ml vatn
•    150 ml kókosmjólk
•    1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) ef þarf
•    Hvítur pipar, ef þarf
•    Smá klípa saffran (má sleppa en gefur fallegan lit)

Aðferð
1.    Afhýðið lauk, sæta kartöflu, engifer og hvítlauk og saxið gróft.
2.    Afhýðið gulræturnar og sætu kartöflurnar og saxið gróft.
3.    Hitið kókosolíuna í potti og steikið laukinn þangað til hann fer að linast. Ef vantar meiri vökva, notið þá vatn.
4.    Bætið hvítlauknum og engiferinu út í og steikið áfram.
5.    Bætið karríinu út í og hrærið vel.
6.    Bætið helmingnum af vatninu út í og svo gulrótunum og sætu kartöflunum. Hitið þangað til grænmetið fer að mýkjast.
7.    Bætið afgangnum af vatninu ásamt grænmetisteningunum út í og hrærið vel.
8.    Látið malla í 15 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
9.    Bætið kókosmjólkinni út í.
10.    Bætið saffrani út í ásamt salti og pipar eins og þarf.
11.    Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Kælið súpuna aðeins ef þið setjið hana í matvinnsluvél og blandið í smá skömmtum.

Gott að hafa í huga
•    Berið fram með snittubrauði eða kókosbrauðbollum.
•    Ef þið viljið þynnri súpu bætið þá aðeins meira af vatni út í. Einnig getið þið haft súpuna grófari með því að blanda hana ekki lengi í matvinnsluvél. Mér finnst best að hafa hana eins silkimjúka án nokurra bita.
•    Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
•    Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
•    Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
•    Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
•    Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.

SHARE