Gulrótarbrauð með sólþurrkuðum tómötum og hirsi frá Café Sigrún

Þetta er orkumikið brauð og tilvalið á köldum vetrardegi þegar mann langar að kúra sig inni með te, brauð og ost. Brauðið er mjög gott að því að það eru mörg nauðsynleg vítamín og steinefni í því (inniheldur m.a. sólblómafræ, gulrætur, hirsi, hveitiklíð, spelti, jógúrt) og ætti að hjálpa okkur að brosa í skammdeginu. Að minnsta kosti að láta okkur líða heilsusamlega. Turmeric gefur líka fallegan, gulan lit.

Innihald
•    200 g spelti
•    20 g hveitiklíð
•    1 mtsk vínsteinslyftiduft
•    1 tsk turmeric
•    1 tsk salt (Himalaya og sjávarsalt
•    10 sólþurrkaðir tómatar (ekki í olíu), saxaðir smátt
•    30 g gulrætur, skrældar og rifnar á rifjárni
•    100 ml AB mjólk eða sojajógúrt
•    50 ml sjóðandi vatn eða meira/minna eftir þörfum
•    1 msk agavesíróp
•    30 g sólblómafræ
•    15 g hirsi, heilt (enska: millet)

Aðferð
1.    Blandið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftidufti, salti, turmeric, hveitiklíð og hirsi.
2.    Rífið gulræturnar fínt á rifjárni.
3.    Saxið sólþurrkuðu tómatana smátt.
4.    Blandið saman AB mjólkinni og agavesírópinu og hellið út í stóru skálina. Hrærið varlega (8-10 sinnum þannig að hráefnið rétt nái að blandast saman).
5.    Bætið sólblómafræjunum, sólþurrkuðu tómötunum og gulrótunum út í og hrærið varlega nokkrum sinnum.
6.    Bætið vatni út í deigið ef þarf en gætið þess að það verði ekki of blautt. Ágætt er að miða við að deigið leki ekki af sleif en sé þó ekki það þurrt að hægt sé að hnoða það.
7.    Klæðið brauðform að innan með bökunarpappír og hellið deiginu í formið.
8.    Bakið við 180°C í rúma klukkustund.
9.    Til að athuga hvort brauðið er tilbúið getið þið stungið hnífi í miðju þess. Ef hnífurinn kemur nánast hreinn út er brauðið tilbúið. Ef ekki má baka það í 10 mínútur í viðbót (og endurtaka þá leikinn).

Gott að hafa í huga
•    Hægt er að nota t.d. graskersfræ, sinnepsfræ, sesamfræ og margt fleira í brauðið í staðinn fyrir sólblómafræin og gulræturnar.
•    Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo).
•    Ef þið viljið harða skorpu allan hringinn þá er gott að taka brauðið úr forminu síðustu 10 mínúturnar og setja á hvolf í ofninn.
•    Heilt hirsi lítur út svipað og kúskús.

Birt með góðfúslegu leyfi Café Sigrún

SHARE